Friðrik Sophusson afhendir Siv Friðleifsdóttur stjórnsýslukæru vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um Kárahnjúkavirkjun. Einar Sveinbjörnsson, aðstoðarmaður ráðherra, fylgist með álengdar.
Friðrik Sophusson afhendir Siv Friðleifsdóttur stjórnsýslukæru vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um Kárahnjúkavirkjun. Einar Sveinbjörnsson, aðstoðarmaður ráðherra, fylgist með álengdar.
Landsvirkjun hefur skilað umhverfisráðherra stjórnsýslukæru þar sem þess er krafist að ráðherra fallist á framkvæmd við Kárahnjúkavirkjun og breyti þar með úrskurði Skipulagsstofnunar. Eiríkur P. Jörundsson las kæruna þar sem fram kemur að fyrirtækið telur virkjunina skila verulegum arði og rangt sé að framkvæmdin valdi umtalsverðum umhverfisáhrifum.

FRIÐRIK Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, gekk á fund Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra í gær og afhenti henni stjórnsýslukæru vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar. Í kærunni fer Landsvirkjun fram á að úrskurði Skipulagsstofnunar verði breytt og þess krafist að umhverfisráðherra taki efnislega ákvörðun í málinu og taki tillit til þeirra atriða sem fram komi í kærunni og fallist á framkvæmd með eða án skilyrða.

Kæruna byggir Landsvirkjun á því að Skipulagsstofnun hafi skort lagastoð til að hafna framkvæmd við Kárahnjúkavirkjun á þeim forsendum að fyrirliggjandi upplýsingar hafi ekki verið nægjanlegar. Þá telur Landsvirkjun að matsskýrslan hafi sýnt fram á að leyfa ætti framkvæmdir og leggur í kærunni fram ítarlegri upplýsingar sem styðja eiga þá skoðun fyrirtækisins að framkvæmd sé réttlætanleg út frá umhverfisáhrifum. Jafnframt því leggur Landsvirkjun fram upplýsingar um arðsemi virkjunarinnar, þar sem fram kemur að fyrirtækið njóti tvöfalt meiri arðsemi af virkjuninni en eigendur fara fram á, eða 14% arðsemi, og er það niðurstaða Landsvirkjunar að orkusamningar við Reyðarál séu mjög hagstæðir.

Í úrskurði Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar kom fram að lagst væri gegn framkvæmdinni vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar. Að mati lögfræðinga Landsvirkjunar á Skipulagsstofnun sér enga lagastoð að því leyti að heimilt sé að leggjast gegn framkvæmd á þeim grundvelli að upplýsingar eða gögn skorti. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir þetta mjög mikilvægt atriði.

"Ein meginástæðan fyrir breytingum á lögum fyrir ári var sú að okkur hefði ekki tekist í lögunum frá 1993 að koma fyrir leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu Skipulagsstofnunar. Á þetta var lögð rík áhersla. Við teljum að Skipulagsstofnun hafi látið undir höfuð leggjast að sinna þessari leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sinni," segir Friðrik.

Í kæru Landsvirkjunar kemur fram að í lögum um mat á umhverfisáhrifum sé gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun taki afstöðu til þess áður en ákvörðun er tekin hvort gögn séu fullnægjandi þannig að hægt sé að bæta úr því. Þetta komi einnig fram í rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem leggur þá skyldu á stjórnvald að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. "Skipulagsstofnun var því ekki heimilt að beita mats- eða sönnunarreglu í stað rannsóknarreglu," segir í niðurstöðum kærunnar.

Að mati Landsvirkjunar ber úrskurður Skipulagsstofnunar ekki með sér hvernig stofnunin komst að niðurstöðu sinni og hvað hafi einkum ráðið þeirri niðurstöðu. Telur Landsvirkjun m.a. að Skipulagsstofnun hafi hvorki lagt sjáfstætt mat á líkleg umhverfisáhrif að teknu tilliti til mótvægisaðgerða né heldur rökstutt niðurstöðu sína nægjanlega.

"Það þarf ekki langan lestur í úrskurði Skipulagsstofnunar til að sjá að þeir vitna fyrst og fremst í aðra. Þeir taka upp það sem aðrir sérfræðingar segja og tefla því fram gegn því sem kemur fram í matsskýrslunni og gefa sér síðan að það sé rétt. Í raun og veru vantar þeirra eigin rökstuðning í niðurstöðunum," segir Friðrik.

Hann segir Landsvirkjun líta þannig á að matsskýrsla fyrirtækisins ásamt fylgigögnum uppfylli ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum og viðurkennd vinnubrögð í matsferlinu. Landsvirkjun telur hins vegar að Skipulagsstofnun hafi ekki stuðst við öll framlögð gögn í niðurstöðunni. "Allar nauðsynlegar upplýsingar um einstaka þætti koma þar fram en samt sem áður og ekki síst vegna þess að það eru ákveðnar aðfinnslur hjá Skipulagsstofnun, þá höfum við í kærunni fyllt betur út og skýrt frekar við hvað er átt," segir Friðrik.

