Rósa Stefánsdóttir Martin fæddist á Auðnum á Vatnsleysuströnd 30. ágúst 1920. Hún lést á sjúkrahúsi í Basingstoke á Englandi 21. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Stefán Sigurfinnsson, útvegsbóndi á Auðnum, f. 1.3. 1888, d. 20.8. 1970, og Jóhanna Sigurðardóttir, f. 23.12. 1895, d. 17.10. 1977. Systkini Rósu eru Anna, f. 4.8. 1917, d. 10.11. 1985, Sigríður, f. 22.12. 1918, d. 11.4. 2001, Sigurður, f. 28.6. 1923, Margrét Arngerður, f. 22.12. 1926, d. 19.9. 1948, og Guðrún, f. 24.1. 1930.

Rósa flutti með foreldrum sínum til Innri-Njarðvíkur árið 1929, þar sem faðir hennar varð framkvæmdastjóri hjá Eggerti Jónssyni frá Nautabúi. Árið 1935, eftir fermingu, fór hún til föðursystur sinnar, Guðrúnar Jónínu Walton, sem bjó í Hull í Englandi. Þar lærði hún hárgreiðslustörf, sem hún vann meira og minna við til sjötugs.

Árið 1940 giftist Rósa eftirlifandi manni sínum Alfred Martin, f. 15.8. 1916. Sonur þeirra er John Stefan, f. 8.1. 1946.

Rósa og Alfred bjuggu í Hull fyrstu árin, en þar gegndi Alfred lögreglustörfum á stríðsárunum. Eftir stríð fluttu þau til Sunderland, þar sem Alfred var skrifstofustjóri hjá orkuveitum staðarins. Þegar Alfred fór á eftirlaun fluttu þau til Suður-Englands og hafa búið í Basingstoke undanfarin ár.

Útför Rósu fór fram frá kirkju í Basingstoke 30. nóvember.

Ég á minni yndislegu frænku, Rósu Martin, mikið að þakka og er það í sambandi við frama minn. Eftir Gagnfræðaskólann í Keflavík fór ég í framhaldsnám til Hull í Bretlandi og bjó hjá afasystur minni. Sumarið áður en námið hófst í Hull dvaldi ég hjá Rósu móðursystur minni, eiginmanni hennar og syni, sem þá bjuggu í Sunderland. Þetta var ógleymanlegt sumar fyrir mig. Rósa var svo mikið skemmtileg kona, allir vildu vera hennar vinir. Rósa rak hárgreiðslustofu í borginni ásamt vinkonu sinni Gladis. Okkur kom svo vel saman að Rósa bauð mér að vera í Sunderland í öllum mínum fríum. Að loknu skólaári í Hull kom ég til Rósu og sagði henni frá áformi mínu um að mig langaði til að verða ljósmyndafyrirsæta og spurði hvað ég ætti að gera til að verða svolítið spennandi. Hún horfði á mig og sagði rauðhærð. Ég, sallaánægð, settist í stólinn og leyfði Rósu að framkvæma athöfnina.

Í gegnum lífið höfum við haft mjög náið samband. Heilsu hennar tók að hraka þegar hún stóð á sjötugu, en hún var alltaf jafn yndisleg kona. Þegar ég hringdi í Rósu sunnudaginn 18. nóvember og sagði henni að ég kæmi næstkomandi þriðjudag í stutta heimsókn, grunaði mig ekki að hún ætti eins stutt eftir ólifað sem raun bar vitni og að mér hlotnaðist að vera hjá henni ásamt Alf eiginmanni hennar, við dánarbeð hennar þann 21. nóvember.

Guðrún Bjarnadóttir

Bergese.

Guðrún Bjarnadóttir Bergese.