Bjarni Ingibergur Sigfússon fæddist á Syðri-Brekkum í Blönduhlíð í Skagafirði 21. júní 1916. Hann andaðist á Landspítalanum 29. mars síðastliðinn og fór útför hans fram frá Bústaðakirkju 5. apríl.

Minn kæri vinur, ég þakka þér. Ég þakka tímann sem liðinn er, já, þökk fyrir gleði og gaman. Máske við hittumst á himneskri strönd og hleypum þar fáki um sólskinslönd, þá skulum við syngja þar saman. (Árni Jóhannsson.)

Nú er síðasti hlekkur móðursystkina minna brostinn. Látinn er Bjarni Ingibergur Sigfússon.

Bjarni fæddist á Syðri-Brekkum árið 1916 en afi og amma bjuggu þar frá 1904 og var tvíbýli á bænum. Um haustið 1917 brennur bærinn og urðu afi og amma að búa um sig í fjárhúsum með sjö börn sem þau áttu þá og í janúar 1918 missa þau Sigurð son sinn, 19 ára að aldri.

Þessi ár voru einhver hörðustu sem komu á síðustu öld. En þrátt fyrir fátækt og mikla erfiðleika tókst ömmu og afa að glæða hjá börnum sínum sérstaka bjartsýni og trú á lífið sem mótaði lífsviðhorf þeirra alla tíð. Eflaust hefur reynsla þeirra þegar bærinn brann 1917 fært þau nær hvert öðru en mér er í barnsminni hvað systkinin voru samhent og samkennd þeirra mikil.

Þessum eiginleikum miðluðu þau svo til okkar afkomenda sinna.

Afi og amma flytja að Hofi á Höfðaströnd um vorið 1918 og í ágúst eignast þau dreng sem þau skíra Sigurð. Að Gröf flytjast þau 1921. Bjarni elst upp í glaðværum hópi systkina sem eftir þetta eru kölluð Grafarsystkin. Bjarni vandist öllum störfum til sveita og var sá harðduglegasti maður sem ég hef séð vinna, sama að hverju hann gekk. Við Agnar vorum í sveit hjá ömmu og afa til 1941 en það ár deyr amma og Bjarni tekur við búinu. Hann, ásamt Ólafi Jónssyni og Svanhildi systur hans, keypti jörðina 1937 og byggðu tveggja íbúða hús 1938 og eftir það er tvíbýli í Gröf.

Bjarni festi ráð sitt 1943, eignaðist einstaklega góða konu, Gunnlaugu Stefánsdóttur frá Gautastöðum í Fljótum, en hún var í vist hjá mömmu og Árna Jóhannsyni á Siglufirði þegar þau kynntust.

Við Agnar vorum í sveitinni hjá Bjarna og Laugu til ársins 1945. Á ég bjartar minningar um þessi ár. Bjarni var vinnuharður og gekk að öllum störfum með miklum krafti. Eitt sinn vantaði nýmeti. Bjarni rauk niður í Grafargerðisgil og beitti nokkra stokka af línu. Hann tók svo Agnar með sér og lögðu þeir línuna af árabát sem hann átti. Ég var að sniglast í fjörunni og fylgjast með en þeir voru rétt fyrir utan víkina.

Agnar, sem seinna varð sjómaður, varð sjóveikur og setti Bjarni hann í land og sagði honum að sækja hest og kerru undir aflann og tók mig með sér á sjóinn. Dró hann svo línuna sem var með heilmikinn fisk. Agnar kom svo með kerruna og um kvöldið var mikill fiskur á hlaðinu í Gröf. Þetta var minn eini línuróður og á ég hann Bjarna að þakka. Hann átti til að hringja í Grafargerðisbændur eftir kvöldmat í góðu veðri og biðja þá að mæta niður í gil og taka nokkur fyrirdráttarköst. Ég man eftir ágætisveiði eitt sinn og eftir að aflanum hafði verið skipt í þrjá staði lá stór sjóbirtingur í fjörunni. Bjarni brá hnífi á fiskinn og skipti honum í þrjá hluta. Í Grafargerði var þá tvíbýli, skipta ætti afla rétt. Í þessu fólst mikil kennsla fyrir okkur strákana.

Bjarni átti afbragðsgóða hesta, ég man sérstaklega eftir Bjarnabrún, hann var stór og ofsaviljugur, aldrei fékk ég að ríða á honum, okkur var bara treyst á þægari hesta.

Bjarni hafði mikla og bjarta söngrödd, í Gröf var mikið sungið. Eftir að síminn kom áttu þeir það til Bjarni og vinur hans, Gísli á Sleytustöðum, að syngja í símann og Bjarni spilaði þá gjarna líka á munnhörpu og öll sveitin lá á hleri. Þetta voru yndisleg ár. Eftir að Jónína fæddist átti Lauga til að kalla á mig og láta mig passa hana seinni part dags svo hún gæti farið í heyskapinn með Bjarna, afa og Agnari sem að sjálfsögðu var miklu duglegri en ég.

Það urðu breytingar árið 1946, þá deyr afi og við fórum ekki í sveitina um sumarið, fórum að vinna á Sauðárkróki hjá Sigurði bróður Bjarna sem þá var búinn að hasla sér völl þar við byggingaframkvæmdir. Þar urðu miklar breytingar, stofnaður Gagnfræðaskóli og Iðnskóli og bærinn fékk kaupstaðarréttindi 1947. Íbúum fjölgaði og fólk vantaði til starfa. Bjarni selur Ólafi sinn hluta jarðarinnar 1947 og flytur til Sauðárkóks. Byggðu þau Lauga fallegt hús að Hólavegi 13, þar sem heimili þeirra stóð, öllum opið og sama gestrisnin og var í Gröf. Bjarni vann hjá Sigurði bróður sínum, fyrst við byggingavinnu og síðan verslunarstörf.

Til Reykjavíkur flytja þau árið 1966 og kaupa hús á Sogavegi 100, það var alltaf gaman að heimsækja þau, tekið var á móti manni með veisluborði fyrirvaralaust. Vissulega hefðu þær heimsóknir mátt vera fleiri því alltaf var gaman að hitta Bjarna og rifja upp árin í Gröf. Bjarni og Lauga áttu góð ár í Reykjavík. Hann stundaði verslunarstörf og hún vann auk þess utan heimilis. Þau höfðu gaman af að ferðast og fóru margar ferðir til sólarlanda með vinum sínum.

Milli Grafarsystkinanna var alla tíð mikið og kærleiksríkt samband. Höfum við niðjar þeirra reynt að halda því við með ættarmóti á fimm ára fresti. Nú eru það börnin okkar sem fyrir þeim standa. Í sumar er ætlunin að hittast í Reykholti, þar mun Bjarna verða saknað. Ég vissi af veikindum Bjarna og að hann var að berjast við ólæknandi sjúkdóm.

Ég kveð frænda minn með söknuði, hann kenndi mér og Agnari bróður mínum ungum að vinna og var fyrirmynd í leik og starfi. Fyrir það og margar ánægjustundir vil ég nú þakka.

Ég kveð Bjarna með ljóðlínum sem ortar voru í minningu föður hans, Sigfúsar Hanssonar:

Minn kæri vinur, ég þakka þér.

Ég þakka tímann sem liðinn er,

já, þökk fyrir gleði og gaman.

Máske við hittumst á himneskri strönd

og hleypum þar fáki um sólskinslönd,

þá skulum við syngja þar saman.

(Árni Jóhannsson.)

Við Auður sendum öllum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Guð veri með ykkur.

Sverrir Sveinsson.

Sverrir Sveinsson.