Jóhann Helgason var fæddur á Neðranúpi í Miðfirði í V-Hún. 14. september 1914. Hann andaðist á Landakotsspítala 24. nóvember síðastliðinn og fór útför hans fram frá Fella- og Hólakirkju 4. desember.

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum.)

Þegar Bryndís konan mín hringdi laugardaginn 24. nóvember og sagði að pabbi sinn hefði dáið þá um nóttina, þá minntist ég síðustu stundarinnar sem við áttum saman, þegar við Bryndís heimsóttum hann á Landakot fimmtudagskvöldið 22. nóvember. Jóhann lá í rúmi sínu og var frekar slappur. Ragna dóttir hans sat við hlið hans og var að hjálpa honum að borða. Það var vont veður þennan dag og hann vissi að ég væri að fara í langa veiðiferð og kæmi ekki aftur fyrr en 21. desember. Hann hafði hlustað á veðurspá og sagði mér að veðrið gengi niður um kvöldið. Þetta var hans eiginleiki, hann fylgdist vel með öllu og hafði áhuga á því sem hver var að gera. Og þegar ég kvaddi hann voru síðustu orðin sem hann sagði við mig: Vertu blessaður, Bragi minn, og hafðu það alltaf sem best.

Er ég minnist tengdaföður míns kemur margt upp í hugann. Það var á vordögum 1970 sem ég hitti Jóhann í fyrsta skipti, er ég kom með Bryndísi dóttur hans í heimsókn í Drápuhlíð, en þangað höfðu Jóhann og Jóhanna Dagbjört flutt er þau hættu búskap í Hnausakoti í Austurárdal í Miðfirði haustið 1968. Með okkur Jóhanni tókst mikil vinátta og áttum við margt sameiginlegt, báðir bændasynir frá harðbýlum stöðum sem höfðu mótað okkur mikið í æsku. Þótt aldursmunur væri 37 ár voru minningar frá uppvexti og vinnu við bústörf nánast þær sömu, allt var unnið með handafli, enda komu vélar ekki við sögu fyrir vestan og norðan fyrr en um og eftir 1960. Jóhann var vel lesinn og stálminnugur, fylgdist vel með öllu sem var að gerast í þjóðfélaginu og í fjölskyldunni. Hann var einstakur fjölskyldumaður sem naut mikils trausts allra sem þekktu hann. Fjölskyldan og Hnausakot í Austurárdal skipuðu stærstan sess í hjarta hans. Umhyggjan fyrir öllum sínum afkomendum var mikil, og voru þau Jóhann og Jóhanna samtaka um að láta öllum líða vel sem voru í návist þeirra.

Það voru margar stundirnar sem við ræddum saman um þær breytingar og framkvæmdir sem áætlað var að gera á hverju sumri í Hnausakoti, allar áætlanir hans miðuðust við að gera sumarhúsið að þægilegum samverustað fjölskyldunnar, því hann vissi að þannig mynduðust traustustu fjölskylduböndin.

Framkvæmt var hvert sumar eins og hægt var, og það voru stoltir fjölskyldumeðlimir sem létu vita hvernig gengi að framkvæma verkið. Þegar farið var í vinnuferð að vori var hringt í Jóhann og honum sagt frá hvernig hefði gengið. Og þegar framkvæmdir stóðu yfir á sumarleyfistíma, var gaman að finna fyrir áhuga hans á verkinu.

Jóhann var mikill náttúruunnandi, en hafði af því miklar áhyggjur þegar til stóð að virkja á Fljótsdalsheiði og sökkva Eyjabökkum undir miðlunarlón, það var honum óskiljanlegt hvað ráðamenn voru skammsýnir og hlustuðu ekki á nein rök. Hann notaði öll þau sambönd sem hann hafði til að reyna það sem hann gæti til að bjarga náttúruperlu Austfjarða, og þegar ákveðið var að hætta við að sökkva Eyjabökkunum, varð hann mjög glaður og sú gleði var sönn.

Tónlistin var hans helsta tómstundagaman. Hann hafði sungið í kórum í yfir 50 ár, hafði lært á orgel sem ungur maður, og á efri árum söng hann með börnunum sínum níu og tengdasyni við hátíðleg tækifæri. Þetta var einstakt að heyra kórinn syngja, og líklega einsdæmi að faðir syngi með börnunum sínum níu.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Ég sendi tengdamóður minni og allri fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Bragi.

Bragi.