Tryggvi Björnsson fæddist á Hrappsstöðum, Víðidal, Vestur-Húnavatnssýslu, 29. maí 1919. Hann lést á sjúkrahúsinu á Hvammstanga 21. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Björn Ingvar Jósefsson, f. 11.9. 1896 á Hrappsstöðum d. 4.8. 1971 og Sigríður Jónsdóttir, f. 29.3 1892 í Gröf Lundarreykjadal, d. 29.11. 1972. Tryggvi var elstur 11 systkina og eru þau öll á lífi nema eitt sem dó tæplega 2 mánaða. Systkini Tryggva eru: 1) Guðrún Ingveldur, f. 1.2. 1921, 2) Jósefína, f. 31.3 1924, 3) Bjarni Ásgeir, f. 15.8 1925, 4) Sigurvaldi, f. 22. 2. 1927, 5) Steinbjörn, f. 22.9. 1929, 6) Guðmundína Unnur, f. 15.2. 1931, 7) Álfheiður, f. 15.2. 1931, 8) Sigrún Jóney, f. 18.6 1933, og 9) Gunnlaugur, f. 24.3 1937. Tryggvi kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Ingadóttur, 5.9. 1946. Guðrún er fædd 15.1. 1925 og foreldrar hennar voru Ingi Jónsson (Ingibrekt Grude). f. 3.6. 1894, d. 27.1. 1963, og Gyða (Gyðríður) Sigurbjörg Hannesdóttir, f. 7.7 1901, d. 1.6. 1935. Tryggvi og Guðrún eiga átta börn: 1) Karl, f. 17.2. 1947, kvæntur Ragnhildi M. Húnbogadóttur, f. 15.8 1950. Þau eru búsett á Blönduósi og eiga 3 börn og 2 barnabörn. 2) Gyða Sigríður, f. 6.6 1949, gift Þorgeiri Jóhannessyni, f. 23.8.1945. Þau eru búsett í Áslandi, Fitjárdal, og eiga 2 börn og 5 barnabörn. 3) Inga Birna, f. 9.11. 1950, gift Guðmundi Arasyni f. 1.2. 1946. Þau eru búsett á Blönduósi og eiga þrjá syni og tvö barnabörn. 4) Jóna Halldóra, f. 30.11. 1953, gift Hjalta Jósefssyni f. 23.12. 1951. Þau eru búsett á Hvammstanga og eiga 3 börn og 2 barnabörn. 5) Guðrún, f. 20.10. 1955, gift Birni Friðrikssyni, f. 14.7. 1953. Þau eru búsett í Reykjavík og eiga 3 börn og 3 barnabörn. 6) Magnea, f. 9.10.1956. Hún er búsett í Reykjavík og á einn son og 1 barnabarn. 7) Steinbjörn, f. 17.7. 1959, kvæntur Elínu Írisi Jónasdóttur f. 2.3. 1963. Þau eru búsett í Galtanesi, Víðidal, og eiga 3 börn. 8) Ingi, f. 19.2. 1962, kvæntur Ingu Margréti Skúladóttur, f. 13.4. 1966. Þau eru búsett í Borgarnesi og eiga 3 börn. Guðrún átti áður soninn Örn Arnar Ingólfsson, f. 28.1. 1943, kvæntur Elsu Finnsdóttur f. 7.1. 1938, þau eru búsett í Reykjavík og eiga 2 syni og 7 barnabörn. Um árabil dvaldi hjá Tryggva og Guðrúnu frændi Tryggva, Þórbergur Egilsson, f. 29.3. 1963, kvæntur Guðbjörgu Halldórsdóttur, f. 26.3. 1969, þau eru búsett í Kópavogi og eiga 3 börn.
Tryggvi fór snemma að vinna að bústörfum á Hrappsstöðum og var einnig vinnumaður á nokkrum bæjum á unga aldri. Hann tók síðan við búi af foreldrum sínum 1945 og var bóndi á Hrappsstöðum til ársins 1983 en flutti þá til Hvammstanga. Eftir það vann hann hjá Verslun Sigurðar Pálmasonar og síðan sláturfélaginu Ferskum afurðum. Síðustu árin hefur hann verið vistmaður á sjúkrahúsinu á Hvammstanga.
Útför Tryggva fer fram frá Víðidalstungukirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum.)
Það er kyrrlátt nótt, Guðrún, börn, tengdabörn og barnabörn hafa raðað sér umhverfis dánarbeð Tryggva.
