SARA (Julia Stiles) kemur úr miðstéttarfjölskyldu í litlum úthverfabæ í Bandaríkjunum og hana dreymir um að gerast ballettdansari. Derek (Sean Patrick Thomas) er aftur á móti úr miðborg Chicago og dansar við annars konar tónlist, nefnilega hip-hop. Þegar þau hittast í nýjum skóla sem þau sækja og komast að því að þau hafa sameiginlegan áhuga á dansi kviknar ástin á milli þeirra. En þau eru gjörólík að öðru leyti og vinum þeirra og fjölskyldum líst ekki meira en svo á ráðahaginn. Hún er hvít en hann er svartur.
Þannig er söguþráðurinn í bandarísku dansamyndinni Save the Last Dance sem frumsýnd er í þremur kvikmyndahúsum í dag. Með helstu hlutverk fara Julia Stiles, Sean Patrick Thomas, Terry Kinney, Kerry Washington og Bianca Lawson. Leikstjóri er Thomas Carter en myndin er gerð í samvinnu við Paramount-kvikmyndaverið og MTV.
"Þetta er bíómynd um andstæður," er haft eftir framleiðandanum, David Madden. "Hún fjallar um ástir og er dansamynd sem greinir frá ólíkum einstaklingum með ólíkan bakgrunn og er um andstæður smábæjarins og stórborgarinnar." "Það sem gerir þessa mynd frábrugðna öðrum myndum sem fjalla um ástir fólks af ólíkum kynþáttum," segir leikstjórinn Carter, "er að við sjáum hver viðbrögðin við sambandinu verða út frá sjónarhóli svertingjans en venjulega er notast við sjónarhorn þess sem er hvítur. Ég vildi fást við þetta efni á dýpri og opnari hátt en oft er gert." "Maður fær sjaldnast tækifæri til þess að sýna vitræna takta í þeim hlutverkum sem manni bjóðast sem svertingi," segir leikarinn Sean Patrick Thomas. "Það sem er svo gott við þetta hlutverk miðað við mörg önnur, sem maður hefur reynt að hreppa, er að það reiðir sig ekki á klisjur um unga svertingja. Sem Derek er ég eins og hver annar námsmaður sem vill fara í læknaskóla en er í sambandi við sína gömlu vini úr hverfinu, meðal annarra Malakai sem stjórnar gengi. Og svo kynnist ég hvítri stelpu frá úthverfunum, við verðum ástfangin og það veldur ennþá meiri átökum á milli mín og vina minna og fjölskyldu." Julia Stiles er upprennandi ung leikkona vestra og lýsir hlutverki sínu í Save the Last Dance svona: "Þegar Sara byrjar í nýjum skóla finnur hún til vanmáttarkenndar vegna þess að fæstir í skólanum eru úr úthverfi eins og hún heldur eru þeir borgarbörn og miklu svalari en hún. En sjálfstraustið eykst og Derek tekur að veita henni athygli og þau verða ástfangin."
Leikarar: Julia Stiles, Sean Patrick Thomas, Terry Kinney, Kerry Washington og Bianca Lawson.
Leikstjóri: Thomas Carter
(Swing Kids, Equal Justice).