SAMKEPPNISRÁÐ hefur tekið samtals 317 ákvarðanir á tímabilinu frá 1. janúar 1994 til 5. apríl 2001. Á þessu tímabili hefur 112 ákvörðunum samkeppnisráðs eða 35% verið áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Samkeppnisstofnun í gær.
24 ákvarðanir hafa verið felldar úr gildi
Áfrýjunarnefndin felldi úr gildi 24 ákvarðanir samkeppnisráðs á þessu tímabili, eða 19% þeirra mála sem skotið hefur verið til nefndarinnar.Auk ákvarðana sem samkeppnisráð tekur hefur einnig verið áfrýjað 13 ákvörðunum sem Samkeppnisstofnun hefur tekið en skv. samkeppnislögum getur Samkeppnisstofnun farið með ákvörðunarvald samkeppnisráðs á afmörkuðum sviðum, ef um minniháttar mál er að ræða.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest eða vísað frá 88 ákvörðunum samkeppnisráðs, sem eru rúmlega 70% allra málskota til áfrýjunarnefndarinnar á þessu rúmlega 7 ára tímabili.
13 ákvarðanir voru staðfestar að hluta eða 10% málskota til nefndarinnar. Samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga geta ákvarðanir samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar sætt kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í nefndinni eiga sæti þrír menn skipaðir af viðskiptaráðherra eftir tilnefningu Hæstaréttar.
Formaður áfrýjunarnefndarinnar er Stefán Már Stefánsson lagaprófessor en aðrir aðalmenn í nefndinni eru Erla S. Árnadóttir hæstaréttarlögmaður og Anna Kristín Traustadóttir endurskoðandi.
Hærra hlutfall ákvarðana staðfest hér en í nágrannalöndum
Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Samkeppnisstofnun í gær er hlutfall þeirra úrskurða samkeppnisyfirvalda sem áfrýjunarnefndin hefur staðfest mun hærra hér á landi en í nágrannalöndum þar sem slíkar áfrýjunarnefndir eru til staðar. Reynslan hefur hins vegar verið sú bæði hér á landi og í nágrannalöndunum að dómstólar fella mun oftar úr gildi úrskurði samkeppnisyfirvalda sem bornir eru undir dómstóla en sérstakar áfrýjunarnefndir sem starfa á sviði samkeppnismála.