Guðjón Jónsson, fyrrverandi bústjóri og verkamaður, fæddist 13. desember 1913 á Gunnlaugsstöðum í Stafholtstungum í Borgarfirði. Hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 30. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Þórólfur Jónsson, f. 2.6. 1870, d. 9.3. 1959, bóndi á Gunnlaugsstöðum, og Jófríður Ásmundsdóttir, f. 29.4. 1881, d. 16.10. 1977. Systkini Guðjóns voru: Friðjón, f. 6.5. 1903, látinn; Ásbjörg Guðný, f. 30.11. 1904; Oddur Halldór, f. 17.1. 1906, látinn; Guðmundur, f. 1.1. 1908, látinn; Kristinn, f. 30.5. 1909, látinn; Lára, f. 21.8. 1911, látin: Leifur, f. 31.10. 1912, látinn; Sigrún, f. 10.9. 1915; Fanney, f. 1.10. 1916; Guðmundur Óskar, f. 25.1. 1918, látinn; Magnús, f. 29.7. 1919, látinn; Svava, f. 31.1. 1921; Ágústa, f. 8.8. 1922; Gunnlaugur, f. 30.7. 1924; og Svanlaug, f. 15.1. 1928. Guðjón kvæntist 10.12. 1938 eftirlifandi eiginkonu sinni, Helgu Þ. Árnadóttur, f. 15.5. 1918. Foreldrar hennar voru Árni Oddsson og Sigurbjörg Sigurðardóttir frá Burstafelli í Vestmannaeyjum. Börn Guðjóns og Helgu eru: 1) Árnný Sigurbjörg, f. 19.9. 1940, starfsmaður Skráningarstofunnar í Reykjavík, var gift Sigurði Pétri Oddssyni skipstjóra, f. 18.5. 1936, d. 14.8. 1968, þau eignuðust þrjá syni, Guðjón, Magnús Inga, f. 5.9. 1961, d. 23.7. 1987, og Odd. Seinni maður Árnnýjar er Edmund Bellersen rafmagnsverkfræðingur. 2) Oddfríður Jóna, skólaliði í Vestmannaeyjum, f. 22.5. 1942, gift Ágústi Pálmari Óskarssyni vélstjóra og eiga þau þrjár dætur, Helgu, Rut og Fríðu Jónu. 3) Emil Þór, bílstjóri í Reykjavík, f. 15.2. 1944, kvæntur Stellu S. Sigurðardóttur og eiga þau tvö börn, Guðjón Þór og Helgu Dagmar, auk þess sem Stella átti son fyrir, Sigurð Harðarson. 4) Guðmundur Helgi, tjónafulltrúi í Reykjavík, f. 5.3. 1947, kvæntur Ingu Dóru Þorsteinsdóttur sjúkraliða og eiga þau þrjár dætur, Ingigerði, Guðnýju Helgu og Kristínu Hrönn. 5) Ásbjörn, bifvélavirki á Eskifirði, f. 28.1. 1949, kvæntur Guðrúnu V. Friðriksdóttur og eiga þau þrjár dætur, Elísabetu Ólöfu, Eydísi og Andreu. 6) Elín Ebba, starfsmaður Sjálfsbjargarheimilisins í Reykjavík, f. 20.10. 1952, var gift Guðjóni Inga Ólafssyni og eiga þau þrjú börn, Sigurbjörgu Huldu, Hjalta og Guðjón Helga, sambýlismaður Elínar Ebbu er Kristján Albertsson málarameistari. 7) Lárus Jóhann, málarameistari á Akranesi, f. 6.2. 1959, var kvæntur Höllu Böðvarsdóttur og eiga þau þrjár dætur, Lindu Björk Svövu Björk og Birnu Björk. Sambýliskona Lárusar er Margrét Ósk Ragnarsdóttir og eiga þau tvö börn, Ragnar Má og Unu Láru. Afkomendur Guðjóns og Helgu eru 58.
Guðjón gekk í barnaskóla árin 1923-26 en þá var kennt tvo til þrjá mánuði yfir vetrartímann. Auk þess stundaði hann nám við Héraðsskólann í Reykholti 1934-35. Hann stundaði landbúnaðarstörf til 1939, hélt sjálfur búskap á Högnastöðum í Þverárhlíð 1939-41, var bústjóri í Innstavogi við Akranes 1941-46 en flutti þá til Vestmannaeyja og var þar bústjóri í Dölum fyrir Vestmannaeyjabæ. Árið 1962 hóf hann verkamannastörf á vegum Vestmannaeyjakaupstaðar og starfaði jafnframt við Fiskimjölsverksmiðjuna.
Er gosið hófst í Heimaey 1973 flutti Guðjón að Esjuvöllum 5 á Akranesi og starfaði hjá Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness til 1989.
Útför Guðjóns fer fram frá Akraneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt. Þig umvefji blessun og bænir, ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta, þá sælt er að vita af því þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfin úr heimi ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sig.)
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta,
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfin úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Nú ertu farinn í ferðalagið sem þú sagðir okkur krökkunum að allir færu í að lokum. Það er svo margs að minnast frá æskustöðvunum í Dölum íVestmannaeyjum, t.d. þegar þú kenndir okkur að umgangast vélar og tæki, þú lagðir áherslu á að við vissum hvað vélarnar gerðu. Þannig varst þú pabbi, komst okkur strax í skilning um gagnsemi hlutanna og við ættum að gera það sem rétt væri, og hafa tilfinningu fyrir því sjálf.