Að sögn Friðriks greinir Landsvirkjun í matsskýrslunni skilmerkilega frá neikvæðum áhrifum framkvæmdanna. Þá sé einnig gerð grein fyrir fjölmörgum jákvæðum áhrifum virkjunar sem vegi upp hin neikvæðu áhrif. Þessi áhrif veginn saman leggi grunn að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar samkvæmt lögunum. Í því ljósi telur Landsvirkjun ranga þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laganna.

"Þær þættir sem vega þyngst í mati Skipulagsstofnunar eru jarðvegsfok og áfok vegna Hálslóns, veita Jökulsár á Dal í Lagarfljót og vatnshæð í Fljótsdal og með fljótinu, tapað gróðurlendi og vistkerfi vegna Hálslóns og að lokum hagrænn og samfélagslegur ávinningur af framkvæmdinni. Landsvirkjun hefur yfirfarið þessa þætti vandlega með hliðsjón af úrskurðinum og hafnar því að unnt sé að leggjast gegn framkvæmdinni sökum þess að umhverfisáhrif hennar verði umtalsverð í skilningi laga nr. 106/2000," segir í stjórnsýslukæru Landsvirkjunar.

Í greinargerð um efnislega þætti sem fylgir kærunni eru lögð fram ítarlegri gögn um mótvægisaðgerðir vegna hættu á áfoki úr lónstæði Hálslóns út yfir nálæg gróðursvæði á Vesturöræfum. Þar segir að fyrst og fremst sé um að ræða tæknilegar lausnir til að fyrirbyggja áfok en jafnframt að fyrirhugaðar séu líffræðilegar aðgerðir til að styrkja gróður með strönd lónsins. "Mótvægisaðgerðir tryggja að umhverfisáhrif verði innan viðunandi marka," segir í greinargerðinni.

Þar er einnig fjallað ítarlegar um mótvægisaðgerðir vegna hækkunar vatnsborðs í Lagarfljóti og í Fljótsdal og leiðrétt það sem kallað er misskilningur í úrskurði um áhrif á grunnvatn með Lagarfljóti og leidd rök að því að áhrif á vistkerfi og landbúnað séu lítil. Þá eru skilgreindar betur hugmyndir Landsvirkjunar um aðgerðir til uppgræðslu lands og til varnar jarðvegsrofi og gróðureyðingu á Norður-Héraði í samvinnu við heimamenn og á forræði þeirra.

Auk þessarra upplýsinga eru lagðar fram ítarlegri upplýsingar um hagræna þætti framkvæmdarinnar og arðsemi hennar. Þó Landsvirkjun telji ekki að fyrirtækinu sé skylt að leggja fram upplýsingar um arðsemi virkjunar fyrir fyrirtækið var engu að síður ákveðið að leggja fram gögn sem styðji það mat Landsvirkjunar að veruleg arðsemi fylgi framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun. Í greinargerð með kærunni segir að fjárfesting Landsvirkjunar vegna orkuafhendingar til Reyðaráls, að fjárfestingum í Kröflu og Bjarnarflagi meðtöldum, nemi ríflega 100 milljörðum króna miðað við verðlag í mars og rúmlega 50% af þeirri fjárfestingu sé skilgreint sem innlendur kostnaður sem skili sér þá beint inn í íslenskt efnahagslíf á byggingartíma virkjananna.

"Það hefur hins vegar komið fram að í samningum við Reyðarál gerir Landsvirkjun verulega hærri kröfu um ávöxtun eigin fjár en nemur kröfu eigenda. Landsvirkjun gerir ráð fyrir því að eiginfjárhlutfall í verkefninu muni nema um 25% og áætlað er að raunarðsemi eigin fjár muni verða um 14% miðað við þau samningsdrög sem nú liggja fyrir. Það er meira en tvöföld sú krafa sem eigendur gera til fyrirtækisins og mjög ásættanleg ávöxtun ef borin saman við arðsemi eigin fjár hjá raforkufyrirtækjum í nágrannalöndunum," segir í greinargerð með kærunni.

Þar kemur einnig fram að Landsvirkjun hafi fengið viðurkenndan alþjóðlegan banka, Sumitomo Mitsui Banking Corporation, til að yfirfara afkomuútreikninga fyrirtækisins, forsendur, aðferðafræði og niðurstöður. "Mat SMBC er að forsendur og aðferðafræði útreikninganna séu trúverðugar og niðurstaða þeirra því byggð á traustum grunni," segir í kærunni.