Raddir hafa lækkað, það er greinilegt hvert stefnir þegar á líður. Presturinn kemur inn, ræðir hljóðlega við aðstandendur og biður okkur svo að sameinast í bæn. Öll lútum við höfði og hlýleg orðin, beint frá hjarta töluð, hríslast um okkur öll. Og undir þessari dásamlegu bæn líður blessaður gamli maðurinn á braut, hljóðlega og átakalaust. Það er eins og hann hafi beðið eftir rétta augnablikinu og vissulega er ekki hægt að hugsa sér það betra, andlátið hægt og friðsælt og hann umvafinn ástvinum. En mitt í tárum og trega læðist að tengdadóttur glettin hugsun: Hann var nú þekktur fyrir eitthvað annað en að fara hægt og hljótt hann Tryggvi Björnsson. Tengdafaðir minn var maður sem gustaði af, fljóthuga og kappsamur. Hann var aldrei að velkjast neitt í kringum hlutina, heldur kaus að kalla þá sínum réttu nöfnum, maður sem setti svip á samfélagið hvert sem hann fór. Ég kynntist honum fyrst árið 1983 þegar ég kom til Hrappsstaða sem ráðskona til sonar hans, með ársgamlan son minn með mér. Gunna var þá nýflutt til Hvammstanga en hann ákvað að vera aðeins lengur og hjálpa til. Ég fann það strax að honum fannst ég allt of ung til að geta sinnt þessu starfi almennilega og því væri nú betra að fylgjast með stelpunni. Það gerði hann t.d. með því að taka fram kvöldið áður það sem skyldi brúkast í matinn daginn eftir og mæta svo til að fylgjast með gangi mála þegar eldun skyldi hefjast. Þetta þótti nú ráðskonunni hið besta mál, þar sem reynslan var satt að segja ekkert of mikil í ráðskonustörfum yfirleitt. En brátt komu brestir í samstarfið þegar það kom í ljós að Tryggvi hafði jafnvel enn minni reynslu. Einn daginn voru komnir forláta sláturkeppir í pott, allt klárt og ekkert að gera nema kveikja undir. Eitthvað voru þeir undarlegir að stinga í, en ráðskonan hristi það nú bara af sér. Í keppunum reyndust vera hrútspungar sem Gunna af sínum alkunna myndarskap hafði sett í kistuna (í vandlega merkta poka) til sýringar seinna, þetta vildi náttúrulega enginn borða. Svo var ég í símanum einu sinni þegar hann kom inn að fylgjast með. Ég ákvað að stríða honum og sat sem fastast með tólið eins og límt við eyrað, ég sá það útundan mér að Tryggvi fór heldur ókyrrast, hann stiklaði fram og til baka en ég lét sem ekkert væri og talaði áfram í símann. Fór þá að heyrast skarkali mikill úr eldhúsi og fylgdi honum torkennileg lykt. Þetta varð til þess að ég hætti í símanum og fór til hans og þarna stóð hann, elsku karlinn, í reykmekki við eldavélina og steikti lúðubita í tólg. Ég setti út á þessa eldamennsku við hann en þá sagði hann bara: Oh, ég held það geti sleikt þetta í sig, og hana nú.
Svo fór að ég og Steini rugluðu saman reitum fljótlega og ég er svo heppin að hafa haft mikið og gott samneyti við tengdaforeldra mína alla tíð síðan. Þó grunar mig að Tryggva hafi nú fundist ég frek á krafta Steinbjörns innanbæjar, hann var af gamla skólanum, sem sagt: Karlinn vann útiverkin og konan vann inni og útiverkin.
Þar naut hann svo sannarlega góðs af henni Guðrúnu sem sinnti öllum verkum af rómaðri prýði og afköstin voru slík að það er ofar mínum skilningi hvernig hún fór að þessu, konan. En í sameiningu tókst þeim að koma stórum barnahópi til manns og börnin virðast öll hafa erft dugnaðinn og kraftinn frá foreldrum sínum.
Á Hvammstanga áttu Tryggvi og Gunna saman nokkur góð ár. Hann vann í sláturhúsinu og undi hag sínum vel, var allt í öllu eins og hans var von og vísa, og endaði gjarnan daginn á kaupfélagströppunum, þar sem hann greip bændur og Hvammstangabúa glóðvolga og fékk nýjustu fréttir og ekki var það verra ef þær voru vel krassandi. Ef maður virtist vantrúa þegar hann hafði þær eftir sumar var þetta viðkvæðið: Þeir segja það. Aldrei sagði hann mér hverjir "þeir" voru en hann hitti þá iðulega á KVH tröppunum. Þegar heilsunni fór að hraka fyrir fjórum árum varð hann að fara á sjúkrahúsið og átti þaðan ekki afturkvæmt eftir það. Þar var ósköp vel um hann hugsað á allan hátt, en hann var samt eðlilega ekki sáttur við hlutskipti sitt og oft bitur í seinni tíð. En hann var nú samt þannig maður að það var alltaf hægt að tala hann til og þá helst með einhverjum krassandi fréttum úr sveitunum. Reyndar fannst honum flest á niðurleið þar nú orðið, flestir að fækka sauðfé eða hætta búskap alveg. Þetta gat hann bara ekki sætt sig við, gamli maðurinn. Hann hélt sínum sérstæða og skemmtilega húmor fram undir það síðasta. Um daginn spurði ég hvort hann myndi daginn sem hann giftist Gunnu? Hann hugsaði sig um og þótti greinilega súrt hvað minnið var farið að svíkja hann, en svaraði svo snarlega: Nei, enda leggur maður nú ekki svoleiðis smáatriði á minnið, það er víst nóg samt.
