SVOKALLAÐUR Árósasamningur, sem fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum, er skv.greinargerð umhverfisráðuneytisins, sem óskað hefur eftir fullgildingu hans fyrir Íslands hönd, ný tegund samnings um umhverfismál sem samþykktur var á fjórða ráðherrafundinum um "Umhverfi og Evrópu" í Árósum í Danmörku 25. júní 1998. Síðan hafa 39 þjóðir og Evrópusambandið undirritað samninginn og tíu þjóðir fullgilt hann.
"Hann [Árósarsamningurinn] beinir athyglinni að gagnverkandi áhrifum almennings og stjórnvalda í lýðræðislegu samhengi og kveður á um ný ferli varðandi þátttöku almennings í viðræðum um alþjóðlega samninga og framkvæmd þeirra," segir í greinargerð ráðuneytisins. Fram kemur að samningurinn veiti almenningi réttindi og leggi samningsaðilum og stjórnvöldum skyldur á herðar varðandi aðgang að upplýsingum og þátttöku almennings. Samningurinn styðji þessi réttindi með ákvæðum um réttláta málsmeðferð sem stuðli að auknu vægi samningsins.
"Í 4. gr. er fjallað um aðgang almennings að upplýsingum og í hvaða tilvikum megi hafna aðgangi að þeim. Í 5. gr. er fjallað um söfnun og dreifingu upplýsinga um umhverfismál, m.a. í þeim tilgangi að þær séu fyrir hendi og að þær séu sem aðgengilegastar. Í 6.-8. gr. er fjallað um þátttöku almennings. Hér er um að ræða þátttöku í ákvörðunum um tiltekna starfsemi, um áætlanir, verkefni og stefnur er varða umhverfið og við undirbúning bindandi reglna sem kunna að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið. Þá er í 9. gr. fjallað um aðgang að réttlátri málsmeðferð og rétt manna til aðgangs að áfrýjunarleiðum fyrir dómstólum eða öðrum óháðum aðilum."
Samningurinn verði lagður fram til samþykktar á Alþingi fyrir páska.