[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir stuttu voru endurútgefnar sex fyrstu plötur King Crimson, sem var fræg fyrir framúrstefnu. Árni Matthíasson segir frá sveitinni og plötunum og veltir því fyrir sér hvort eitthvað hafi verið í þær spunnið.

ÞEGAR pönkið spratt fram í Bretlandi í lok áttunda áratugarins beindu iðkendur ekki síst spjótum sínum að rokktónlistarmönnum þess tíma sem voru komnir á bólakaf í uppskrúfaðri tilgerð. Menn kepptust við að lýsa fyrirlitningu sinni á risaeðlunum, Pink Floyd, Yes og allra helst Emerson, Lake & Palmer, sem þóttu tákngervingar fyrir allt það versta sem einkenndi tónlist áratugarins, framúrstefnurokkið sem sumir kalla "progg".

Í þeirri allherjarslátrun fóru margar sveitir undir hnífinn sem óhætt hefði verið að hlífa, því ekki var allt vonlaust sem samið var og tekið upp undir merkjum framúrstefnunnar og reyndar skondið að heyra hjá mörgum ungsveitum nútildags, innlendum sem erlendum, greinileg merki um framúrstefnu, þó oft sé frekar verið að finna upp hjólið að nýju en að sækja innblástur áratugi aftur í tímann.

George Martin var frumkvöðull

Margir vilja rekja framúrstefnuna aftur til þess er George Martin liðsinnti Bítlunum og leiðbeindi, meðal annars með því að nota vinnubrögð úr sígildri tónlist og kvikmyndatónlist, sem náði hámarki á Sgt. Pepper's. Sú plata, Days of Future Passed með Moody Blues, kom út í júní 1967 og síðar sama ár kom út plata sem átti eftir að hafa enn meiri áhrif í framúrstefnunni, þar sem menn reyndu að fella saman sinfóníska hljóma og rokktónlist áþekkt því sem Gunther Schuller gerði með djass og nútímatónlist og kallaði þriðju bylgjuna. Moody Blues sóttu aftur á móti hugmyndir í barokktónlist og ýmislegt klassískt léttmeti og settu við samsuðu úr vestrænum og austrænum trúarbrögðum.

Fyrir stuttu kom út fyrsti skammtur í skipulagðri endurútgáfu á helstu verkum King Crimson, sem var einmitt að verða til árið 1968, en hún hefur elst einna best af framúrstefnusveitum. Leiðtogi hennar hét Robert Fripp, sem jafnan er talinn með helstu gítarleikurum breskrar rokksögu.

Sveitin er sprottin úr einskonar tríói Fripps og bræðranna Michael og Peter Giles, Giles, Giles & Fripp. Áður en það tríó náði að ljúka við fyrstu breiðskífu sína var allt önnur hljómsveit orðin til, í sveitina gengu Ian McDonald og Peter Sinfield og eftir að Peter Giles hætti slóst í hópinn bassaleikarinn Greg Lake. Platan sem unnið var að kom loks út undir nafninu The Cheerful Insanity of Giles, Giles & Fripp og þó segja megi að sá vísir hafi verið mjór gaf hann góða mynd af því sem í vændum var, enda framúrstefnan rækilega krydduð með kímni og frumleika.

King Crimson verður til

Þegar hér var komið sögu, síðla árs 1968, og ekki nema einn Giles eftir í sveitinni ákváðu menn að skipta um nafn og tóku upp King Crimson eftir texta við lag sem sveitin var með í smíðum. Það varð síðar einskonar titillag fyrstu breiðskífu sveitarinnar, In the Court of the Crimson King, sem telst með helstu plötum framúrstefnurokksins.

Mjög einkenndi tónlist King Crimson nýtt hljóðfæri sem Michael Giles lék á og kallast mellotron, einskonar frum-hljóðgervill, sem varð höfuðhljóðfæri framúrstefnurokks frumbýlingsárin. Giles var aftur á móti óánægður hvert stefndi í tónlist sveitarinnar, fannst menn spenna bogann of hátt og reyna um of á þolrif hlustenda. Hann hætti því og Ian McDonald um leið. Greg Lake var líka farinn að ókyrrast, enda var honum boðið að ganga í tríó með þeim Keith Emerson úr Nice og Carl Palmer úr Atomic Rooster, sem síðan kallaðist Emerson, Lake & Palmer.

