[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sú leið sem ríkisstjórnin hefur valið er eina rétta leiðin, þ.e. að styrkja samkeppnishæfni atvinnulífsins. Þetta segir Viðskiptablaðið.

Uppsögn

Í leiðara nýjasta tölublaðsins segir m.a.: "Fátt getur nú komið í veg fyrir að aðilar vinnumarkaðarins hafi forsendur til að segja upp samningum í febrúar. Uppsögn samninga er þó ekki til þess fallin að bæta kjör launafólks enda bendir flest til þess að launþegahreyfingin sé fyrst og fremst að nota hótunina um uppsögn sem útspil í kröfugerð á ríkisvaldið. Sú kröfugerð snýr að aðgerðum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og beinist m.a. að fyrirhugaðri hækkun tryggingagjalds og hugmyndum um aukið aðhald í rekstri ríkisins.

Sumar af kröfum launþegahreyfingarinnar eru góðra gjalda verðar, svo sem krafan um að fallið verði frá hækkun tryggingagjalds, en annað er óviðunandi. Hjá því verður heldur ekki litið að ein meginástæða þess hvernig komið er í efnahagsmálum er að laun og kaupmáttur hafa á undanförnum árum aukist hraðar en forsendur voru fyrir og því er óhjákvæmilegt annað en að draga úr kaupmætti til að koma á jafnvægi að nýju í þjóðarbúskapnum. Sem betur fer bendir margt til þess að óðum styttist í að slíku jafnvægi verði komið á að nýju en þess verður þó að gæta að skapa ekki á ný ójafnvægi með því t.d. að auka kaupmátt mað aðgerðum sem ekkert hafa með framleiðni að gera. Má segja að hvorki óraunsæjar hugmyndir um hækkanir launataxta né tillögur um verulegar skattalækkanir á einstaklinga séu til þess fallnar að stuðla að jöfnuði í þjóðarbúskapnum sem stendur. Sú leið sem ríkisstjórnin hefur valið er eina rétta leiðin, það er að segja að styrkja samkeppnishæfni atvinnulífsins og leggja þannig grundvöll fyrir að fyrirtækin í landinu geti hækkað laun vegna bættrar samkeppnisstöðu og aukinnar framleiðni."

Framleiðni

"Vandinn í efnahagsþróuninni síðustu ár stafar ekki hvað síst af því að miklar launahækkanir og launaskrið hafa ekki grundvallast á framleiðniaukningu heldur fyrst og fremst væntingum. Á komandi misserum verður atvinnulífið, með stuðningi launþegahreyfingarinnar og hins opinbera, að leggja alla áherslu á að skapa hér raunverulega framleiðniaukningu. Aðeins þannig skapast forsendur fyrir áframhaldandi lífskjarabótum."