Bragi Ólafsson
Bragi Ólafsson
eftir Braga Ólafsson. Bjartur, 2001. 246 bls.
TVÖ ár eru liðin síðan Bragi Ólafsson sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu, Hvíldardaga, en fram að því hafði hann fyrst og fremst fengist við ljóðagerð. Skáldsagan vakti athygli fyrir frumleg efnistök og var hún m.a. tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Með annarri skáldsögu sinni, Gæludýrunum, heldur Bragi áfram á þeirri braut sem hann hafði markað sér með fyrri bókinni, einhverjir myndu ef til vill álíta þá braut sérvitringslega, en ljóst er að Bragi gerir sér með skrifum sínum far um að færa eitthvað nýtt inn í íslenska skáldsagnagerð og virkja lesandann í þeirri viðleitni. Þær tilraunir sem Bragi gerir með skáldsagnaformið fela þó ekki í sér einhverjar flugeldasýningar, heldur þvert á móti tilraunir með hversu lítið er hægt að komast upp með í þeirri viðleitni að ná tökum á lesandanum, hvernig búa má til sögu með því að þræða sig í gegnum athafnir og fánýtar hugsanir hversdagsleikans. Hæfileikar Braga liggja þó í því að setja viðburðaleysið fram á þann hátt að forvitni vaknar hjá lesandanum um framhaldið, um að nú hljóti eitthvað að fara að gerast.

Þegar við upphaf sögunnar er sleginn hinn fremur fábreytilegi tónn bókarinnar. Litast sá tónn óneitanlega af persónuleika aðalsöguhetjunnar, sem er þrítugur fagurkeri og rólyndismaður að nafni Emil. Þegar sagan hefst er Emil nýkominn úr utanlandsferð til London sem hann hafði farið til að halda upp á happdrættisvinning; fljótlega stekkur þó frásögnin nokkrar klukkustundir aftur í tímann, til upphafs heimferðarinnar og fylgjumst við með fluginu í nokkrum smáatriðum. Samhliða því er skipt um sjónarhorn, frá fyrstu persónu frásögn Emils hverfum við til þriðju persónu frásagnar af ferð dularfulls manns um Reykjavík. Maðurinn virðist eiga einhverjar óuppgerðar sakir við Emil og meðan sá síðarnefndi situr og skrafar við samferðafólk sitt í háloftunum yfir Atlantshafinu fylgjumst við með þessum dálítið ógnvænlega karlmanni reyna að hafa uppi á honum á jörðu niðri. Með tvískiptingu frásagnarinnar tekst Braga strax í upphafi að skapa eftirvæntingu hjá lesendum (sem um leið kallar á talsverða þolinmæði); Emil er kynntur til sögunnar sem afskaplega meinlaus maður en eftir því sem ferðalag hins ónefnda andstæðings um Reykjavík verður glæpsamlegra breytist eftirvæntingin í kvíðvænlega spennu því sú tilhugsun sækir að lesanda að fundur þeirra gæti reynst Emil hættulegur.

Bragi snýr þó upp á þessa ályktun lesenda, líkt og hann gerir reyndar margoft í framrás sögunnar. Þetta er ekki jafn spennandi og það leit út fyrir í fyrstu. Í ljós kemur að Emil stafar svo sem engin raunveruleg ógn af ókunna manninum, sem reynist heita Hávarður, þótt hann sé engu að síður mikill vandræðagepill en titill bókarinnar vísar einmitt til atviksins er leiddi þá Emil upphaflega saman; gæludýrapössun í London fimm árum fyrr sem endaði með ótímabærum dauða flestra dýranna. Atburðir þessir eru söguhetjunni enn í fersku minni, enda er eflaust erfitt að gleyma manni sem hafði það til siðs að spila á havaiiískan smágítar fyrir græneðlu, og gera það að verkum að Emil er ekkert sérstaklega mikið í mun að hitta þennan gamla kunningja á nýjan leik. Endurfundafælni Emils reynist síðan allöfgakennd og í rauninni grátbroslegur hvati þeirrar einkennilegu atburðarásar sem við tekur.

