ÍSLENSKAR ævintýraferðir hafa gert formlegt tilboð í eignir úr þrotabúi Samvinnuferða-Landsýnar. Ragnar H. Hall skiptastjóri vonast eftir að gengið verði frá samningi um söluna í dag.
ÍSLENSKAR ævintýraferðir hafa gert formlegt tilboð í eignir úr þrotabúi Samvinnuferða-Landsýnar. Ragnar H. Hall skiptastjóri vonast eftir að gengið verði frá samningi um söluna í dag. Um er að ræða rekstur sem aðallega tengist innanlandsdeild Samvinnuferða. Ekkert varð hins vegar úr því að ferðaskrifstofan Heimsferðir keypti eignir úr þrotabúi Samvinnuferða.

Skiptastjóri gerði Heimsferðum gagntilboð í fyrradag en því var ekki tekið. Þegar þetta lá fyrir ákváðu Íslenskar ævintýraferðir hins vegar að gera formlegt tilboð í innanlandsrekstur Samvinnuferða, en fyrirtækið stóð að upphaflegu tilboði Heimsferða.

Andri Már Ingólfsson, forstjóri Heimsferða, segir að mikið af viðskiptasamböndum SL séu nú horfin, nafn þess hafi orðið fyrir miklum skaða og vart forsendur fyrir því að halda áfram með það. "Við vorum búnir að leggja fram bindandi tilboð og á sunnudegi var búið að hækka það heilmikið. Það var okkar mat að um gott tilboð væri að ræða. Síðan kom gagntilboð frá skiptastjóra SL og tíminn vann gegn okkur," sagði Andri, en fyrirtæki hans ákvað að svara ekki gagntilboði skiptastjóra SL þegar frestur til þess rann út í gærmorgun.

Andri vildi ekki greina frá því hve hátt tilboð Heimsferða var í rekstur SL. Hann sagði að samkomulag hefði orðið um að það yrði trúnaðarmál. Andri sagði að Heimsferðir væru búnar að taka yfir samninga SL á Kanaríeyjum og viðskiptasambönd þess á Benidorm, en hugmyndin væri sú að auka umsvifin á Benidorm.

Andri sagði jafnframt að nokkrum fyrrverandi starfsmönnum SL yrði boðið starf hjá Heimsferðum og vonaðist til þess að það gæti gengið eftir.