Þingvellir er annar tveggja staða sem ríkisstjórnin hyggst óska eftir að settir verði á heimsminjaskrá.
Þingvellir er annar tveggja staða sem ríkisstjórnin hyggst óska eftir að settir verði á heimsminjaskrá.
RÍKISSTJÓRNIN samþykkti í gær að óska eftir að Þingvellir og Skaftafell verði tilgreind á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) en sex ár eru liðin frá því að Íslendingar gerðust aðilar að samningi stofnunarinnar um verndun...
RÍKISSTJÓRNIN samþykkti í gær að óska eftir að Þingvellir og Skaftafell verði tilgreind á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) en sex ár eru liðin frá því að Íslendingar gerðust aðilar að samningi stofnunarinnar um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins.

Í minnisblaði Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra og Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra, sem lagt var fram á ríkisstjórnarfundi í gær, segir að staðir á heimsminjaskránni séu alþjóðlega viðurkennd verndarsvæði og sem slíkir dragi þeir gjarnan að sér ferðamenn. Þannig aukist mikilvægi þeirra í þjóðhagslegu tilliti. Afmörkun slíkra staða verði að vera skýr og full sátt þurfi að ríkja um verndun þeirra, umsjón og rekstrarfyrirkomulag.

Sótt er um til Nefndar um arfleifð þjóðanna (World Heritage Committee). Kemur fram í minnisblaðinu að áður en umsókn er gerð um þá staði, sem óskað er eftir að verði færðir á heimsminjaskrá, þurfi að leggja fram yfirlitsdrög yfir staði sem aðildarríki UNESCO telja til mikilvægra menningar- og náttúruarfleifða. Samþykkti ríkisstjórnin í gær að auk Þingvalla og Skaftafells yrðu Breiðafjörður, Núpsstaður, Keldur, Gásir, Reykholt, Víðimýri í Skagafirði, Surtsey, Mývatn, Herðubreiðarlindir og Askja á yfirlitsdrögunum.

Umsóknum þarf að skila fyrir 1. febrúar ár hvert. Segir í minnisblaðinu að umsóknin þurfi að vera mjög ítarleg og hún sé kostnaðarsöm þar sem henni þurfi að fylgja umfangsmiklar upplýsingar. Er gert ráð fyrir að unnin verði fjárhagsáætlun vegna umsóknarinnar sem yrði kynnt í tengslum við fjárlagagerð 2003.