[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ANDSTÆÐUR og kynþokki einkenna tískusveiflu kvenþjóðarinnar í vor og sumar og yfirbragð hennar er fínlegt. Svart og hvítt, gróft og fínt, gamalt og nýtt.

ANDSTÆÐUR og kynþokki einkenna tískusveiflu kvenþjóðarinnar í vor og sumar og yfirbragð hennar er fínlegt. Svart og hvítt, gróft og fínt, gamalt og nýtt. Fínlegt pils hefur til dæmis að því er virðist raknaðan fald, við það gæti passað aðsniðin skyrta úr grófara efni, netsokkabuxur og strigaskór eða þá támjóir bandaskór. Að ógleymdum fylgihlutum eins og litríkum poka með pallíettum eða útsaumi fyrir smádótið og stórum lituðum sólgleraugum.

Mælt er með að hver finni sína samsetningu stíltegunda, en útkoman á umfram allt að vera kvenleg. Líkast því að farið sé í prinsessuleik að hætti smástelpunnar, sem tekur eina hversdagsflík úr sínum eigin skáp og aðra sparilegri hjá mömmu og bætir við skrauti á borð við gerviblómi í hárið og breiðu belti um mittið. Áhrifa popptísku 6. áratugarins gætir víða og svo diskósins í támjóum hælaskóm, sandölum og stígvélum. Pönkið kemur fram í tættu kögri til dæmis eða netsokkum. Hermannastíll spilar einnig inn í sumartískuna.

Svava Johansen í versluninni Sautján segir liti sumarsins ýmist bjarta og milda eða kraftmikla. Við bætist samsetningar af svörtu og hvítu, oft í sömu flík, og svo kamellitur að ógleymdu gallaefni. Mildu litirnir séu helst fölbleikur, ljósblár, ferskjulitur og lilla og við þá fari brúngullni kameltónninn vel. Af sterkum litum sé blágrænn vinsæll en einnig rauður í bolum og blússum, gjarna með gallafatnaði, og svo í kjólum. Þá sé beinhvítt "inni" eins og flest sumur en snjóhvítt afar áberandi, jafnvel í alfatnaði.

Svava segir gallabuxur og leðurjakka nær ómissandi í sumar og sama gildi um skrautlega fylgihluti. Hún segir teygjuefni vinsæl, ekki síst í jakkafötum og dröktum. Jakkar séu aðskornir og frekar stuttir og pils að styttast, um og upp fyrir hné, jafnvel upp í "míní". Buxur séu þröngar um mjaðmir og læri en víkki neðst. Yfirleitt séu þær síðar, þótt kvart-buxur sjáist líka. Bolir séu oft flegnir út á axlir en skyrtur verði sérlega áberandi. Andstæður hins grófa og fínlega koma hjá Svövu m.a. fram í gallapilsi, tættu á hliðunum, við fínlega blússu. Hún segir sígilda evrópska hönnuði ráðandi hjá sér, auk ungra Breta.

Föt Rögnu Fróða hönnuðar fást í Kirsuberjatrénu, en hún er eins og Svava nýkomin að utan með ferska strauma. Lykilorð Rögnu eru kvenleiki og léttleiki, samsetningar ólíkra áferða, efna og lita. Flíkur vill hún fínlegar en oft með grófum frágangi.

Litagleði segir Ragna áberandi, til dæmis í útsaumuðum myndum, og alls konar glingur. Ragna ætlar að hvíla síðu pilsin í bili eða stytta þau og blanda andstæðum í flíkum sínum. Hún nefnir annars eins og Svava að víða sjáist áhrif 6., 8. og 9. áratugarins, til dæmis mætti hafa grófan jakka við pallíettukjól. Snið segir Ragna löguð að líkamanum, með greinilegu mitti, en ekki níðþröng. Sjálfstæði sé málið, enginn einn einkennisbúningur gildi.

þþ