Það er ekki síst persónuflóra sögunnar sem gerir hana jafn ánægjulega aflestrar og raun ber vitni. Samferðamaður Emils í flugvélinni heim, málfræðingurinn Ármann Valur, er til að mynda kostulegt sköpunarverk og höfundur gerir sérviskulegri samræðulist hans skil á bráðskemmtilegan hátt án þess þó að persónan verði nokkurntíma að skrumskælingu. Bragi leggur síðan mikla alúð í gerð lykilpersóna verksins, þeirra Hávarðs og Emils, sá fyrrnefndi óprúttinn smáglæpamaður og ruddi sem þó kann að leyna á sér. Emil er hins vegar óræðari persóna, og kallast á við söguhetju fyrstu bókar höfundar því ef hægt er að tala um drifkraft frásagnarinnar þá finnst hann í þeirri staðreynd að aðalsöguhetjuna vantar gjörsamlega allt sem hægt er að kenna við drifkraft eða athafnasemi. Forsaga Emils er annars að mestu á huldu, sama með hversdagslega tilveru hans í nútíð sögunnar þannig að þótt það sé hann sem lýsir fyrir okkur bróðurparti atburðanna kynnumst við honum aðeins að takmörkuðu leyti sem samfélagsveru. Lesendur fá hins vegar mikla tilfinningu fyrir persónuleika Emils, segja má að sálartetrið birtist okkur ljóslifandi meðan aðrir jarðbundnari hlutir eru aldrei skýrðir nema lítilsháttar. Annar styrkleiki bókarinnar liggur síðan í samskiptum persónanna sem er mikilvægur þáttur því að sumu leyti er hér um hálfgert kammerverk að ræða, en í meðförum Braga fær hver persóna sína auðkenndu rödd, samræðurnar eru trúverðugar, aldrei tilgerðarlegar og gjarnan mjög skondnar.

Lágstemmd kímni og aðgerðarleysi aðalsöguhetjunnar voru helstu einkenni fyrstu bókar Braga. Lesendum verður fljótlega ljóst að þessi einkenni hafa flust tiltölulega óbreytt yfir í hans nýjustu bók þótt húmorinn sé hérna kannski yfirdrifnari og augljósari; um leið og sagan tekur þá stórkostlega undarlegu og um leið bráðfyndnu stefnu sem ljóslega er þungamiðja og grunnhugmynd frásagnarinnar staðfestist að sérkennileg efnistök Braga Ólafssonar í fyrri bókinni voru engin tilviljun; sú ráðandi veruleikasýn sem birtist í skáldsögunum tveimur er jafn fjarstæðukennd og hún er veruleikabundin, hún er glaðhlakkaleg og dálítið afbrigðileg; sjónarhorn seinni bókarinnar ber t.d. keim af hugarheimi góðlátlegs gluggagægis; persónurnar festa konur óhikað í sjónmáli, stara á þær en stelast líka til að horfa; sjálft tillitið er hér í fyrirrúmi, allt frá laumulegum augngotum til njósna um persónulegustu athafnir. Allt þetta rímar síðan fullkomlega við þá afkáralegu klemmu sem Bragi kemur söguhetju sinni í en væntanlegum lesendum væri grikkur gerður með því að ljóstra nánar upp um þann þátt bókarinnar. En að því sem virðist áreynslulaust skapar Bragi kringumstæður sem eru bæði súrrealískar og ólíkindalegar en nær líka að gera þær einhvernveginn eðlilegar og óhjákvæmilegar. Hegðun sem gæti verið uppistaðan í vondum kynlífsbrandara verður í meðförum höfundar eini eðlilegi leikurinn í stöðunni, lesendur kinka kolli, fullir samúðar, meðan þeir fylgjast með raunum Emils, finnst þeir sjálfir staðsettir í öruggri fjarlægð þótt í rauninni liggi þeir á gægjum með söguhetjunni.

Björn Þór Vilhjálmsson