[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Matthías Johannessen. Silja Aðalsteinsdóttir valdi ljóðin og ritaði formála. Vaka-Helgafell 2001.

Viðeyjargrænt auga Óðins í hrukkóttu andliti hafsins.

MATTHÍAS Johannessen er eitt af litríkari ljóðskáldum Íslendinga á seinni hluta 20. aldar. Hann sendi frá sér sína fyrstu bók, Borgin hló, árið 1958, og sú átjánda, Ættjarðarljóð á atómöld, kom út árið 1999. Þegar haft er í huga að margar bækur Matthíasar eru langar, vel yfir 100 blaðsíður, hljóta afköst hans að teljast undraverð. Hið nýja ljóðaúrval er 430 síður og er þá meðtalinn formáli Silju Aðalsteinsdóttur sem fékk einnig það vandasama hlutverk að velja ljóðin. Í stuttu máli kemst hún vel frá sínu verki, hún velur af stakri smekkvísi og ritar einnig læsilegan og gagnorðan formála þar sem ferill Matthíasar sem ljóðskálds kemst vel til skila. Mjög vel er staðið að útgáfunni og að auki fylgir geisladiskur með lestri skáldsins á eigin ljóðum.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Matthías kvaddi sér hljóðs með sinni fyrstu bók, Borgin hló. Matthías hafði reyndar ort frá unga aldri en beið með að gefa út ljóðabók þar til hann hafði náð tilskildum þroska.

Ekki spillti það heldur fyrir að Steinn Steinarr raðaði ljóðunum upp fyrir vin sinn Matthías, svo þau mynda sterka heild. Sjötti áratugurinn var áratugur atómskáldanna svokölluðu og ljóðið var að brjóta af sér aldalanga fjötra ríms og stuðla. Matthías mótaði sinn eigin stíl, frjálsari tjáningarhátt en flest atómskáldin notuðu. Nýjung Matthíasar í Borgin hló var ekki síst fólgin í nýrri og frjálslegri framsetningu. Einkum eru það borgarljóðin sem eru nýstárleg og ólík borgarljóðum Tómasar Guðmundssonar og Steins sem voru uppáhaldsskáld Matthíasar á mótunarárum hans. Borgin var Steini framandi og Tómasi fjarlæg og hálf óraunveruleg. Borgina persónugerir Matthías, líkir henni við unga og ástleitna konu. Hér er eitt af því sem einkennir Matthías sem skáld, hann er ástríðufullur og tilfinninganæmur og að þessu leyti miklu líkari Davíð Stefánssyni eða Stefáni frá Hvítadal, borgin er með "ungar nýlagðar götur / með varir votar af tjöru / og þær þrýsta heitum barmi að köldum fótum".

Hólmgönguljóð (1960) hét næsta bók skáldsins og þar kemur mælskan skýrt fram, eitt af sérkennum Matthíasar sem skálds alla tíð. Formið er nýstárlegt - öll ljóðin í fyrri hluta bókarinnar eru byggð upp sem myndhverfingar sem hefjast á "þú ert". Með þessu móti nær skáldið að spanna breytileik veruleikans, myndhverfingarnar eru bæði hlutstæðar og óhlutstæðar. Titillinn gefur dirfsku skáldsins til kynna, það gengur óhrætt á hólm við heiminn, vopnað orðsins brandi. Hugmyndaauðgi og tilfinningadýpt einkenna einnig Hólmgönguljóð, bókin er ort í lotu, skáldið hreinlega gýs og vísar í ýmsar áttir, einkum goðsagnir og skáldskap. Þetta er eitt af helstu einkennum ljóða Matthíasar. Hann er lærður í sögu, trúarbrögðum og skáldskap og hikar ekki við að vísa í þessa arfleifð mannkynsins. Jörð úr ægi kom út ári síðar og vísar titillinn í Völuspá.

Kaldastríðið er í algleymingi, dómur vetnissprengjunnar vofir yfir mannkyninu, en ástin og vonin lifa samt og það gefur lífinu gildi. Eitt af einkennum Matthíasar Johannessen er lotning fyrir lífinu, hann er umfram allt lofsöngvari, þó hann geti að sjálfsögðu brugðið fyrir sig háði og ádeilu, ef honum þurfa þykir. Grimmd og kúgun stríðsherra er honum ekki að skapi, hann fordæmir fortakslaust innrásina í Ungverjaland og árásir Frakka á þorp í Túnis. Með bókinni Fagur er dalur (1966) kom Matthías enn á óvart.

Hann kemur þar fram sem fullþroska listamaður. Fyrsti hluti bókarinnar nefnist Sálmar á atómöld, 49 talsins. Skáldið opnar hugskot sitt fyrir skaparanum, játar vanmátt sinn og spyr: hvar værum við án Guðs, og svarar því sjálfur þannig: "Án þín / stæðum við að vígi / eins og nakin hrísla á uppblásnum mel." Athyglisvert er að Matthías velur óbrotið og frjálst form, öndvert við sálmahefðina með sínu hefðbundna formi.

Hér er ekki rúm til að rekja feril Matthíasar í smáatriðum. Hann hefur ort ljóð um hversdagsleikann á gamansaman hátt á áttunda áratugnum, t.d. í Mörg eru dags augu (1972). En Tveggja bakka veður (1981) er lofsöngur til landsins, sögunnar og jafnvel ástarinnar en þessir þættir tvinnast gjarnan saman í ljóðum skáldsins. Nefna má einnig bækurnar Dag af degi (1988) og Vötn þín og vængur (1996) sem hvor um sig eru stórvirki. Matthías yrkir af sívaxandi íþrótt og kunnáttu, málið leikur í höndum hans og mikill lærdómur einkennir sum ljóðin, einkum þar sem vísað er í fornindversk trúarbrögð og kvæði. En einfaldleiki náttúrukvæðanna er einnig eftirtektarverður, skáldið hefur knappan stíl á valdi sínu og fundvís er Matthías á frjóar líkingar, t.d. í þessu ljóði úr síðustu bók hans, Ættjarðarljóð á atómöld, sem nefnist Á Skúlagötu:

Viðeyjargrænt auga Óðins í hrukkóttu andliti hafsins.

Ljóðlist Matthíasar er mikil að vöxtum og hún er afar fjölbreytt. Hann slær á ýmsa strengi og tekur sjálfan sig stundum ekkert of hátíðlega. Mælskan er hans einkenni og stundum hafa gagnrýnendur talið hana fullmikla. En mælskan er ómissandi þáttur í ljóðum Matthíasar, ekkert síður en í ljóðum nafna hans Jochumssonar á 19. öld. Vissulega getur mælskan og ákafinn tekið af skáldinu völdin, einkum í fyrri bókunum. Sumar hefur Matthías endurskoðað af smekkvísi, t.d. Sálma á atómöld sem komu aftur út árið 1991. Matthías hefur ætíð verið óragur við að tjá sig og sköpunarkraftur hans virðist óþrjótandi. Ljóðaúrval hans er því kærkomið og skemmtilegt að sjá bestu ljóð hans samankomin í einni bók.

Guðbjörn Sigurmundsson