INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir á grein í Morgunblaðinu þriðjudaginn 20. mars. Þar fer hún fögrum orðum um hina merku tímamótakosningu um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Ég geri nokkrar athugasemdir við málflutning hennar. Aðaðallega tvær. Í fyrsta lagi þá hugmynd að úrslit kosninganna feli í sér siðferðilega bindingu. Í öðru lagi að þeir sem létu hjá líða að nota atkvæðisrétt sinn hafi með því nauðsynlega afsalað sér rétti til að hafa áhrif á niðurstöðu málsins á lýðræðislegan hátt. Með öðrum orðum hafi þeir framselt rétt sinn til stjórmálamanna. Enginn ágreiningur er um að lagalega stenst niðurstaða kosninganna ekki. Til þess var þátttaka ekki nægileg. Annað sem hafa ber í huga er að talsvert mjótt var munum.
Ég er ekki alveg viss um að ég skilji hvað borgarstjóri á við með siðferðilegri bindingu. Hún segir nefnilega líka að hver borgarfulltrúi verði að gera upp við samvisku sína hvernig þeir ætli að láta niðurstöðu kosninganna hafa áhrif á afstöðu sína í flugvallarmálinu. Hvað ætli það merki almennt að staðreynd bindi mann siðferðilega? Trúlega merkir það að ekki sé siðferðilega leyfilegt að líta fram hjá henni. Það mætti orða svo að ef borgarfulltrúi tekur afstöðu sem gengur gegn niðurstöðu kosninganna verði hann að rökstyðja það sérstaklega. Hér væri þá um að ræða einhverskonar víkjandi skyldu. Skyldu sem aðeins er hægt að víkja sér undan ef sérstök rök sýna fram á að hún eigi ekki við í tilteknum aðstæðum. Ég get ekki séð að hér sé um samviskuspursmál að ræða. Heldur aðeins gild eða ógild rök. Það kann að vera að borgarstjóri sé svo röklega þenkjandi að samviskan sé einmitt nákvæmlega, gildar röksemdir. Ef svo er geri ég engan ágreining. Úrslit kosninga sem einungis 30% þýðis taka þátt í segir ekkert fyrirframgefið um afstöðu þeirra sem ekki tóku þátt í henni. Þetta tekur Ingbjörg skýrt fram í grein sinni. En hún segir líka að með því hafi þeir sem ekki greiddu atkvæði framselt atkvæðisrétt sinn til stjórnmálamanna. Það kynni vel að vera rétt ef niðurstaðan væri lagalega bindandi. Það er hún ekki. Frekar en að ætlun þeirra sem ekki tóku þátt hafi verið að framselja atkvæðisrétt sinn til stjórnmálamanna tel ég alveg eins líklegt að þeir hafi giskað á að kosningaþátttaka yrði lítil og niðurstaðan ekki bindandi. Þar með gæti þátttökuleysi þeirra t.d verið rökleg afleiðing þeirrar skoðunar á undirbúningi málsins að honum væri í mörgu áfátt. Í því ljósi felur fjarveran í sér yfirlýsingu, hugsanlega vanþóknun á öllum undirbúningi málsins, alls ekki afstöðuleysi eins og borgarstjóri viðist gefa sér. Ég get reyndar ekki betur séð en að borgarstjóri lendi í mótsögn við sjálfan sig þegar hún heldur því fram að ekkert verði sagt um vilja þeirra sem ekki kusu og á sama tíma heldur hún því fram að þátttökuleysið verði ekki túlkað öðruvísi en að þeir hafi afhent stjórnmálamönnum atkvæði sitt. Ég geri mér grein fyrir því að mótsögnin er ekki alger og það má auðveldlega snúa sig út úr henni. En að minnsta kosti er hún að gefa sér forsendur sem gætu allt eins verið aðrar eins og ég tók dæmi um hér að ofan. Hér dugar ekki að benda á að ekki skipti máli hver ætlun þeirra sem ekki kusu hafi verið. Að staðreyndin um þátttökuleysi feli nauðsynlega í sér framsal. Slík gagnrýni snertir ekki kjarna þess sem ég hef sagt hér á undan. Í framhaldi má kannski segja að hin siðferðilega binding sé orðin harla léttvæg ef hún merkir einungis að niðurstaða kosninganna þjóni sem rök í umræðu um málið. Það gerir að sjálfsögðu allt sem kemur málinu við. Spurningin er einungis hversu mikið niðurstaða kosninganna kemur ákvörðun um stæði flugvallarins við. Þar með er hefur niðurstaða kosninganna einungis sömu stöðu og hverjar aðrar röksemdir sem hægt er að færa með eða á móti flugvelli í Vatnsmýrinni. Allt tal um sérstaka siðferðilega bindingu fram yfir önnur gild rök í málinu er því markleysa.
Borgarstjóri ber saman skoðanakannanir og raunverulegar kosningar. Raunverulegar kosningar gefa miklu raunsannari mynd en skoðanakannanir. Örugglega er það rétt hjá Ingibjörgu. Í meirihluta mála gefa raunverulegar kosningar gleggri mynd af vilja kjósenda. En sá almenni sannleikur gildir ekki í því tilviki sem hér um ræðir. Eitt af því sem skoðanakönnun hefur umfram raunverulega kosningu er að þar er um tilviljunarúrtak að ræða. Þeir sem mættu á kjörstað í Vatnsmýrarkosningunni eru hugsanlega þýði sem má skilgreina og hægt væri að sýna fram á að það gæti engan veginn talist eins áreiðanleg dreifing atkvæða og svör í skoðanakönnun. Málið er því þannig vaxið að trúlega gefur skoðanakönnun að miklum mun raunsannari mynd af vilja allra Reykvíkinga.
Ég bæti því við hér að mér finnst að flestar mótbárur borgarfulltrúa sjálfstæðismanna hafi misst marks. Vaðallinn um að kostirnir í kosningunni væru ekki nægilega skýrir var algjörlega út í hött og kom málinu ekki hið minnsta við. Stóra spurningin átti að vera: Hvers vegna í ósköpunum var ekki hægt að bíða með að semja við ríkið um flugvallarstæði til 2016? Ég þori að fullyrða að mun fleiri Reykvíkingar hefðu mætt á kjörstað ef kosningin hefði snúist um framtíð sem ekki er eins fjarlæg og 2016 óneitanlega er.
Höfundur er lektor við KHÍ.