Sala Bónusverslana jókst um 42,1% á fyrstu níu mánuðum ársins, borið saman við sama tímabil í fyrra.
Sala Bónusverslana jókst um 42,1% á fyrstu níu mánuðum ársins, borið saman við sama tímabil í fyrra.
TILGANGINUM með verslunarmiðstöðinni Smáralind hefur verið náð, að mati Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, en hann segir tilganginn hafa verið að ná heim erlendri verslun.
TILGANGINUM með verslunarmiðstöðinni Smáralind hefur verið náð, að mati Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, en hann segir tilganginn hafa verið að ná heim erlendri verslun.

"Við höfum orðið vör við það í nóvember að sala á fatnaði virðist vera að færast mikið til landsins. Einnig hefur kreditkortanotkun erlendis dregist stórlega saman. Okkar kannanir sýna að verðlag á fatnaði á heimamarkaði er orðið mjög sambærilegt við erlendar stórborgir", sagði Jón Ásgeir á kynningarfundi Baugs í gær.

Þá sagði hann októbermánuð hafa verið óvenju hagstæðan félaginu, sem skýrðist af góðu gengi rekstrar í Smáralind og aukinni sölu sérvöru. Horfurnar fram að áramótum sagði hann einnig góðar.

Sala matvörusviðs jókst um 24%

Árni Pétur Jónsson, framkvæmdastjóri matvörusviðs Baugs, fór á fundinum yfir stöðu og horfur sviðsins sem rekur nú 51 matvöruverslun, þ.a. eru Bónusverslanir 17 talsins, 10-11 verslanir eru 21, þá er ein Nýkaupsverslun og 12 lyfjabúðir reknar undir merkjum Lyfju og Apóteksins. Auk þess heyra innkaup, vöruhús og dreifing í nafni Aðfanga undir sviðið.

Í erindi Árna Péturs kom fram að heildarsala á matvörusviði Baugs hefði aukist um 24,1% á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við sama tímabil árið áður en alls voru reknar 54 verslanir á tímabilinu. Heildarsala að frátöldum nýjum verslunum jókst um 18% frá fyrra ári og veltuhraði birgða jókst um 14%. Alls fjölgaði verslunarfermetrum um 8,9% og sala á hvern fermetra jókst um 14,3%.

Af einstökum verslunarkeðjum jókst sala Bónusverslana mest, eða um 42,1%, miðað við sama tíma í fyrra. Sala að frátöldum nýjum verslunum jókst um 14%, aukning fermetra nam 21,4% en sala á hvern fermetra jókst um 17%. Gert er ráð fyrir að veltuaukning Bónusverslana á næsta ári nemi 20% og hana megi fyrst og fremst rekja til nýrra verslana í Kringlunni og á Smáratorgi.

Samdráttur einungis hjá Nýkaupi

Sala 10-11 verslana jókst um 7,2% á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við sama tíma árið 2000. Þegar nýjar verslanir eru frátaldar nemur aukningin 2%. Fermetrum fækkaði um tæpt 1% en sala á hvern fermetra jókst um 8,2% miðað við fyrra ár. Stefnt er að 5% veltuaukningu 10-11 á næsta ári þrátt fyrir að verslunum hafi fækkað um tvær.

Aðeins í Nýkaup dróst salan saman á milli ára, um 0,7% og gert er ráð fyrir að veltan minnki um 9% á næsta ári.

Í Lyfju- og Apóteksverslunum jókst sala á milli ára um 16,6%, en 14,8% að frátöldum nýjum verslunum. Fermetrafjöldi jókst um 18,8% en sala á hvern fermetra dróst saman um 3,4%. Gert er ráð fyrir 25% veltuaukningu Lyfju á næsta ári.

Árni Pétur sagði horfurnar góðar fyrir matvörusviðið á síðasta ársfjórðungi. Sagði hann söluna í október og nóvember hafa aukist um 25% miðað við sömu mánuði árið 2000.

Sérvörusala jókst um 28,4%

Jón Björnsson, framkvæmdastjóri sérvörusviðs Baugs, fór á svipaðan hátt yfir stöðu horfur sérvörusviðs en því tilheyra átta Hagkaupsverslanir, ein Debenhams, dreifingarmiðstöð og 12 sérvöruverslanir á borð við TopShop, Útilíf, Zara og Dótabúðina.

Sala sérvörusviðs í heild jókst um 28,4% á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við sama tímabil árið 2000. Sala að nýjum verslunum undanskildum jókst um 10% en alls voru reknar 13 verslanir á tímabilinu. Veltuhraði birgða dróst saman frá fyrra ári um 31%. Þá fjölgaði fermetrum verslana um 31,5% og sala á hvern fermetra jókst um 41,7%.

Hagkaupsverslanir seldu 27,7% meira á fyrstu níu mánuðum þessa árs miðað við sama tíma í fyrra en matvara nemur rúmlega helmingi af veltu Hagkaups. Sala að frátöldum nýjum verslunum jókst um 1,3% á tímabilinu, fermetrafjöldi jókst um 31,5% en sala á hvern fermetra dróst saman um 2,9%. Gert er ráð fyrir 5,8% veltuaukningu og er það aðallega vegna Hagkaups í Smáralind. Þá er unnið að frekari uppbyggingu eigin vörumerkja Hagkaups en að sögn Jóns á Hagkaup í dag yfir 20 sérvörumerki sem það þróar, hannar, framleiðir og selur.

Tvöföldun sölu tískuverslana

Sala TopShop og Miss Selfridge verslana á Íslandi og Svíþjóð jókst um 117% frá fyrra ári en 36,4% að frátöldum nýjum verslunum. Fermetrafjöldi þeirra verslana jókst um 44% á tímabilinu og sala á hvern fermetra um 51%.

Á næsta ári verða opnaðar sjö nýjar verslanir í Svíþjóð og þegar hefur verið gerður leigusamningur fyrir fjórar þeirra. Auk þess verður fyrsta verslunin opnuð í Kaupmannahöfn.

Af smærri einingum var einungis Útilíf í rekstri á fyrstu níu mánuðunum. Þar jókst salan um 3,5% frá fyrra ári og sala á hvern fermetra jókst um 37,7% en fermetrum fækkaði frá fyrra ári.

Um stöðu verslana Baugs í Smáralind nú, eftir tveggja mánaða starfsemi, sagði Jón að söluaukning Hagkaups í Smáralind hefði verið 21,5% en fermetrabreytingin er 26,3%. Þá væri aukning TopShop og Miss Selfridge 69,1% á þessum tveimur mánuðum og 42,8% fermetraaukning. Jón var, líkt og Jón Ásgeir, bjartsýnn á sölu í desembermánuði og sagði horfurnar góðar á sérvörusviði fyrir næsta ár.

Að sögn Jóns Ásgeirs verður ekki um frekari stórfjárfestingar Baugs að ræða á íslenskum markaði næstu þrjú árin. Þó muni einhverjar verslanir bætast við, þá sérstaklega á matvörusviði en áhersla verði nú lögð á uppbyggingu erlendis.