Elsku Tryggvi minn, ég veit þú vildir aldrei neitt bévítans væl (þú kvaðst nú reyndar sterkar að orði) en þú skilur eftir stórt skarð í mínu lífi og annarra sem fengu að kynnast þér.
Elsku besta Gunna mín, þú varst kletturinn í lífi hans Tryggva og það sannast á þér að, að baki sérhverjum góðum manni er góð kona. Þótt hún kjósi kannski að vera ekki alveg eins áberandi og hann. Þú, börnin ykkar, tengdabörnin, barnabörnin og barnabarnabörnin eigið alla okkar samúð.
Elín, Steinbjörn og
börn, Galtanesi.
Afi minn var besti afi og ég sakna hans mikið, en núna er hann kominn á betri stað. Afi minn hefur alltaf verið ofsa fyndinn og skemmtilegur. Í hvert sinn sem ég kom til hans spurði hann mig hvað hrossin væru mörg en ég gat aldrei svarað honum því ég mundi það ekki, en hann gafst samt ekki upp á að spyrja mig en hló svo bara þegar ég sagðist ekki muna það, og þá hló amma líka. Afi minn, ég vona að þér líði betur núna, ég sakna þín mikið. Svo ert það þú, elsku amma, sem ert núna ein og sorgmædd. Amma mín, við verðum alltaf til staðar fyrir þig.
Elísabet Eir.
Elsku afi.
Þessa nótt sem við sátum hjá þér og biðum eftir endastundinni var mér ekki ljóst hvað væri að gerast. Mér varð það ekki almennilega ljóst fyrr en ég sá kistuna lokast í kistulagningunni. Sorgin er þung og söknuðurinn sár en lífið heldur áfram og það er best að halda áfram með því, það hefðir þú viljað. Ég mun ætíð minnast þín sem afans sem spurði mig alltaf um fjölda hrossanna og litinn á folöldunum, afans sem kunni að svara fyrir sig og auðvitað afans sem gat ekki sagt R.
Sem betur fer á ég endalausar minningar um þig, allar skemmtilegar og góðar.
Manstu þegar ég var hjá þér þegar amma var ekki heima og mig langaði svo í Royal-búðinginn sem var inni í skáp. Þú hélst þú gætir nú bjargað því og sauðst hann svo bara í vatni, svo varstu bara steinhissa að ég skyldi ekki borða þetta, þú borðaðir þetta auðvitað með bestu lyst. Elsku afi, ég mun ætíð sakna þín og vona að þér líði betur núna. Við eigum nú eftir að hittast einhvern tímann aftur afi minn.
Þín
Guðrún Ósk.
Nú er komið að kveðjustund því hann afi okkar er dáinn. Það var oft glatt á hjalla þar sem afi var og yfirleitt margmenni. Það var nú ekki svo sjaldan að við hittum hann á kaupfélagströppunum, meðan hann hafði heilsu til, þar sem hann stóð til að hitta sem flesta og athuga hvort hann gæti nú ekki dregið einhvern með sér heim. Þar sem amma reyndi að hafa nýtt kaffi á könnunni. Okkur er það mjög minnisstætt systkinunum, þegar hann sagði okkur á réttardaginn söguna um það, þegar hann gekk yfir Víðidalsfjall aðeins tólf ára gamall. Svo þegar leið á daginn varð hann alltaf yngri og yngri, á endanum var hann aðeins fimm ára þegar hann afrekaði þetta. Þau amma eru búin að halda jólin hjá okkur fjölskyldunni síðustu árin og var yndislegt að hafa þau hjá okkur, hann afi lífgaði mjög upp á samræðurnar yfir jólasteikinni eins og honum einum var lagið. Við biðjum góðan guð að veita ömmu, mömmu og hennar systkinum og öðrum ættingjum styrk á þessari sorgarstund. Við systkinin þökkum þér afi fyrir allar þær yndislegu minningar sem við eigum um þig, þú varst broshýr og skemmtilegur maður.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfin úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Kveðja
Tryggvi Rúnar, María Inga og Þórey Björk.
Elsku afi minn! Ég vil þakka þér fyrir allt það sem þú hefur gefið mér. Ég tel mig vera ríka að hafa fengið að njóta allra þessara skemtilegu samverustunda með þér. Þú og amma hafið alltaf verið mér svo mikið. Ég sakna þess sárt að geta ekki spjallað við þig og svarað öllum þessum frábæru spurningum þínum. En ég veit að þú verður alltaf með okkur.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta,
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
(Þórunn Sig.)
Góður Guð styrki elsku ömmu og okkur öll sem elskuðum afa Tryggva.
Hvíl í friði.
Þín
Þórdís Erla.
Nú þegar afi minn, hann Tryggvi frá Hrappsstöðum, er dáinn langar mig að minnast hans í fáeinum orðum.