Ekki er gott að rekja í þaula alla þá sem verið hafa í King Crimson og í raun má segja að margar sveitir hafi verið starfandi, svo ólíkar leiðir fór Fripp með ólíkum mannskap, en hann var sá eini sem verið hefur í sveitinni alla tíð.

Breytt til í stíl og stefnu

Alls hefur á þriðja tug manna skipað King Crimson og fjölmargir að auki komið við sögu á plötum sveitarinnar, þeirra helstir Keith Tippett og Jon Anderson. Af fastamönnum, sem sumir stöldruðu reyndar stutt við, má nefna Mel Collins, Boz Burrell, Bill Bruford, John Wetton, David Cross, Jamie Muir, Tony Levin og Adrian Belew.

Fripp valdi í sveitina nýja menn eftir því sem hann langaði að breyta til í stíl og stefnu og tókst þannig að halda velli í framúrstefnunni allt fram á níunda áratuginn þegar Talking Heads og fleiri hljómsveitir mótuðu nýjan stíl framúrstefnu. Ekki tókst honum hins vegar svo vel upp með mannskap á árunum eftir að In the Court of the Crimson King kom út, því þó skífurnar sem á eftir komu, hljóðverskífurnar In the Wake of Poseidon, Lizard og Islands og hljómleikaplatan hrikalega hráa Earthbound, þyki almennt þokkalegar, nema kannski sú síðastnefnda, er greinilegt þegar hlustað er á þær að innblásturinn fer þverrandi. Þróunin í tónlistinni er þó allnokkur og á meðan kollegar Fripps leituðu í átt að poppklassík, sjá til að mynda Myndir á sýningu í meðförum Emerson, Lake & Palmer og "píanókonsert" Emersons á Trilogy, sótti Fripp innblástur í djass, hugsanlega fyrir áhrif frá píanóleikaranum snjalla Keith Tippett, sem lék á Lizard, en á þeirri skífu er meðal annars vitnað í Miles Davis.

Stökk framávið

Þessa gerð King Crimson þraut örendi vorið 1972, en Fripp var ekki af baki dottinn; um sumarið setti hann saman nýja King Crimson með öðrum áherslum, nú með Bill Bruford, sem áður lék með Yes, John Wetton úr Family, David Cross á fiðlu og mellotron og Jamie Muir á slagverk. Sú sveit tók upp Larks' Tongues in Aspic og gaf út 1973. Enn voru tekin stökk framávið, lögin lengri en forðum, kaflaskipti örari og hljóðfæraleikur allur í hæsta gæðaflokki. Í mati á skífum King Crimson er rétt að telja Larks' Tongues in Aspic með helstu verkum sveitarinnar, þó ekki kunni þeir sem halda upp á In the Court of the Crimson King allir að meta stefnubreytinguna. Ólíkt fyrri gerðum King Crimson tókst þessari að taka upp aðra plötu áður en hún leystist upp, Starless and Bible Black, en reyndar var Muir genginn úr skaftinu. Starless and Bible Black þykir lítt síðri en lævirkjatungurnar og þeim sem líkar harkaleg tilraunamennska meta hana meira, sérstaklega fyrir seinni hlið skífunnar sem hafði að geyma tvö löng lög af mótuðum hljóðversspuna.

Þegar kom að því að taka upp þriðju plötuna í þessari röð, Red, voru enn komnir brestir í hljómsveitina og David Cross hætti í miðjum klíðum. Þrátt fyrir það tókst að berja plötuna saman og hún er reyndar býsna góð.

Þegar hér var komið sögu lagðist King Crimson í dvala um hríð, en næsta plata var tónleikaplatan USA og síðan sólóskífa Fripps, Exposure. Í upphafi níunda áratugarins var síðan komið að nýjum kafla í sögu King Crimson með framúrskarandi skífu, Discipline, en hún fellur utan við þessa samantekt.