LÖGREGLAN í Reykjavík hefur að undanförnu fengið nokkrar fjársvikakærur þar sem vörur hafa verið sviknar út úr fyrirtækjum. Við fjársvikin voru notuð nöfn, kennitölur og eftir atvikum reikningsnúmer fyrirtækja eða stofnana.

LÖGREGLAN í Reykjavík hefur að undanförnu fengið nokkrar fjársvikakærur þar sem vörur hafa verið sviknar út úr fyrirtækjum. Við fjársvikin voru notuð nöfn, kennitölur og eftir atvikum reikningsnúmer fyrirtækja eða stofnana.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni sætti karlmaður nýverið fimm daga gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á einu slíku máli. Hann var grunaður um að hafa svikið út vörur fyrir um hálfa milljón króna og reynt að svíkja út vörur fyrir um 130 þúsund krónur til viðbótar.

Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að ástæða sé til að hvetja starfsmenn fyrirtækja til að sýna árvekni gagnvart slíkum afbrotum. Til að minnka líkurnar á því að verða fyrir slíku tjóni sé hægt að krefja þann, sem tekur út vörur í reikning, um sannanleg skilríki og skrá kennitölu hans og aðrar upplýsingar á vörureikninginn. Slíkt þykir sjálfsagt þegar verið er að taka við tékkum upp á mun lægri fjárhæðir en í ofangreindum málum ræðir. Ennfremur sé ástæða til að benda stjórnendum fyrirtækja á að huga vel að innra öryggi fyrirtækja sinna.