Nú þegar ég kveð afa minn í hinsta sinn er mér efst í huga virðing og þakklæti fyrir að hafa átt þennan einstaka mann fyrir afa. Ég tel mig hafa verið lánsaman að búa inni á heimili afa og ömmu á Hrappsstöðum fyrstu ár ævi minnar. Það er dýrmæt reynsla fyrir börn og unglinga að alast upp með manni eins og honum afa, sem upplifði farsæla starfsævi frá gamaldags búskaparháttum til nútímatækni og vélvæðingar, en gamli maðurinn var ekki kröfuharður á nútímaþægindi.
Afi hafði alltaf frá miklu að segja enda búinn að reyna ýmislegt um dagana, mun ég búa að þeim fróðleik alla mína ævi. Svo hress og kátur, og tilbúinn að gera að gamni sínu hvenær sem var, hann kom alltaf svo skemmtilega fyrir sig orði. Er mér efst í huga þegar hann var að vekja okkur "krakkana", eins og hann kallaði okkur barnabörnin oft. "Hvernig er það, ætlið þið að mygla í bælinu?" Alltaf var yndislegt að heimsækja afa og ömmu hlýjuna. Og sáu þau bæði til þess að maður fengi nóg að borða.
Afi vildi alltaf fylgjast vel með búskapnum, sem var hans líf og yndi. Einnig eftir að hann varð rúmfastur á sjúkrahúsinu hringdi hann reglulega og spurði frétta úr sveitinni, því hann sagði eitt sinn við mig að ef maður spyrði aldrei að hlutunum þá þá vissi maður aldrei neitt.
Allt tekur enda, og vil ég nota tækifærið og þakka þér fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman, afi minn, og geymi ég þær í minningunni.
Innilegustu samúðarkveðjur sendi ég þér, amma mín, og öðrum aðstandendum.
Hvíldu í friði, elsku afi.
Ari Guðmundur Guðmundsson.
Tryggvi frændi minn var engum líkur. Hress dugnaðarforkur, talaði hátt og tæpitungulaust, var ófeiminn að láta skoðanir sínar í ljós við hvern sem var.
Ég var svo lánsöm að kynnast þessum skemmtilega frænda vel og eignast vináttu hans. Sigríður móðir hans var hálfsystir Helgu ömmu minnar á Holtinu. Hann var elstur 10 systkina. Fæddur og uppalinn á Hrappsstöðum þar sem hann bjó til 1983. Hann var bóndi af lífi og sál, unni sveitinni og landinu.
Tryggvi var gæfumaður, eignaðist góða konu, hana Guðrúnu (Gunnu), sem ól honum 8 börn sem öll eru kjarkmikið dugnaðarfólk og bera foreldrum sínum gott vitni. Þrátt fyrir mannmargt heimili var alltaf nóg pláss fyrir aðkomubörn og var sonur minn, Þórbergur, hjá þeim í mörg sumur. Gunna og Tryggvi tóku honum sem einu af sínum börnum. Ég sé frænda fyrir mér standandi úti á hlaði, takandi á móti gestum. Öllum var boðið í bæinn, Tryggvi spyrjandi frétta og hann vildi hafa þær svolítið mergjaðar. Það var margt brallað og mikið hlegið í þá gömlu góðu daga. Ég sagði frænda stundum svo mergjaðar sögur að augun í honum stóðu á stilkum, svo ákafur var hann við hlustunina. En þegar honum fannst nóg um sagði hann: "Nei, nú lýgurðu, ráfan þín."
Tryggvi tók seint bílpróf en átti Landróverjeppa. Hann stalst stundum til að keyra bílinn "svona innan sveitar". Eitt sinn er ég að aka niður í Víðidal, þá sé ég framundan mér hvar jeppi stansar og út stekkur Tryggvi bóndi og hleypur út í móa. Ég stansa bílinn og kalla til hans: "Hvað ertu að gera þarna?" Hann snýr sér við og segir: "Nú, ert þetta bara þú, ráfan þín, ég hélt að þetta væri lugreglan." Já, það eru til margar skemmtilegar sögur um Tryggva og tilsvör hans. Ein sagan er frá því þegar Bergáin, sem er rétt fyrir ofan Hrappsstaði, var nú loksins brúuð. Hún var mikill farartálmi þegar keyrt var fram á Víðidalstunguheiði. Það var sett á hana gömul járngrindarbrú af annarri á. Þá sagði bóndi nokkur sem kom að skoða mannvirkið og hitti Tryggva úti á hlaði: "Það er nú meiri munurinn að fá loksins brú á ána." "Jááááá," sagði Tryggvi, "það var tekin brú af gamalli á og sett á Bergána." Tryggvi var gangnastjóri á Víðidalstunguheiði í áratugi. Þar var hann í essinu sínu, þekkti heiðina og allar aðstæður eins og lófann á sér og kunni að beita hesti og hundi, stjórna mönnum og vera glaður.
Vitur maður sagði eitt sinn að það eina sem maðurinn tæki með sér úr þessu lífi og yfir í annað líf væru þær gjafir sem maður hefði gefið af sjálfum sér. Ef svo er, fór Tryggvi frændi minn klyfjaður.
