EINS og spáð hafði verið er hafið eitt mesta sólgos sem sögur fara af en stjörnufræðingar segja að jörðin sé ekki í skotlínunni að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC .

EINS og spáð hafði verið er hafið eitt mesta sólgos sem sögur fara af en stjörnufræðingar segja að jörðin sé ekki í skotlínunni að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Sólgosið er mikil sprenging sem varð rétt yfir yfirborði sólarinnar. Snúningur hennar gerir að verkum að svæðið, sem gosið varð á, snýr ekki að jörðinni. Þar af leiðir að mikið ský hlaðinna einda sem gosið sendi út í geiminn mun ekki lenda á jörðinni. Þetta gos telst mun stærra en það sem varð í mars 1989 og olli því að víðtækt raforkudreifikerfi í Kanada varð óstarfhæft og sex milljónir manna voru án rafmagns í níu klukkustundir.

Það svæði á sólinni þar sem gosið varð, svonefnt Noaa 9393, er um það bil 13 sinnum stærra en jörðin. "Það er kannski heppilegt að þetta gerðist ekki um síðustu helgi því að þá hefði gasskýið næstum örugglega stefnt á jörðina," sagði dr. Paal Brekke, vísindamaður við sólarrannsóknarstöðina Solar and Heliospheric Observatory (Soho).

Geislun frá gosinu hafði engu að síður tímabundin áhrif á útvarpssamskipti, en flugfarþegar voru þó ekki í neinni hættu. Vera kann að viðkvæm raftæki úti í geimnum hafi laskast. Sólgos eru einhver öflugustu gos sem verða í sólkerfinu og í þeim getur losnað orka sem er á við milljarð megatonna af sprengiefninu TNT. Gosin verða vegna skyndilegrar losunar segulorku.