Fyrsta myndin; leikkonan unga, Michelle, sem minnti á Brando ungan.
Fyrsta myndin; leikkonan unga, Michelle, sem minnti á Brando ungan.
Háskólabíó frumsýnir bandarísku bíómyndina Girlfight í leikstjórn Karyn Kuzama, sem fjallar um unga stúlku sem æfir box.

DIANA Guzman (Michelle Rodriguez) býr í Brooklyn ásamt föður sínum og yngri bróður. Hún á í erfiðleikum með að finna sjálfa sig, hún er stöðugt að lenda í vandræðum í skólanum og upplifir mikið ofbeldi heima hjá sér. Hún veit ekki hvernig hún á að temja innibyrgða reiði sína en dag einn uppgötvar hún boxíþróttina fyrir tilviljun og þar með hefur hún fundið farveg fyrir reiðina og vonbrigðin.

Diana byrjar að æfa box í laumi og smám saman tekst henni að ná stjórn á skapi sínu og uppgötva eigin styrk og öðlast sjálfsvirðingu í umhverfi þar sem box er óneitanlega tengt karlmennsku og ekkert grín fyrir unga konu að ætla sér stóra hluti á þeim vettvangi.

Þannig er söguþráðurinn í bandarísku bíómyndinni Girlfight sem frumsýnd er í Háskólabíói í dag en hún hefur verið borin saman við bresku myndina Billy Elliot, sem fjallar um ungan dreng úr kolanámubæ sem tekur ballettinn framyfir boxið. Girlfight var sýnd í kvikmyndaklúbbnum Filmundi fyrir nokkru og stóð þá í kynningu: "Báðar myndirnar fjalla um ungt fólk sem kýs að tjá sig eftir leiðum sem umhverfið samþykkir ekki auðveldlega vegna tengsla þeirra við hefðbundin kynhlutverk."

Girlfight, sem gerð er af óháðum bandarískum kvikmyndagerðarmönnum, vann til aðalverðlauna á Sundance-kvikmyndahátíðinni í fyrra og Karyn Kusama var valin besti leikstjórinn á sömu hátíð og er þá aðeins upptalið örlítið brot af öllum þeim verðlaunum og tilnefningum sem aðstandendur myndarinnar hafa hlotið undanfarið. Með aðalhlutverk fara Michelle Rodriguez, Santiago Douglas og Jaime Tirelli en Michelle Rodriguez þreytir hér frumraun sína sem leikkona í kvikmynd.

"Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þessum klassísku sögum sem segja frá einhverjum sem er ekki neitt en vinnur sig upp í að verða eitthvað," er haft eftir leikstjóranum Kusama en Girlfight er hennar fyrsta mynd. "Ég hef alltaf haft áhuga á slíkum persónum hvort sem þær heita Terry Molloy í On the Waterfront eða Tony Manero í Saturday Night Fever."

Kvikmyndagerðarmennirnir leituðu logandi ljósi að réttu stúlkunni til þess að fara með hlutverk boxarans unga. Þeir reyndu um 350 leikara í hlutverkið og ein af þeim var stúlka sem aldrei hafði leikið áður á ævinni og heitir Michelle Rodriguez. Kusama lýsir henni með þessum hætti. "Við vorum á höttunum eftir ungri stúlku sem minnti á Marlon Brando þegar hann var ungur og við fundum hana."

Leikarar: Michelle Rodriguez, Santiago Douglas og Jaime Tirelli.

Leikstjóri: Karyn Kusama.