Sá sem veitir mannkyninu fegurð er mikill velgerðarmaður þess. Sá sem veitir því speki er meiri velgerðarmaður þess, en sá sem veitir því hlátur er mesti velgerðarmaður þess. (Þórbergur Þórðarson.)
Þín frænka,
Helga Jóna Ásbjarnardóttir.
Þegar við systkinin vorum lítil var stór hluti af okkar lífi að fara að Hrappsstöðum. Við eldri barnabörnin munum eflaust öðruvísi eftir lífinu með afa og ömmu en þau yngri því að í raun og veru voru þau enn að ala upp sín börn þegar við vorum lítil. Þetta var oft skrautlegt enda var heimilið að Hrappsstöðum alltaf fullt af fólki. Það var eins og því væru engin takmörk sett hve margir gátu komist fyrir þar og okkur fannst þetta allt ofur eðlilegt. Það hafði líka einhvern veginn æxlast þannig að þegar fólk fór fram á heiðina smalaði afi öllum inn í kaffi og alltaf var amma tilbúin til að gefa öllum kaffi og með því. Afi var vinsæll maður og það virðist sem allir hafi þekkt hann enda mjög félagslyndur og einstaklega hress í viðmóti. Hann var svona maður sem fólk hafði gaman af að hitta. Hann var duglegur, orðheppinn, hress, fljótfær og fylgdist vel með öllu sem gerðist í kringum hann. Hann hafði manna mest gaman af því að segja frá þeim óhöppum sem hann varð fyrir og gerði grín að sjálfum sér. Ég held að hann hafi ekki haft neitt sérstaklega gaman af okkur barnabörnunum sem ungabörnum en um leið og við fórum að stálpast og hann gat farið að spjalla við okkur og spyrja frétta fannst honum gaman að okkur. Við systkinin minnumst margs nú þegar þessar línur eru skrifaðar. Einhvern tíma þegar við systkinin dvöldum hjá þeim á Hrappsstöðum var undirrituð látin passa Bigga frænda okkar en hann var þá trúlega á bilinu eins til tveggja ára. Það höfðu allir farið út að vinna eitthvað og einhver þurfti að passa drenginn inni í húsi. Stína hafði nú ekki mikið vit á börnum og þurfti drengurinn endilega að gera stórt í buxurnar sínar og varð barnapían alveg hreint skelfingu lostin þegar afi kom til bjargar. Hann tók drenginn og skellti honum í sturtuna og smúlaði hann hraustlega. Biggi greyið grenjaði náttúrlega einhver ósköp þar sem þetta hefur að öllum líkindum ekki verið þægilegt og barnapían grenjaði ekki minna yfir öllum látunum. Þegar verkinu lauk kippti afi stráknum undan og sagði: "Hana, sett' eitthvað á hann," og málið var afgreitt. Ekki veit ég hvort hann var vanur í bleiuskiptunum en eftir á að hyggja held ég að þetta hafi jafnvel verið hans fyrstu líka. Eins og áður segir fylgdist hann vel með því sem gerðist í kringum hann og honum fannst mikil eftirsjá í gamla góða sveitasímanum. Honum fannst hann hreinlega aldrei frétta neitt eftir að sjálfvirka símkerfið var sett á í sveitinni. Eitt sinn sá hann að Ragnar á Kolugili hafði velt bílnum sínum í heimreiðinni á Kolugili og hafði hann miklar áhyggjur af því hvort eitthvað hefði komið fyrir Ragnar. Hann hringdi aftur og aftur í Kolugil en það var alltaf á tali. Þegar Steini og Gunnar komu inn nokkrum klukkutímum seinna fór afi að tala um þetta við þá og fannst skrítið hvað þau á Kolugili gátu talað mikið í símann. Þau væru bara búin að vera í símanum alveg frá því að bíllinn valt. Við nánari athugun kom síðan í ljós að afi hafði allan tímann verið að hringja í sitt eigið númer þannig að þetta var ekki skrítið. Svona var hann afi. Við gætum endalaust haldið áfram með sögurnar af honum afa en látum hér staðar numið og þökkum þær minningar sem við eigum um hann. Við eigum eftir að minnast afa með hlýhug og segja börnum og barnabörnum okkar frá afa á Hrappsstöðum.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Kristín og Gunnar
Þorgeirsbörn.
Þeim fækkar óðum gömlu félögunum úr Víðidalnum. Nú er minn gamli félagi, Tryggvi frá Hrappsstöðum, fallinn frá. Við svona fréttir renna um huga manns minningar frá fyrri tímum. Þegar við Tryggvi vorum ungir, voru ófáar þær stundirnar sem við eyddum saman við leik og störf. Tryggvi var ákaflega eftirminnilegur maður, hann var fullur af lífsgleði og orku. Mikill gleðigjafi og aldrei nein ládeyða í kringum hann. En þrátt fyrir húmor hans og kátínu var Tryggvi undir niðri alvörumaður, hafði gaman að ræða hin alvarlegustu mál.
