28. nóvember 2001 | Bókablað | 362 orð | 1 mynd

BÆKUR - Börn

Falleg, fyndin og fræðandi tröllabörn

MEÐ BÓLU Í BÆJARFERÐ

Sigrún Edda Björnsdóttir
Sigrún Edda Björnsdóttir
Eftir Sigrúnu Eddu Björnsdóttur. Ljósmyndir Gísli Egill Hrafnsson og Gunnar Gunnarsson. Iðunn, 2001. 64 síður.
TRÖLLASTELPAN Bóla leit fyrst dagsins ljós í Ríkissjónvarpinu árið 1990 og er nú komin á bók, ellefu árum síðar. Höfundurinn, Sigrún Edda Björnsdóttir, sendir hér frá sér sína fyrstu skáldsögu og hefur jafnframt komið fram í gervi Bólu frá því hún birtist áhorfendum fyrst. Í bókinni leggja tröllastelpan og Hnútur vinur hennar (Gunnar Helgason) í leiðangur frá heimkynnum sínum á Þingvöllum til Reykjavíkur í 17. júní-skrúðgöngu og lenda auðvitað í ýmsum ævintýrum á leiðinni. Þau hitta til dæmis þjóðvegaá á miðjum veginum (hvar annars staðar?), hjálpsaman vörubílstjóra (og gáfaðasta mann á Íslandi), hauslausan draug sem reynist vera "Verstúr-Íslendingur frá Winnipeg" og fá þar af leiðandi að smakka tyggjó, sem auðvitað er miklu betra en "þykjustu úr ónýtu bíldekki".

Þegar í höfuðstaðinn er komið verða á vegi þeirra Bólu og Hnúts ýmsar "fastar stærðir" í miðborgarlífinu, svo sem tveir fullir kallar með kökudropa, lögregluþjónn með dómaraflautu og síðast en ekki síst "styttukallinn í jakkafötunum".

Þau hitta líka fjallkonu, trúða, tónlistarmenn, skáta og skvísur og smakka pylsur og ís og dansa samba og rokk, eins og lög gera ráð fyrir 17. júní.

Með því að skemmta sér yfir fyndinni atburðarás, samleik Bólu og Hnúts og hnyttnum tilsvörum, fræðast börnin einnig um umferðarreglur, öryggisbelti, Vesturfarana, Jón forseta og montrassa, svo eitthvað sé nefnt, sem auðvitað er vel til fundið. Rauði þráðurinn er hins vegar vináttan, því þrátt fyrir öll ævintýrin er alltaf lang skemmtilegast að vera með vinum sínum, eins og segir þegar sögunni lýkur og tröllabörnin halda aftur heim til Þingvalla.

"Mér þótti skemmtilegast að vera með þér," sagði [Hnútur] loks alvarlegur, "af því að þú ert svo góður og skemmtilegur vinur." (63)

Frásögnina prýða skemmtilegar ljósmyndir af sögupersónum og öðrum sem á veginum kunna að verða 17. júní og eru vitaskuld ómissandi. Hið eina sem stakk kannski verulega í stúf við tröllagervin og gróf andlitin voru hvítar hendur og fætur og vel hirtar neglur. Mýsnar Dói og Drusla í fylgsni tröllastelpunnar í Almannagjá eru jafnframt dálítið "tilraunastofulegar", sem hvort tveggja fer ekki framhjá glöggskyggnum börnum.

En hvað sem því líður eru Bóla og Hnútur góð og uppbyggileg skemmtun fyrir stóra sem smáa, og eins og þau segja ævinlega sjálf að síðustu: Við hittumst heil!

Helga Kr. Einarsdóttir

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.