"Þorskaflakerfi smábáta hefur nú verið í gildi í nokkur ár. Þegar Þorsteinn Pálsson kom þessu kerfi á fyrir nokkrum árum í samvinnu við Landssamband smábátaeigenda sýndi hann mikla framsýni og skilning á því að í íslensku atvinnulífi þarf framtak einstaklinganna að fá að njóta sín og að ákveðið svigrúm er nauðsynlegt til að aðrir en fjársterk fyrirtæki geti náð árangri í sjávarútvegi," segir formaður Árborgar, félags smábátaeigenda á Suðurlandi, Þorvaldur Garðarsson, í samtali við Verið.
Hann segir að þorskaflahámarkskerfið, svo og dagakerfi smábáta hafi reynst hinum dreifðu byggðum ákaflega vel og hafi það skipað sér ákveðinn sess í útgerðarmynstri hinna ýmsu sjávarbyggða. Það sé því að hans mati hrein skemmdarstarfsemi að hreyfa við því kerfi með kvótasetningu eins og nú standi fyrir dyrum.
Á Suðurlandi myndi fyrirhuguð kvótasetning hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir smábátaútgerðina þar sem ýsuafli á línu hafi farið vaxandi undanfarin ár og þeir smábátar sem þar séu gerðir út muni almennt fá engan eða mjög lítinn ýsukvóta. "Ég skora því hér með á sjávarútvegsráðherra og alþingismenn alla að fresta eða ógilda á þessu þingi lögin sem kveða á um kvótasetningu krókabáta og koma þar með í veg fyrir stórtjón á atvinnumynstri sjávarbyggðanna allt í kringum landið. Til hvers að breyta því sem gott er," segir Þorvaldur Garðarsson.