Frá sýningu Önnu Eyjólfsdóttur í Listasafni ASÍ við Freyjugötu.
Frá sýningu Önnu Eyjólfsdóttur í Listasafni ASÍ við Freyjugötu.
Til 4. nóvember. Opið þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 14-18.

SÝNING Önnu Eyjólfsdóttur í Listasafni ASÍ - bæði í gryfju og Ásmundarsal - er of athyglisverð til að vert sé að láta hana fara óséða fram hjá sér. Yfirskriftin er Gert/Ógert, og lýsir vegferð listakonunnar með yfirliti yfir fyrri verk í gryfjunni. Þar má með öðrum orðum sjá myndir af ýmsu því sem Anna hefur sýnt annars staðar, svo sem Sogblöðkurnar og Fánana - þá sem prýddu síðustu Strandlengju.

Þennan hluta sýningarinnar setur hún upp sem nokkurs konar rannsóknarstofu þar sem ýmislegt er á rúi og stúi, rétt eins og Anna sjálf hefði brugðið sér frá vinnu sinni um stundasakir. Í sýningakassa á gólfinu má sjá ýmsar sýningaskrár, en tölva stendur undir glugganum með nákvæmri þrívíddargerð af höfði Davíðs forsætisráðherra.

Þessi tölvumynd tengist verkinu í Ásmundarsal. Þar er að finna allveglegt viðarmódel af Listasafni ASÍ, með báðum sölum. Þetta er sá hluti sýningarinnar sem enn er ógerður. Þar má sjá inni í smáhýsinu hvernig Anna hafði hugsað sér salinn með forsætisráðherra í sjónvarpinu og tólf þar til gerða kassa upp á endann, sem væntanlega áttu að hýsa jafnmarga ráðherra, eða alla þá sem setið hafa í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar frá upphafi.

Einnig er minna hýsi með módeli af gryfjunni, hvar Anna hafði hugsað sér risasogblöðku sem hugsanlegan gatnahreinsi. Sem skýringu á samsetningunum í módelhúsunum eru stækkaðar myndir af tilboðum ýmissa fyrirtækja, og kostnaðarútreikningum þeirra, sem gefa til kynna upphæðirnar sem ef listakonan hefði þurft að borga ef hún hefði fullunnið sýninguna í raunverulegum stærðarhlutföllum.

Þannig snýst sýning Önnu - Gert/Ógert - fyrst og fremst um kostnað þann sem óhjákvæmilega fylgir gerð listsýninga og listamenn geta með engu móti klofið sökum þess að hvergi er gert ráð fyrir framleiðslustyrkjum til gerðar samtímaverka í hinu íslenska listkerfi. En þótt vissulega megi finna slíka listpólitíska undiröldu í sýningu Önnu sannar hún að sem tilraunaglaður rýmislistamaður er hún nægilega skelegg til að vera til alls vís.

Halldór Björn Runólfsson