HVER var það sem mælti þessi fleygu orð og hirti ekki um konungsboð? Það var Snorri Sturluson sjálfur og í þessum orðum hans fólst sú skoðun hans að hann væri frjálsborinn Íslendingur en ekki konungsþræll.

HVER var það sem mælti þessi fleygu orð og hirti ekki um konungsboð? Það var Snorri Sturluson sjálfur og í þessum orðum hans fólst sú skoðun hans að hann væri frjálsborinn Íslendingur en ekki konungsþræll. Hann vildi út til Íslands, heim til landsins síns, heim til þjóðar sinnar. Hann var orðinn sextugur að aldri og hin veraldlegu umsvif höfðuðu áreiðanlega ekki lengur til hans eins og þau höfðu gert. Kannski var hann með það í huga að eyða þeim árum sem eftir væru við ritstörf. Hver getur ímyndað sér hvílíkar sögugersemar hefðu getað runnið fram úr penna hans ef hann hefði notið lífs og griða í tíu ár í viðbót?

En konungsvaldið ytra sætti sig ekki við það að Íslendingur hunsaði skipun þess eins og Snorri Sturluson hafði gert. En samt hefði það þó ekki unnið honum mikinn geig ef það hefði ekki átt sína þjónustumenn meðal Íslendinga sjálfra. Tveir íslenskir ættarhöfðingjar áttu fund saman upp á Kili og þar munu þeir hafa ákveðið að Snorri Sturluson skyldi deyja. Það eru margar ástæður fyrir því að reimt er á Kili. Þar hittust Reynistaðabræður Sturlungaaldarinnar og fastréðu út frá fyrirmælum erlends konungs að taka af lífi þann mann sem almennt hefur verið talinn höfuðsnillingur íslenskrar ritlistar fram á þennan dag. Hákon konungur kallaði Snorra í bréfum sínum landráðamann við sig! Hann var landráðamaður samkvæmt skilningi Hákonar konungs!! En hvað voru þeir Íslendingar sem hlýddu konungsboðum og létu drepa Snorra Sturluson? Hverjir hafa verið meiri landráðamenn en einmitt þeir? Í dag segja margir Íslendingar "Út vil ég " en nú þýða þessi orð annað og verra en fyrr. Þeir eiga við það að þeir vilji út til Brussel, til að leggjast þar á spena hins yfirþjóðlega valds. Þeir vilja þjóna undir konungsvaldið og seinna meir koma þeir svo heim með konungsfyrirmæli og erkibiskups boðskap. En við skulum fylgja því fornkveðna og hafa þau fyrirmæli og þann boðskap að engu eins og sönnum Íslendingum ber að gera.

RÚNAR KRISTJÁNSSON,

Bogabraut 21, Skagaströnd.

Frá Rúnari Kristjánssyni: