Kári Marísson telur að Tindastóll geti sigrað Njarðvík og orðið meistari en til þess þurfi liðið sigur í Njarðvík og meiri stöðugleika í leik sínum.
Kári Marísson telur að Tindastóll geti sigrað Njarðvík og orðið meistari en til þess þurfi liðið sigur í Njarðvík og meiri stöðugleika í leik sínum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EFTIR þrettán ára baráttu í úrvalsdeildinni í körfuknattleik er Tindastóll frá Sauðárkróki í fyrsta skipti kominn í tæri við sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.

EFTIR þrettán ára baráttu í úrvalsdeildinni í körfuknattleik er Tindastóll frá Sauðárkróki í fyrsta skipti kominn í tæri við sjálfan Íslandsmeistaratitilinn. Einvígi Tindastóls og Njarðvíkur um titilinn hefst á sunnudaginn og þar fara félög með ólíkan bakgrunn. Njarðvíkingar hafa 10 sinnum orðið Íslandsmeistarar, síðast 1998, og jafnoft hafa þeir tekið þátt í úrslitaleikjum um titilinn. Aðeins tvisvar, 1988 og 1999, hafa Njarðvíkingar tapað slíkum einvígjum og sagan er Suðurnesjaliðinu ótvírætt í hag, auk þess sem það nýtur heimavallarins í oddaleikjum, hvort sem einvígið fer í þrjá eða fimm leiki.

Kári Marísson, fyrrum landsliðsmaður úr Val og Njarðvík, hefur komið mikið við sögu körfuboltans á Sauðárkróki, allt frá því hann gerðist bóndi í Skagafirðinum árið 1978 og hóf að þjálfa og leika með liðinu sem þá var í 2. deild. Kári er framkvæmdastjóri Tindastóls og hefur auk þess leikið með liðinu í vetur, 49 ára gamall, en hann spilaði síðast með Tindastóli 1990 og eftir það um skeið með 2. deildarliði Smára úr Varmahlíð. Hann gerir reyndar lítið úr sínum þætti, segist fyrst og fremst líta á það sem trimm að vera með á æfingum, en hefur þó verið í leikmannahópnum í 15 deildarleikjum og spilað í 32 mínútur samtals.

Kári sagði í spjalli við Morgunblaðið, þegar hann var heimsóttur á skrifstofu sína í íþróttahúsinu, morguninn eftir fimmta leikinn við Keflavík, að Tindastóll ætti góða möguleika gegn Njarðvík. Til þess að bera sigur úr býtum í einvíginu segir hann að tvennt þurfi að koma til.

Okkur verður refsað einn góðan veðurdag

"Við þurfum að vinna einn útisigur og sjá til þess að slæmu kaflarnir séu úr sögunni. Liðið datt mjög niður á köflum í tveimur síðustu leikjunum gegn Keflavík, og eins hér heima gegn Grindavík í átta liða úrslitunum. Því hefur tekist að vinna sig út úr þessu en einn góðan veðurdag verður okkur refsað fyrir þessa vitleysu. Mér sýnist að það sé helst taugaslappleiki og spenna sem valdi þessu, það tekur óreynda menn tíma að hlaupa slíkt af sér. En það ótrúlega við þetta er að þessir slæmu kaflar hafa komið í leikjum gegn reyndustu liðum landsins, en samt hefur okkur tekist að snúa leikjunum okkur í hag."

Hvað hefði Íslandsmeistaratitill að segja fyrir Tindastól og Skagfirðinga?

"Það verða allir að hafa eitthvað til að trúa á og sameinast um. Ef árangur okkar gæti orðið til þess að lyfta samfélaginu hér upp á skemmtilegt plan sem allir geta sameinast um, þá er miklu náð. Vissulega er sá árangur sem þegar hefur náðst nægilegur til þess, þegar upp er staðið, því liðið er komið lengra en nokkru sinni fyrr. En það myndi hjálpa enn meira að komast alla leið og það hefur sést á aðsókninni í síðustu leikjum okkar að eftirvæntingin í bænum er mikil. Liðið hefur sýnt mikla getu til þessa, en fólk skynjar að það á meira inni. Það vill sjá liðið sýna sitt besta lengur í hverjum leik og trúir því að það sé hægt."

