Að sögn Ágústs Þórs Bragasonar, forseta bæjarstjórnar Blönduóss, eru 660 manns á kjörskrá á Blönduósi en 52 í Engihlíðarhreppi. Þeir einir mega kjósa sem lögheimili eiga í sveitarfélögunum tveimur þegar kjörskrá var lögð fram, hinn 17. mars síðastliðinn, og eru fæddir 7. apríl 1983 eða fyrr. Hinn 1. desember sl. voru búsettir í sveitarfélögunum báðum 999 íbúar, 929 á Blönduósi og 70 í Engihlíðarhreppi. Hið nýja sveitarfélag, ef sameining gengur eftir, stækkar til norðurs og austurs og verða norðurmörk í megindráttum um Laxá á Refasveit og liggja að hinu fámenna sveitarfélagi Vindhælishreppi. Austurmörk eru við eyðibýlið Strjúgsstaði í Langadal sem tilheyrir Bólstaðarhlíðarhreppi. Ef af sameiningu Blönduóss og Engihlíðarhrepps verður verða sveitarfélögin í A-Húnavatnssýslu níu talsins. Á Blönduósi verður kosið í Félagsheimilinu og hefst kjörfundur kl. 10 og lýkur kl. 22. Í Engihlíðarhreppi hefst kjörfundur kl. 12 og er stefnt að því að honum ljúki kl. 18 en kosið verður á Fremstagili. Talning hefst kl. 22 í hvoru sveitarfélagi fyrir sig og er stefnt að því að úrslit liggi fyrir um miðnætti. Að sögn Ágústs Þórs geta þeir sem áhuga hafa fylgst með talningu í félagsheimilinu "en mest er um vert að kjörsókn verði mikil", sagði Ágúst Þór Bragason að lokum.