Einar Karl Haraldsson
Einar Karl Haraldsson
Umboð og hlutverk hjálparsamtaka, friðargæslusveita og herja, segir Einar Karl Haraldsson, þurfa að vera skýrt afmörkuð.
Evrópusambandið hefur frá því 1999 lagt áherslu á að móta sameiginlega stefnu í varnar- og öryggismálum. Ákveðið hefur verið að koma á fót 60 þúsund manna herliði á næstu þremur árum og er nú leitað að hlutverki fyrir það sem ekki rekst á við skyldur Atlantshafsbandalagsins. Helst hefur mönnum dottið í hug að baráttusveitir ESB mætti senda á átakasvæði í því skyni að stilla til friðar. Eftir 11. september er einnig rætt um þær í sambandi við baráttu gegn starfsemi hryðjuverkamanna. ESB-hernum er ekki ætlað að vera fastaher, en aðildarríkin myndu leggja honum liðsveitir í samræmi við verkefni á hverjum tíma.

ESB-her og neyðarhjálp

Það er ekki viðfangsefni þessarar greinar að leggja mat á þessi áform heldur er tilgangur hennar að vekja athygli á því að samkvæmt svokölluðum "Petersburg áformum" eiga hersveitir ESB að inna af hendi verkefni í friðargæslu, svo sem mannúðarstarf, rýmingu svæða og neyðarhjálp. Þetta leiðir hugann að því að herafli hefur gegnt æ stærra hlutverki í hjálpar- og neyðarstarfi eftir að kalda stríðinu lauk.

Víða er rekinn áróður fyrir því að herinn sé hentug skipulagseining og vel í stakk búinn til þess að sinna mannúðar- og hjálparstarfi. Þá hafa ýmsir litið á það sem kjörið verkefni fyrir aðgerðarlitla NATÓ-heri að þeir sinni hjálpar- og uppbyggingarstarfi.

Nauðsynlegt er að átta sig á því að það getur haft margvíslega ókosti í för með sér að blanda saman herrekstri og hjálparstarfi. Til þess að vernda óhlutdrægni og ótakmarkaðan aðgang hjálparstarfsmanna að hættusvæðum ber að forðast að blanda neyðarhjálp saman við pólitísk eða hernaðarleg markmið. Engu að síður stöndum við frammi fyrir því að hernaðar og hjálparstarf eiga sér oft stað samhliða og samtímis.

Herrekstur og hjálparstarf

Síðastliðið vor héldu APODEV - sem er samstarfsvettvangur lúterskra hjálparsamtaka í Evrópu - og Evrópudeild CARITAS - hjálparsamtaka kaþólsku kirkjunnar - ráðstefnu í Genf þar sem rætt var um hlutverk herja og hjálparsamtaka í neyðarástandi. Niðurstaða hennar var sú að herir og hjálparstofnanir yrðu að hafa samskipti: Samvinna er stundum nauðsynleg til þess að tryggja öryggi hjálparstarfsmanna og þeirra hópa sem hjálpin þarf að ná. Einnig getur flutningsgeta herja ráðið úrslitum í upphafi hjálparstarfs. Þessi niðurstaða er í góðu samræmi við ályktun trúarsamfélaga, sem fjölluðu um svipað efni árið 1994 og samþykktu svokölluð Mohonk-viðmið fyrir mannúðaraðstoð í flóknum neyðartilvikum. Þar er fjallað um tengsl stjórnmála, mannúðarstarfs og hernaðar. Meginboðskapur Mohonk-viðmiðanna er þessi: Umboð og hlutverk séu eins skýrt afmörkuð og kostur er. Leitað sé samvinnu og samlegðaráhrifa til að ná árangri.

Hernaðaryfirvöld hafa úr meiri fjármunum að spila heldur en Sameinuðu þjóðirnar og hjálparsamtök, og hið sama má segja um flutnings- og afkastagetu. Þau skortir hins vegar stefnu, reynslu og hæfni í mannúðarstarfi, enda er það ekki eiginlegt hlutverk þeirra. Í Afghanistan hefur Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna og ACT - heimssamtök evangelískra hjálparstofnana, CARITAS, Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn haft þúsundir hjálparstarfsmanna á sínum vegum í 15 ár. Oftast hefur starf þeirra verið unnið við gleymsku heimsins. Ljóst er að verði ekki byggt á þeirri reynslu og þekkingu sem safnast hefur fyrir, þegar uppbyggingarstarf hefst í Afghanistan, er hætta á tvíverknaði, mistökum og sóun fyrir hendi.

Gjörólík uppbygging

Eins og áður segir geta herir komið að gagni í hjálparstarfi. En þeir eru ákaflega kostnaðarsamir og íhlutunarher samanstendur auk þess af útlendingum sem hafa með sér aðfluttar birgðir. Þeir eru háðir pólitískum fyrirmælum, hafa fyrirskipað verk að vinna og eru í lagskiptri tignarröð sem býður heim mikilli skriffinnsku.

Hjálparstarf, t.d. á vegum kirkjunnar eða Rauða krossins, hefur allan kostnað í lágmarki, kaupir eins mikið af heimamönnum og hægt er og vinnur með og samhliða heimamönnum og samtökum þeirra. Það stjórnast af siðferðilegum vilja, er pólitískt óháð og byggir á aðildar- og þátttökuskipulagi. Þarna er ólíku saman að jafna.

Þar með er ekki sagt að mannúðarsamtök séu ætíð betur fallin til þess að sinna hjálparstarfi en herafli. Í heiminum er til mikil flóra af hjálparsamtökum. Innan hennar eru því miður mörg dæmi um samtök sem hafa illa skilgreint hlutverk og hafa valdið skaða með vanþekkingu á aðstæðum og þörfum. Engum blöðum er heldur um það að fletta að hjálparstofnanir á vegum Osama bin Laden og annarra róttækra Islamista eru fyrst og fremst reknar í þágu pólitískra byltingarmarkmiða.

Skýr afmörkun

Eins og getið var í upphafi áformar Evrópusambandið að koma sér upp her, sem m.a. á að sinna mannúðar- og hjálparstarfi. ESB hefur einnig í hyggju að efla getu sína til borgaralegrar friðargæslu með stofnun fimm þúsund manna lögregluliðs til aðgerða utan vébanda þess. Hér á Íslandi er samhliða unnið að stofnun Íslensku friðargæslunnar. Vert er að minna á í þessu sambandi að íhlutanir - hvort sem um er að ræða íhlutanir af mannúðarástæðum, vegna friðargæslu eða í því skyni að stilla til friðar - leiða ekki til varanlegra lausna á átökum eða neyðarástandi. Varanlegar lausnir byggja á hæfni, getu og vilja heimamanna til þess að leysa vandann og fást við uppbyggingu. Hlutverk þeirra sem skerast í leikinn, í samræmi við rétt alþjóðasamfélagsins til þess að grípa inn í neyðarástand, er einungis að vernda, aðstoða, tryggja öryggi og auðvelda uppbyggingu.

Niðurstaðan af þessum hugleiðingum er sú, að það er allra hagur, að þeir sem sinna hjálpar- og neyðarstarfi geri sér far um að hlutverk þeirra og grunnumboð sé skýrt afmarkað, og lögð sé megináhersla á samvinnu og árangur, en minni á tignarröð og yfirbyggingu. Vonandi verður Íslenska friðargæslan byggð upp í samræmi við slík sjónarmið.

Höfundur er stjórnarformaður Hjálparstarfs kirkjunnar.