Við sveitastrákarnir, sem ólumst upp þegar mæðiveikiplágan gekk yfir og lagði heilu sveitirnar nánast í rúst, fórum ekki varhluta af þeirri röskun er varð á lífi fólks. Í þeim sveitum sem plágan fór verst með sá margt unga fólkið enga framtíð og flutti burt til annarra starfa, oft á tíðum allslaust. Tryggvi sýndi þá eins og endranær áræðni og dugnað, hann hóf búskap. Lánið lék við hann, kaupakona kom í sveitina og eins og fyrri daginn var hann ekki lengi að hugsa sig um, hann fastnaði sér hana, eða hún hann. Þetta varð þeim mikið gæfuspor, samhent byggðu þau sér heimili á Hrappsstöðum, eignuðust stóran barnahóp sem varð þeirra ríkidæmi.
Tryggva lá hátt rómur, ég minnist þess þegar hann var vinnumaður á næsta bæ, þá glumdi sveitin af hlátrasköllum og fyrirskipunum frá honum í kvöldhúminu á bökkum Víðidalsár. Það var okkur unga fólkinu notaleg tilfinning og tilhlökkunarefni að bíða næstu hegar og eiga von á að geta tekið hesta okkar og látið galskapinn ráða. En einhvern veginn var það nú svo, að okkar mati, að oftast rigndi virka daga en þurrkur um helgar, svo lítið varð úr fyrirhuguðum fríum og útreiðartúrum. Tryggvi átti afburðagóðan klárhest, frekar smáan en skarpviljugan. Þeir voru um margt líkir félagarnir, það gustaði af þeim og þeir fóru mikinn þegar sá gállinn var á.
Tryggvi var mikill vinur okkar á Auðunarstöðum og ætíð aufúsugestur. Víðidalurinn hefði verið svipminni ef Tryggva hefði ekki notið við.
Því miður urðu samverustundir okkar Tryggva strjálli eftir að hann flutti úr Víðidalnum, þó kom hann nokkrum sinnum til okkar hjónanna er hann var á ferð, þá var mikið spjallað og hlegið eins og áður fyrr.
Við hjónin þökkum ánægjulegar stundir og sendum Guðrúnu og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.
Gunnar Guðmundsson.
Hallgrímur og Örn.
Nútíminn með allri sinni fjölmiðlun og samgöngutækni stuðlar að því að þurrka út sérkenni okkar. Skólarnir kenna öllum eftir sömu námskránni, fréttastofur flytja okkur síendurteknar fréttir, matreiddar á svipaðan máta, tíska og siðir berast til afskekktra staða á ótrúlega skömmum tíma. Þrátt fyrir þetta verðum við ekki öll eins - sem betur fer. Sumir ná því að standa af sér áreiti samtímans, ganga götu sína ótrauðir á eigin forsendum og laga framgöngu sína ekki að ríkjandi stíl nema að því marki sem þeim sjálfum hentar.
Þeir sem voru svo lánsamir að fæðast snemma á liðinni öld, í hinu rótgróna og íhaldssama sveitasamfélagi á Íslandi, lifðu að vísu æsku sína og mótunarár við önnur skilyrði og hafa þess vegna ef til vill betri forsendur til að halda í sín persónueinkenni.
Tryggvi Björnsson var í þeim hópi. Fæddur á Hrappsstöðum í Víðidal, sveitabæ við jaðar hinna víðlendu húnvetnsku heiða, þar sem hann síðar á ævinni átti eftir að stjórna fjárleitum áratugum saman. Hann fæddist inn í heim sem kalla má að væri án véla og tækni. Handverkfæri, sem nú þykja harla fábrotin, og líkamsaflið var það sem lífsafkoman varð að byggjast á. Þessi heimur var án síma og útvarps og einnig að mestu án nothæfra akvega. Þetta var tími orfsins, hrífunnar og torfljásins, tími olíulampans og sjálfsþurftarbúskaparins. Flestir bændur voru fátækir, sparnaður og nýtni sem nú á dögum þætti brosleg sérviska var þar sjálfsögð dyggð. Þrátt fyrir allt þetta tók ég svo til orða að þeir sem fæddust inn í hinn harða heim þessara ára hefðu verið lánsamir. Það segi ég vegna þess að fáir munu þeir, ef nokkrir, sem lifað hafa svo miklar framfarir og breytingar og fengið að sjá og reyna jafnmargt nýtt.
