ENN var komið að því að ganga Breiðaveginn á fjörugum tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar í gærkvöld, og sem vænta mátti fyrir troðfullu húsi. Stjórnandi kvöldsins var sá sami og kom hingað með "West End" konsertuppfærslu 1998 og stjórnaði síðar Jesus Christ Superstar í Laugardagshöll sællar minningar. Í þetta sinn með nýja einsöngvara og nýtt show, "Broadway - The Concert", breiðu úrvali af sígildum sýningartefjurum, allt frá Lady Be Good leik Gershwins frá 1923 til Ljónakonungs Eltons John frá 1997. Meistari Lloyd Webber var að þessu sinni fjarri góðu gamni, hvort sem það þýddi að þessi frumkvöðull rokksöngleiksins þyki ekki réttur samnefnari ameríska söngleikhússins (þrátt fyrir að hafa dómínerað þar í hátt í 20 ár), eða sé loks talinn á niðurleið. En vissulega var af ærnu að taka, því áratugirnir frá 1930 til 1970 má óhikað kalla samfellda sigurgöngu hvað varðar framleiðslu hágæða "eyrnaorma", svo notað sé nýyrði Tryggva M. Baldvinssonar í ágætri tónleikaskrárkynningu. Þó vakti manni undrun að úr verkum Lerners og Loewe skyldi valið lag úr Gigi, en ekkert úr meistaraverki þeirra My Fair Lady, sem telja verður meðal fimm beztu söngleikja allra tíma.
Einsöngvararnir voru allir sjóaðir Broadwayleikendur, og bar þar af Gregg Edelman með þéttingsþýðriri barýtonrödd sinni, jafnvígur á "krún" og "belt". Debbie Gravitte stóð honum næstum því á sporði; að radd- og útlitstýpu ekki ólík hinni frábæru Kim Criswell sem hingað kom með Westenders-hópnum 1998, þótt næði ekki að skáka óviðjafnanlegum krafti og kómískum hæfileikum þeirrar eftirminnilegu söngkonu. Rödd Liz Callaway var smágerðari en fór þó vel með sitt. Stephen Bogardus hafði og margt til brunns að bera, ekki sízt í því lokatónaúthaldi sem svo ómissandi þykir í þessum stíl, þó að undirr. kynni síður við hálfholan súbstanssneyddan víbratóhljóminn.
Uppmögnun söngsins var framan af ýmist loðin eða glymjandi en tókst í heild yfirleitt bærilega, nema hvað gífurlegur munur var á sterkustu og veikustu tónum. Hvarflaði oftar en einu sinni að manni þegar veikustu frasar duttu út, að með þeim ofurnálægðarnæmu hljóðnemum sem í notkun voru hefði ekki veitt af e.k. þjöppun til mótvægis. Hrynsveit Kjartans Valdimarssonar (píanó), Guðmundar Péturssonar (gítar) Richards Korn (rafbassi) og Jóhanns Hjörleifssonar (trommusett) stóð sig með prýði og var oftast vel balanseruð, þó að trommur og gítar virtust stöku sinni full framarlega. Þá var ljóður á ráði ritstjórnar tónleikaskrár að nefna hvergi útsetjara, einkum m.t. til þess hvort um upphaflega útsetningu væri að ræða eða hugsanlega síðar til komna.
Sinfóníuhljómsveitin var eins og gefur að skilja ekki heimavön í "swing", en lék engu að síður margt með glæsilegum tilþrifum, og sérstaklega glampaði og skein í lúðrum, sem jafnan hafa átt mörg tækifæri á fjölum Broadways; að vísu óhjákvæmilega á kostnað
strengjanna, sem í jafnslæmu húsi og Háskólabíó er hefði ekki veitt af að magna upp, líkt og tekizt hefur svo vel í seinni tíð í Laugardagshöllinni. Allt um það kom heildin víða furðuvel út undir fagmannlegri stjórn Martins Yates. Svo stiklað sé aðeins á stærstu atriðum hins fjölskrúðuga lagavals þótti undirrituðum fyrst verulegt bragð af It's a Grand Night for Singing (State Fair, R. Rodgers 1945 - með tilvitnun í atriði úr Hnotubrjót Tsjækovskíjs!) Gaman var að kontrapunktíska "scat"-kórnum í Fascinating Rhythm (Lady be Good, Gershwin 1923) og hinu frumlega grípandi lagi Unusual Way (Nine, Yeston 1982). Forleikurinn að Gypsy var stórglæsilegur, líka og Bachleg pólýfónían í The Rhythm of Life (Sweet Charity, Coleman 1966). Sveifla Porters í Friendship (Anything Goes, 1934) var fersk og óhrörnuð, og óborganlegir voru mjaðmahnykkir ("bumps" og "grinds" á fagmáli) fyrirrennara súlnadansmeyja í You gotta Get a Gimmick (Gypsy, J. Styne 1959) í meðförum Debbie, Liz og Gregg, þar sem fyrstnefnd tók líka í trompet. What Kind of Fool Am I var frábærlega tekið af Gregg, þótt hann sparaði beltið til síðasta hluta, og aukalagið Aquarius, úr fyrsta rokksöngleik sögunnar, Hair (Galt McDermot, 1968) kom 68-kynslóðinni og fleirum á bullandi suðupunkt sem drífandi niðurlag á velheppnuðum söngleikstónleikum.
Ríkarður Ö. Pálsson