Róska í Nýlistasafninu Það má örugglega segja að síðustu vikur fyrir jól séu langt frá því að vera heppilegasti tími ársins fyrir myndlistarmenn til aðhalda einkasýningar.

Róska í Nýlistasafninu Það má örugglega segja að síðustu vikur fyrir jól séu langt frá því að vera heppilegasti tími ársins fyrir myndlistarmenn til aðhalda einkasýningar. Fólk er á stöðugum þeytingi, og gefur sér tæpast þær rólegu stundir, sem þarf til að skoða myndlist. Engu að síður er ásetning sýningarsala orðin slík, að sýningar eru í gangi allan ársins hring, og því eru nokkrar einkasýningar uppi við þessa síðustu viku aðventunnar.

Í Nýlistasafninu eru nú uppi tvær einkasýningar. Í neðri sölunum sýnir listakonan Róska ljósmyndir, tölvugrafík, og loks málverk og teikningar sem unnar eru með blandaðri tækni. Róska á að baki langan og litríkan listferil, en einkasýningarnar hafa ekki að sama skapi verið margar, og því er fengur að þessari hér.

Hún stundaði sitt listnám á umrótatímum sjöunda áratugarins á Íslandi, í Tékkóslóvakíu, Frakklandi og á Ítalíu, og hefur síðan starfað að myndlist, kvikmyndum og við sjónvarp hér álandi og erlendis, einkum á Ítalíu, þar sem hún hefur búið um langt skeið. Róska gerðist meðlimur í SÚM-hópnum 1967 og tók þátt í starfi hans um árabil, þó það væri ef til vill að mestu úr fjarlægð, vegna starfa hennar á Ítalíu á sama tíma. Hún hefur þó alltaf haldið tengslum heim og verið hluti af hinum íslenska listaheimi.

Sýning Rósku í Nýlistasafninu er frískleg. Hinar mismunandi vinnuaðferðir skila af sér fjölbreyttum verkum og gefa áhorfandanum gott tækifæri til að meta þá möguleika sem felast í vinnubrögðunum. Í viðtali sagði listakonan að viðfangsefni hennar á sýningunni væri kynlíf og heimsendir, og er það í góðu samræmi við það sem hún hefur fjallað um á einn eða annan hátt í listinni í gegnum árin. Þetta kemur misjafnlega sterkt fram í verkunum; í sumum þeirra er tilvísunin bein og ögrandi, en í öðrum fínlegri og mýkri.

Ljósmyndirnar eru mjög ögrandi í eðli sínu, og "Afdrep" (nr. 2) og "Heimsendi" (nr. 13) beinar tilvísanir í þau viðfangsefni sem listakonan nefnir; ,Brennandi jörð" (nr. 12) er einnig sterk framsetning efnisins. Að öðrum þáttum ólöstuðum eru það þó tölvugrafíkin og síðan fjölskrúðug verk unnin með blandaðri tækni sem áhorfandinn staldrar helst við. Þetta mun í fyrsta sinn sem íslenskur listamaður sýnir myndir unnar á tölvu, og var ekki seinna vænna. Þó þau séu smá, þá sýna þessi verk vel möguleika tækninnar. Teikning og mismunandi mynsturgerð gefur ótal möguleika; litfletir geta síðan verið sterkir og glansandi, líkt og silkiþrykk, og loks geta aðrir litir sáldrast um verkin líkt og gullregn. Breytt litaval sömu teikningarnar sýnir vel hversu mikil breytingin getur orðið, eins og t.d. í báðum útgáfunum af "Sólar upprás" (nr. 16) og "Pixellundur" (nr. 15).

Málverk, klippiverk og fleiri myndir gerðar með blandaðri tækni eru stærstu verk Rósku á sýningunni. Margar þeirra eru áleitnar og í samræmi við þau viðfangsefni sem nefnd voru að framan, og ná jafnvel að tengja þau saman á sterkan hátt, einsog t.d. "Monroe og máfar" (nr. 33), "Il Gabbiano" (nr. 39) og "Akedown" (nr. 31). Flestar myndanna eru ferskar og hæfilega mikið unnar, og staðfesta að Róska stendur föstum fótum í sinni myndlist, jafnframt því sem hún er óhrædd við að reyna nýjar brautir, eins og sést í tölvuverkun um.

Þessi sýning Rósku (og það sem henni fylgir af uppákomum af ýmsu tagi) er gott lokaorð í Nýlistasafninu á þessu hausti, þarsem óþarflega margar sýningar hafa verið blóðlitlar og í daufara lagi. Helsti gallinn er auðvitað að desember er ekki góður sýningartími, og opnunartíminn mætti vera lengri hvern dag, einkum þá síðustu sýningarhelgi, sem nú er framundan.

Sýningunni lýkur að kvöldi Þorláksmessu.

Róska - Gísli í réttu andlegu umhverfi sýninganna.