Þegar ég kynntist Tryggva fyrst, vegna fjölskyldutengsla okkar, var hann fullorðinn og fullmótaður maður. Bóndi á Hrappsstöðum með hratt stækkandi fjölskyldu og ekki auður í búi. Dugnaðurinn og einbeitnin var svo samgróin fasi hans og framgöngu að maður skynjaði þessa eiginleika hans jafnvel án þess að sjá hann taka til hendi. Það þurfti ekki löng kynni til að sjá og heyra að þarna fór maður sem ekki lét aðra segja sér fyrir verkum og var óhræddur við að koma til dyranna eins og hann var klæddur. Með öðrum orðum einn þeirra sem ekki lét ríkjandi viðhorf og viðurkenndan stíl ráða framgöngu sinni. Hann kunni vel þá list að ræða við gesti og gangandi og láta segja sér það sem hann langaði að vita án þess að vera ágengur í spurningum. Tryggvi var ræðinn vel og beitti röddinni djarflega og lét það ekkert á sig fá þó að framburður hans félli ekki að hinu staðlaða framburðarkerfi tungunnar. Hann skrollaði á errunum og bókstafurinn þ varð í sumum tilfellum að áberandi h-hljóði.
Seinna kynntist ég því að fárra stunda naut Tryggvi betur en þeirra þegar hann gat setið í rólegheitum og rætt við fólk. Hann sjálfur góður sögumaður, stálminnugur og nákvæmur og kunni ótrúlega góð skil á mönnum og málefnum í sínu heimahéraði og reyndar víðar. Flestar voru frásagnirnar um búskap og störf þau og ferðalög sem honum tengdust. Þá fengu þeir, sem "ekki nenntu að vinna" - eins og hann orðaði það - eða urðu heylausir ár eftir ár, ekki háa einkunn. Frásagnir Tryggva voru oft tímasettar af nákvæmni og þá notaði hann jafnan aðrar viðmiðanir en nú er tíðkað. Atburðir gerðust gjarna í 15. viku sumars eða 8. viku vetrar en ekki í júlí eða nóvember eins og við myndum segja.
Tryggvi var fljótur að kynnast fólki sem honum líkaði við og fylgdist vel með högum kunningja sinna, líka þótt vík yrði milli vina. Kunningjahópurinn varð fjölmennur á langri ævi en ég hef það á tilfinningunni að hinir hafi líka verið margir sem hann langaði ekkert að kynnast.
Einhver kynni að halda af því sem að framan er skráð að Tryggvi hafi verið opinskár maður og einlægur. Fjarri lagi er það. Hann hafði um sig trausta brynju eða skel og það sem þar var fyrir innan var ekki til sýnis. Persónulegar tilfinningar voru ekki til umræðu og sáust ekki utan á skelinni. Sjálfsagt hafa hans nánustu eitthvað fengið að vita um það sem var innan við skelina, aðrir ekki.
Ég held að viðhorf Tryggva, hans hversdagsheimspeki - hafi verið eitthvað á þessa leið: Maður verður að standa sig og hjálpa sér sjálfur, ekki gera aðrir það. Það sem þarf að gera það gerir maður auðvitað og fjasar ekki um það þó það sé bölvað.
Ég var fyrir skömmu staddur á málþingi þar sem verið var að gefa bændum góð ráð. Fyrirlesarinn sagði eitthvað á þá leið að þegar nýjan vanda bæri að höndum í búrekstrinum væri jafnan um tvær leiðir að velja, að strita meira eða að hugsa málið og leysa það með nýjum aðferðum. Ég held að Tryggvi hefði án umhugsunar valið fyrri kostinn og stritað kappsamlega.
En þessi kappsfulli starfsmaður gat líka brugðið sér í önnur gervi ef á þurfti að halda. Eitt dæmi um það er mér minnisstætt. Það var fyrir nokkrum árum í brúðkaupi Inga sonar hans, þess yngsta í systkinahópnum. Þar var Tryggvi svaramaður sonar síns og mætti í kjólfötum í kirkju og veislu svo sem nú tíðkast. Fas hans og öll framkoma var þar með þvílíkri reisn að ókunnugir hefðu mátt halda að þar væri á ferð virðulegur embættismaður eða stjórnarformaður stórfyrirtækis sem klæddist kjólfötum a.m.k. einu sinni í viku. Þannig var Tryggvi: Það sem gera þarf, það geri ég.
Þegar starfsdeginum var lokið og heilsan fór að bila urðu þessum starfsama ákafamanni dagarnir stundum langir. Tryggvi las mikið meðan heilsan leyfði, þjóðlegan fróðleik og ævisögur mestan part og svo notaði hann hljóðsnældur þegar hann get ekki lengur lesið sjálfur. Minnið og lifandi áhugi á mönnum og málefnum entist honum vel og fram undir það síðasta voru viðræður við fólk kærkomin dægradvöl, einkum ef gesturinn gat sagt skemmtilega sögu af einhverjum sem báðir þekktu eða ef hægt var að setja fram flókna samsæriskenningu um framvinduna í pólitík dagsins.
Meðan ég skrifa þessar línur verður mér öðru hvoru hugsað til þess hvað hann Tryggvi mágur minn myndi segja ef hann gæti litið yfir öxl mína og séð hvað ég er að gera. Ég held að ef hann gæti enn þá beitt sinni sterku og sérstæðu rödd, myndi hann ávarpa mig eitthvað á þessa leið: "Hva, hefur þú ekkert þarfara að gera en að setja saman einhverja rollu um mig. Ég held þú ættir að hætta þessu og snúa þér að einhverju þarflegra." Stóru fjölskyldunni hans Tryggva frá Hrappsstöðum sendi ég kveðjur og gleðst yfir því að mega deila með þeim minningunni um þann sérstæða atorkumann.
