11. apríl 2001 | Aðsent efni | 755 orð | 2 myndir

Þjónusta

Aukin þjónusta Félagsþjónustunnar í Reykjavík

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til að bæta þjónustu Félagsþjónustunnar í Reykjavík, segir Ellý A. Þorsteinsdóttir, hefur verið bætt við afgreiðslutíma á miðvikudögum og er opið til kl. 18.
RÁÐGJAFARSVIÐ er eitt af fjórum meginsviðum innan Félagsþjónustunnar í Reykjavík Á ráðgjafarsviði eru veittar upplýsingar um þá fjölbreyttu þjónustu sem Félagsþjónustan í Reykjavík býður upp á. Þar er tekið við umsóknum um fjárhagsaðstoð, húsaleigubætur, félagslegt leiguhúsnæði, þjónustuíbúðir, vistunarmat aldraðra, heimaþjónustu og önnur stuðningsúrræði við einstaklinga og fjölskyldur svo dæmi séu tekin. Lagt er mat á umsóknir í samræmi við fyrirliggjandi lög og reglur og metin þörf á þjónustu. Þjónustubeiðnir eru síðan sendar þjónustusviði. Til staðar verður yfirsýn yfir þjónustuþarfir, lögð áhersla á að kortleggja þær og koma til móts við þarfirnar hverju sinni.

Meginþungi starfsemi ráðgjafarsviðs fer fram á þremur borgarhlutaskrifstofum, Skúlagötu 21, Suðurlandsbraut 32 og Álfabakka 12.

Á ráðgjafarsviði er lögð áhersla á félagslega ráðgjöf til allra Reykvíkinga óháð uppruna, aldri og eðli vanda, ráðgjöf og stuðning í samvinnu og samráði við notendur, upplýsingagjöf um réttindi, að standa vörð um rétt fólks, yfirsýn yfir þarfir og þróun úrræða, gott aðgengi, sveigjanleika, viðbragðsflýti og aukna ábyrgð starfsmanna.

Í samræmi við fyrirliggjandi tillögur um nýja hverfaskiptingu Reykjavíkur þjónar borgarhlutaskifstofa á Skúlagötu 21 vesturbæ og miðbæ að mótum Lönguhlíðar, borgarhlutaskrifstofa á Suðurlandsbraut 32 þjónar íbúum búsettum austan Lönguhlíðar að Elliðaám, þá þjónar borgarhlutaskrifstofa á Álfabakka 12 Breiðhyltingum og Árbæjarbúum. Hverjum borgarhluta er síðan skipt í 2 hverfi; borgarhluta I í vesturbæ og miðbæ, borgarhluta II í Laugardal (Tún, Kleppsvegur, Heimar, Vogar, Sund) og Kringlu (Hlíðar að Smáíbúðahverfi), borgarhluta III í Breiðholt og Árbæ.

Öll þjónusta sem veitt er byggist á mati á þörfum þess einstaklings eða fjölskyldu sem leitar úrlausnar.

Um getur verið að ræða almenna félagslega ráðgjöf eða sértæka vegna t.d. samskiptavanda innan fjölskyldu, uppeldisstuðning og ráðgjöf til foreldra, stuðning og ráðgjöf vegna vímuefnavanda, stuðning og ráðgjöf vegna skilnaðarmála o.fl. sem veitt er af starfsmönnunum sjálfum eða innan einhvers úrræðis Félagsþjónustunnar. Ráðgjöfin getur að sjálfsögðu einnig falist í því að veita upplýsingar og/eða hafa milligöngu um útvegun úrræða utan Félagsþjónustunnar.

Sú aðstoð sem veitt er er ætíð í samvinnu og samráði við viðkomandi einstakling og/eða fjölskyldu.

Hverfabundið samstarf skiptir miklu máli í allri forvarnarvinnu og auðveldar leiðina að því markmiði að veita sem heildstæðasta þjónustu í samræmi við fyrirliggjandi þarfir í hverju hverfi.

Lögð er áhersla á að fyrirbyggjandi starf og forvarnarstarf nái til allra notenda, ekki bara unglinga eins og stundum virðist raunin.

Sú breyting að mál, sem unnin eru á grundvelli barnaverndarlaga og tilheyra nú Skrifstofu barnaverndarnefndar, hefur skapað aðstæður til öðruvísi samvinnu við skóla og leikskóla. Þessi samvinna, ásamt hverfabundnu samstarfi, eykur líkur á að hægt sé að aðstoða fjölskyldur í erfiðleikum fyrr en áður og á þeirra forsendum.

Samstarf við íbúa- og hagsmunasamtök tryggir aukna upplýsingagjöf um þá þjónustu sem veitt er og þjónustuþarfir í hverju hverfi og eykur þar með líkur á leitað sé eftir þjónustu og hún veitt í samræmi við þarfir og við hæfi hvers og eins.

Mikilvægt er að gott aðgengi sé að þjónustunni, hún sé skjótvirk og sveigjanleg.

Til að auka aðgengi og viðbragðsflýti þeirrar þjónustu hefur, eins og áður er komið fram, verið tekin ákvörðun með viðbótar opnunartíma borgarhlutaskrifstofanna á miðvikudögum til kl. 18.00 þar sem veitt verður öll almenn þjónusta. Þessi breyting tók gildi 1. apríl sl.

Áfram verður haldið þeirri stefnu að færa þjónustuna út fyrir veggi stofnunarinnar þar sem þess er þörf. Löng hefð er fyrir vitjunum til einstaklinga og fjölskyldna en einnig hefur í meira mæli verið boðið upp á upplýsingar og ráðgjöf til ákveðinna hópa í samstarfi við hinar ýmsu stofnanir, nefna má vikulega opna viðtalstíma í Miðstöð nýbúa, reglubundna upplýsingafundi í nokkrum fangelsum og að fyrirhugað er samstarf við Hitt húsið um ráðgjöf til ungs fólks sem fram fer í Hinu húsinu. Mikilvægt er að koma til móts við þarfir hópa/einstaklinga sem ætla má að eigi erfiðara en aðrir með að nálgast þjónustuna af ýmsum ástæðum, s.s. vegna ónógra upplýsinga og einnig til þeirra sem vitað er að mikilvægt er að ná til með upplýsingum og ráðgjöf í fyrirbyggjandi skyni og verður áfram lögð áhersla á þennan þátt þjónustunnar.

Þá er gert ráð fyrir að komið verði upp einu útibúi á hverri borgarhlutaskrifstofu frá árinu 2001 til 2004, þannig að um verði að ræða skrifstofu í hverju hverfi borgarinnar. Leitast verður við að ná samkomulagi við aðrar borgarstofnanir um að veita þar samþætta þjónustu eða í hið minnsta reka hverfabundið samstarf. Fyrst um sinn er ekki gert ráð fyrir að útibúin verði sjálfstæðar starfseiningar heldur lúti fjárhagslegri stjórnun borgarhlutaskrifstofanna. Ef áætlanir ganga eftir mun útibú í vesturbæ taka til starfa á árinu 2001. Þar er gert ráð fyrir að reka hverfabundið samstarf með Fræðslumiðstöð, Leikskólum Reykjavíkur og Íþrótta- og tómstundaráði.

Höfundur er framkvæmdastjóri ráðgjafarsviðs.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.