MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi ályktun frá Manneldisráði: "Manneldisráð fagnar mjög ummælum landbúnaðarráðherra um fyrirhugað afnám verndartolla á grænmeti.

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi ályktun frá Manneldisráði:

"Manneldisráð fagnar mjög ummælum landbúnaðarráðherra um fyrirhugað afnám verndartolla á grænmeti. Íslendingar borða minna af þessari hollustuvöru en nokkur önnur þjóð í Vestur-Evrópu og hefur hátt verðlag verið mikill þyrnir í augum Manneldisráðs fram til þessa. Manneldisráð, ásamt Hjartavernd og Krabbameinsfélaginu, hefur hvatt mjög til aukinnar grænmetisneyslu, og þá mælt með 500 g á dag af grænmeti, ávöxtum, safa og kartöflum. Neysla landsmanna þarf að aukast um 80% til að því marki verði náð. Áróður um mikilvægi þessarar vöru fyrir hollustu og heilsu þjóðarinnar fær nú aukinn slagkraft ef ríkisvaldið beitir aðgerðum til að lækka verðið. Stuðningur við grænmetisbændur, t.d. í formi lækkaðs raforkuverðs og skattaívilnana getur bætt samkeppnisstöðu íslenskra framleiðenda og stuðlar jafnframt að lægra vöruverði og aukinni sölu. Íslenskir neytendur hafa sýnt að þeir kjósa íslenskt grænmeti, svo framarlega sem verðið er viðunandi enda eru gæðin óumdeild. Það er von Manneldisráðs að ríkisstjórnin taki undir tillögur landbúnaðarráðherra og að verð til neytenda geti orðið sambærilegt við það sem gerist í flestum Evrópulöndum."