Paula Andrea Yañez Vega fæddist í Valparaíso í Chile 11. maí 1975. Hún lést í umferðarslysi í Lögbergsbrekku á Suðurlandsvegi 31. mars 2001. Foreldrar hennar eru hjónin Rosa Vega Cataldo og Miguel Yañez Nieto, búsett í Viña Del Mar, þar sem Paula átti heima mestan hluta ævi sinnar. Bræður hennar eru Fernando, Claudio og Sebastian. Hún giftist 16. apríl 1999 eftirlifandi eiginmanni sínum Jorge Andrési Rojas Sepúlveda, f. 5. mars 1975. Foreldrar hans eru hjónin Luz María Sepúlveda Benner og Antonio Chávez Mendoza. Sonur Paulu og Andrésar er Franco Yañez Yañez, f. 23. mars 1993. Paula stundaði læknaritaranám og vann verslunarstörf í Chile áður en hún fluttist til Íslands í mars 1999 og settist að á Hellu. Þar starfaði hún á Dvalarheimilinu Lundi til dauðadags.
Bálför Paulu fer fram á Íslandi en duftker hennar verður jarðsett í Chile. Minningarathöfn um hana og Nelson Ivan Japke Adriasola verður í Oddakirkju á Rangárvöllum í dag og hefst athöfnin klukkan 15.
Þín augu mild mér brosa á myrkri stund og minning þín rís hægt úr tímans djúpi sem hönd er strýkur mjúk um föla kinn þín minning björt. (Ingibjörg Haraldsd.)
Kveðja frá Dvalarheimilinu Lundi
Þín augu mild mér brosa
á myrkri stund
og minning þín rís hægt
úr tímans djúpi
sem hönd er strýkur mjúk
um föla kinn
þín minning björt.
(Ingibjörg Haraldsd.)Sannarlega er minning okkar allra um Paulu björt, bæði starfsfólks og heimilisfólks á Dvalarheimilnu Lundi.
Hún var einstaklega glæsileg stúlka og viðfelldin. Það geislaði af henni suðræn hlýja og bjart brosi. Það lýsir áræði og dugnaði að taka sig upp frá heimalandi sínu Chile og flytjast hingað með dvöl til lengri tíma í huga. Ég hef oft leitt að því hugann hve menning okkar væri snauð ef við ættum þess ekki kost að kynnast fólki frá öðrum þjóðum. Paula notaði tímann vel á Íslandi til að búa sér og manni sínum heimili svo hún gæti vel fyrir séð Franco syni sínum. Hann dvaldi í Chile hjá afa sínum og ömmu þar til í nóvember sl. að þau hjónin sóttu hann. Þegar þau komu aftur eftir mánaðardvöl í Chile sagði hún mér hversu ánægð hún væri að vera komin til Íslands á ný. Það var yndislegt að fylgjast með Paulu umvefja Franco móðurkærleika eftir hina löngu fjarvist. Paula var hamingjusöm og ætlaði ásamt Andres svo margt að gera, augun tindruðu þegar hún sagði frá því sem var á döfinni.
En eins og hendi sé veifað er endi bundinn á hennar jarðneska líf.
Hví var þessi beður búinn,
barnið kæra, þér svo skjótt?
Svar af himni heyrir trúin
hljóma gegnum dauðans nótt.
Það er kveðjan: ,,Kom til mín!"
Kristur tók þig heim til sín.
þú ert blessuð hans í höndum,
hólpin sál með ljóssins öndum.
(Björn Halldórsson.)Laugardagurinn 31. mars rann upp bjartur og fagur og sól skein í heiði. Ekki óraði okkur fyrir að áður en dagur rynni fengjum við þá harmafregn að kær samstarfsfélagi okkar og vinkona, hún Paula, væri látin. Hún lést ásamt landa sínum, Nelson, í hörmulegu bílslysi þann dag. Paula kom til okkar í vinnu fyrir um einu og hálfu ári, framandi og falleg í útliti, prúð og alveg sérstaklega elskuleg í fasi, alltaf brosandi. Maður getur rétt ímyndað sér hvað það hljóti að vera erfitt að flytja frá landi eins og Chile til lands eins og Íslands þar sem ekki bara loftslagið er gerólíkt heldur og menningarheimurinn allt annar. En Paula var ekki í neinum vandræðum með að aðlagast íslenskum aðstæðum og íslenskri menningu og talaði hún oft um það hversu ánægð hún og fjölskylda hennar væru hér á Íslandi. Paula var alveg einstaklega vinnusöm og natin við sín störf. Heimilisfólkinu á Lundi sýndi hún einstaka hlýju og velvild, alltaf tilbúin að rétta því hjálparhönd. Það var eftirtektarvert hversu fljót Paula var að tileinka sér íslenskuna og var hún sjaldan í vandræðum með að gera sig skiljanlega og lagði allan sinn metnað í að skilja okkur samstarfsfélagana og heimilisfólkið. Þar skorti sko ekki þolinmæðina.
Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm
er verður að hlíta þeim lögum
að beygja sig undir þann allsherjar dóm
sem ævina telur í dögum.
Við áttum hér saman svo indæla stund
sem aldrei mér hverfur úr minni.
Og nú ertu genginn á guðanna fund
það geislar af minningu þinni.
(Friðrik Steingr.)
Við söknum Paulu sárt og þökkum henni samfylgdina þennan stutta tíma sem við nutum hennar. Skarðið í starfsmannahópi Lundar sem hún skilur eftir sig verður vandfyllt. Við sendum Andreas eiginmanni hennar, Franco syni hennar og öðrum ástvinum okkar dýpstu samúðarkveðjur. Biðjum Guð að styrkja ykkur í sorginni.
Samstarfsfólk á Lundi,
Hellu.
Samstarfsfólk á Lundi, Hellu.