Sigmar Ingason.
Tryggvi var elstur tíu systkina, sem öll fæddust og ólust upp á Hrappsstöðum við skilyrði, sem þá þóttu sjálfsögð - mikla vinnu og ýtrustu nægjusemi.
Það voru forréttindi að alast upp á næsta bæ við þetta ágæta fólk. Samhjálp var mikil milli bæjanna og var Víðidalsáin sjaldan þröskuldur í þeim efnum.
Tryggvi tók við búi af foreldrum sínum árið 1946 og bjó þar alla sína búskapartíð ásamt sinni góðu konu, Guðrúnu Ingibrektsdóttur. Eignuðust þau átta mannvænleg börn, sem öll eru uppkomin. Vænlegt þótti að koma börnum og unglingum í sumarvist og jafnvel lengur til þeirra hjóna og var það þeim góður skóli. Tryggvi var mikill forkur til vinnu og ákafamaður afskaplegur við öll verk. Hann var meðalmaður á hæð, en í engu öðru. Þéttvaxinn var hann og vasklegur, hreyfingar allar hvatlegar og djarfmannlegar, hann fór hvergi með veggjum, röddin lá hátt og einstaklega gat hann verið orðheppinn. Hann var félagslyndur og fór aldrei einn á mannþingum. Fólk sóttist eftir návist hans, enda fylgdi honum gleði og kátína. Bæði voru þau hjón einstaklega gestrisin og alltaf beið veisluborð gesta, þótt óvænt kæmu, en gestagangur var mikill á Hrappsstöðum.
Persónuleg kynni okkar Tryggva hófust, er ég kom til starfa, að loknu námi, í mína heimasveit. Áður en ég flutti norður frétti hann, að mig vantaði bíl um stundarsakir. Gerði hann mér þá orð um, að mér væri velkomið að fá lánaða nýjan Landrover, sem hann var nýbúinn að kaupa. Þáði ég hans góða boð með þökkum, en undraðist það traust, sem hann sýndi mér ungum og óreyndum. Var þetta upphafið að ævilöngum vinskap, sem aldrei bar skugga á. Naut ég og fjölskylda mín ávallt góðvildar hans og meðfæddrar greiðasemi. Nær ávallt hafði hann boðið mér aðstoð, áður en ég hafði beðið hennar. Slíkt var næmi hans á þarfir vina sinna og ekki er Guðrún síðri í þeim efnum. Eldri sonur minn var á Hrappsstöðum nokkur sumur og eignaðist þar sitt annað heimili og er síðan sem einn af fjölskyldunni.
Margt skemmtilegt og minnisstætt gerðist í samskiptum okkar Tryggva. Væri það efni í að minnsta kosti hálfa bók. Fyrir um 35 árum síðan átti Tryggvi kú, sem lék það tvö ár í röð, að þykjast ekki geta borið fyrr en hún heyrði í bílnum mínum koma upp heimreiðina. Þá skaut hún úr sér kálfinum og var hin glaðasta, er ég kom í fjósið, en Tryggvi öllu síður í seinna skiptið. Á þriðja árinu hafði ég flutt með fjölskylduna á fæðingarbæ minn, Bakka. Var nú skammt milli vina, en vetur harður og vegir torfærir. Í skammdeginu svartasta bað Tryggvi mig að fara helst ekki úr fötum því óðum styttist í burð kýrinnar gamansömu. Reyndi ég að fara að óskum hans. Síðla kvölds á jólaföstunni heyrðist vélardynur mikill nálgast bæinn. Á næstu mínútum steyptist Tryggvi inn um dyrnar og bað mig vera snaran - kýrin hafði streist við að bera síðan um miðjan dag og greinilega þyrfti hún minnar aðstoðar. Nauðsynlegustu tól og tæki voru gripin og á dráttarvélinni geystumst við af stað yfir fönn, hjarn og ísilagða Víðidalsána. Hin sígilda keðja á hægra afturhjóli vélarinnar olli ýmsum aukasveiflum og hringsnúningum á ísnum, en í hlaðið renndum við sigri hrósandi. Í fjósdyrunum mættum við Guðrúnu, sem á sinn hægláta máta tjáði okkur að kýrin hefði borið rétt í þessu. Ekki veit ég hvað hin hamingjusama kálfsmóðir hugsaði, er hún sá húsbónda sinn ærast á stéttinni við hliðina á glaðlegum dýralækni, en hún lét það ekki raska hamingju sinni.
Ég mun ávallt minnast Tryggva með tregabundinni gleði. Hann var skært ljós í drunga hversdagsleikans.
Ég votta Guðrúnu, börnum þeirra, tengdabörnum, barnabörnum og barnabörnum samúð mína.
Egill Gunnlaugsson.
Elísabet Eir.