[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Blönduósi- Kosningar um þá tillögu samstarfsnefndar Blönduósbæjar og Engihlíðarhrepps að sameina Blönduósbæ og Engihlíðarhrepp í Austur-Húnavatnssýslu hefst á morgun, 7. apríl, og gilda um hana almenn lagaákvæði um kosningar til sveitarstjórna.
Blönduósi- Kosningar um þá tillögu samstarfsnefndar Blönduósbæjar og Engihlíðarhrepps að sameina Blönduósbæ og Engihlíðarhrepp í Austur-Húnavatnssýslu hefst á morgun, 7. apríl, og gilda um hana almenn lagaákvæði um kosningar til sveitarstjórna. "Já" og "nei" eru þau hugtök sem fólk þarf að taka afstöðu til. "Já" segja þeir sem styðja sameiningartillöguna en þeir sem eru henni mótfallnir segja "nei". Til að tillaga um sameiningu nái fram að ganga þarf meirihluti íbúa í hvoru sveitarfélagi um sig að samþykkja tillöguna og gildir þá einfaldur meirihluti.

Að sögn Ágústs Þórs Bragasonar, forseta bæjarstjórnar Blönduóss, eru 660 manns á kjörskrá á Blönduósi en 52 í Engihlíðarhreppi. Þeir einir mega kjósa sem lögheimili eiga í sveitarfélögunum tveimur þegar kjörskrá var lögð fram, hinn 17. mars síðastliðinn, og eru fæddir 7. apríl 1983 eða fyrr. Hinn 1. desember sl. voru búsettir í sveitarfélögunum báðum 999 íbúar, 929 á Blönduósi og 70 í Engihlíðarhreppi. Hið nýja sveitarfélag, ef sameining gengur eftir, stækkar til norðurs og austurs og verða norðurmörk í megindráttum um Laxá á Refasveit og liggja að hinu fámenna sveitarfélagi Vindhælishreppi. Austurmörk eru við eyðibýlið Strjúgsstaði í Langadal sem tilheyrir Bólstaðarhlíðarhreppi. Ef af sameiningu Blönduóss og Engihlíðarhrepps verður verða sveitarfélögin í A-Húnavatnssýslu níu talsins. Á Blönduósi verður kosið í Félagsheimilinu og hefst kjörfundur kl. 10 og lýkur kl. 22. Í Engihlíðarhreppi hefst kjörfundur kl. 12 og er stefnt að því að honum ljúki kl. 18 en kosið verður á Fremstagili. Talning hefst kl. 22 í hvoru sveitarfélagi fyrir sig og er stefnt að því að úrslit liggi fyrir um miðnætti. Að sögn Ágústs Þórs geta þeir sem áhuga hafa fylgst með talningu í félagsheimilinu "en mest er um vert að kjörsókn verði mikil", sagði Ágúst Þór Bragason að lokum.