Umhyggja þín fyrir öllum hlutum og samviska var áberandi hjá þér. Aldrei man ég eftir því að þú talaðir illa um nokkurn mann, þú sást alltaf það góða en leiddir annað hjá þér.
Þú hafðir mikla ánægju af því að fá okkur og börnin í heimsókn, þá var alltaf tekið í spil og barnabörnin voru ekki há í loftinu þegar þau spiluðu kana af miklum áhuga við þig og mömmu.
Um leið og ég kveð þig með söknuði vil ég þakka fyrir alla umhyggjuna sem þú barst fyrir okkur Ingu Dóru og stelpunum okkar og ekki síst fyrir að fá að vinna með þér við bústörfin í Dölum og seinna í Fiskimjölsverksmiðjunni í Eyjum. Það var svo margt sem þú kenndir mér á þessum tíma sem ekki nokkur kennari hefði getað gert, að því mun ég búa alla tíð. Og ekki þarftu pabbi minn að hafa áhyggjur af mömmu eins og þú hafðir undir það síðasta, það er alveg víst að við systkinin munum gæta hennar fyrir þig.
Ég veit að Guð hefur tekið vel á móti þér og að þú munt áfram fylgjast vel með okkur öllum. Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Þinn sonur
Guðmundur Helgi.
Okkur systurnar langar að minnast afa Gauja eins og við kölluðum hann alltaf.
Það var alltaf gaman að koma til hans og ömmu þegar þau bjuggu í Eyjum fyrir gos, og eigum við margar skemmtilegar minningar frá þeim tíma. Eftir gos fluttu þau upp á Skaga og bjuggu þar síðan. Það var farið á Skagann á hverju ári og oft var nú kátt á hjalla á Esjuvöllunum þegar búið var að gefa ferðalöngunum kaffi, og ekki lengi gert að taka saman, því það var kominn tími til að spila Kana. Okkur fannst afi nú heldur kaldur í sögnunum sínum og sögðum að það væri nú allt í lagi að eiga eitthvert tromp, allavega þegar sagt er Kani. Svarið sem við fengum var alltaf sama. "Nú mótspilarinn hlýtur að eiga eitthvert tromp fyrst ég er ekki með það." Og svo var hlegið að öllu saman.
Þegar tími var kominn fyrir okkur að fara heim var siður að spila einn hring og þá var skylda að segja Kana. Þá var nú kátt á bænum og þá sjaldan sem hann stóð var afi oftar en ekki sá sem stóðst sinn Kana.
Eftir að afi og amma fluttu að Höfða var mjög stutt að kíkja til þeirra þegar fótboltamótin hjá litlu peyjunum voru. Þá var hægt að hlaupa til þeirra og fá gott í gogginn milli leikja og það var hægt að fylgjast með leikjunum út um gluggann hjá þeim. Það verður skrítið að mæta á næsta mót og afi verður ekki til að spyrja um hvernig gangi hjá ÍBV-liðinu, því hann fylgdist vel með langafabörnunum í íþróttum. Þegar við hringdum til þeirra þurftum við ekki að kynna okkur í símann því hann þekkti okkur alltaf þó að það liði nokkuð á milli símtala. Og hann sagði oft hvað tæknin væri ör. Að hann skyldi lifa fram á tölvuöld, hann sem átti heima á sveitabæ með moldargólfi. Það fannst okkur líka skrítið því okkur fannst hann aldrei vera neitt gamall.
Elsku amma, Guð veri með þér og styrki þig í þinni sorg, því nú ert þú búin að missa þinn lífsförunaut en þið hafið verið gift í 62 ár. Elsku afi, við kveðjum þig með söknuði og hafðu þökk fyrir allt og allt þar til við hittumst á ný.
Helga, Rut, Fríða Jóna og fjölskyldur.
"Heppnismaður er sá sem hefur lifað vel, hlegið oft og elskað mikið, öðlast virðingu skynsamra manna og ást barna. Fyllt sinn sess og staðið vel í stöðu sinni. Yfirgefur heiminn eitthvað betri en hann kom í hann, hvort heldur er með auknum gróðri, fögru ljóði eða frelsaðri sál. Gleymdi aldrei að gæta fegurðar jarðarinnar eða lét undir höfuð leggjast að lofa hana. Leitaði þess besta í fari annara og gaf það besta sem hann átti sjálfur." Þannig lýsir A.L. Stevenson heppnismanni, og þetta ásamt bjartsýni tel ég lýsa afa best. Bjartsýni lýsti sér t.d. í því þegar sagt var í spilum, þá var alltaf sagt það hæsta, ekkert nóló í vist og 10 í kana var ekki til í hans orðaforða. Um lífið eftir dauðann ræddum við oft, og um daginn bað ég hann að láta mig vita hvernig væri hinum megin þegar þangað væri komið. Ekki stóð á svari: "Alveg sjálfsagt, Gaui minn, svo framarlega sem ég verð farinn á undan þér." Nú er hann farinn og verkefnum lokið, en ný og spennandi taka við. Við sjáumst síðar. Takk fyrir allt.
Guðjón, Halla og dætur.
Guðmundur Helgi.