Tókst að halda kjarnanum frá í fyrra

Tindastóll hefur verið lengi í úrvalsdeild en oft vantað herslumuninn til að ná eins langt og í ár. Hvers vegna hefur þetta tekist núna?

"Vandamálið hér á Sauðárkróki er það að á hverju ári fara að minnsta kosti tveir ungir og efnilegir strákar í burtu vegna náms. Það segir sig sjálft að það er erfitt að byggja upp stöðugt topplið við þessi skilyrði. Það er hægt að ná upp ágætis liði af og til. Núna hefur það tekist, og lykillinn að því er að okkur tókst að halda ákveðnum kjarna leikmanna frá því í fyrra. Shawn Myers hélt áfram, sem skipti sköpum, og eins þeir Kristinn Friðriksson, Svavar Birgisson og Lárus Dagur Pálsson. Þá kom Ómar Sigmarsson aftur heim sem var gott mál því hann gjörþekkir allt hérna. Það var því góður grunnur fyrir hendi og síðan féllu Grikkinn og Rússinn vel inn í liðið. Ef við ætlum að halda okkar striki næsta vetur verðum við að halda kjarnanum áfram. Það er þó ljóst að einhverjir hverfa á braut vegna náms. Við erum ekkert farnir að ræða við útlendingana um framhaldið en þegar vel gengur eins og nú verður allt auðveldara. Mér finnst hljóðið í þeim vera jákvætt, og hvernig ætti eiginlega annað að vera?"

Íþróttahúsið var vendipunkturinn 1988

Tindastóll hefur leikið í deildakeppninni í um 30 ár en liðið lék í 2. deild flest ár frá 1970 til 1986, samfleytt frá 1978 þegar Kári gerðist þar þjálfari og leikmaður. Hann segir að vendipunkturinn í körfuboltalífinu á Sauðárkróki hafi verið árið 1988 þegar íþróttahúsið var tekið í notkun.

"Við lékum fyrst í 1. deild 1986-87, og veturinn eftir fengum við íþróttahúsið, en höfðum áður æft í litlum sal. Fyrsta veturinn í nýja húsinu tryggðum við okkur sæti í úrvalsdeildinni og það sýndi sig strax að aðstaða og árangur haldast í hendur. Það skapaðist strax góð hefð í kringum húsið, meistaraflokkurinn styrktist til muna og krakkarnir hrúguðust í yngri flokkana. Við höfum frá þeim tíma unnið fjóra meistaratitla í yngri flokkunum og félagið varð reyndar Íslandsmeistari í 3. flokki strax árið 1976. Við erum að jafnaði með 5-6 yngri flokka af tíu í efsta styrkleikaflokki á landsvísu sem er mjög gott.

Frá haustinu 1988 þegar meistaraflokkurinn lék fyrst í úrvalsdeild höfum við aldrei fallið og verið að mestu í góðum málum. Okkur tókst ekki að komast í úrslitakeppnina meðan aðeins fjögur lið fóru þangað en frá 1995 þegar þeim var fjölgað í átta höfðum við fyrir þetta tímabil komist fjórum sinnum í átta liða úrslitin en alltaf dottið úr keppni þar."

Íslensku þjálfararnir henta betur en þeir erlendu

Kári segir að frá 1988, þegar Tindastóll komst fyrst í úrvalsdeild, hafi félagið borið gæfu til að vera með hæfa þjálfara í sínum röðum.

"Við höfum verið með Tékkann Milan Rosenik, Júgóslavann Petar Jelic, Ungverjann Gustavo Nagy og þá Val Ingimundarson og Pál Kolbeinsson. Í heildina höfum við verið mjög heppnir með þessa þjálfara. Reyndar má segja að austur-evrópsku þjálfararnir hafi ekki hentað okkur nægilega vel, í umhverfi eins og á Íslandi þar sem körfuboltamenn vinna fullan vinnudag. Þeir hafa hinsvegar skilið mikið eftir sig hjá yngri flokkunum, hafa kennt mönnum aga og vinnusemi, og þeir sem hafa komið upp í meistaraflokk hafa notið góðs af handleiðslu þeirra. Þeir Valur og Páll hafa náð betri árangri með liðið, þeir koma úr sama umhverfi og leikmennirnir og skynja betur hvað þeir mega bjóða mönnum og hvað ekki," sagði Kári Marísson.

Eftir Víði Sigurðsson