7. desember 2001 | Aðsent efni | 603 orð | 1 mynd

Ferðamál

Hverjir láta blekkjast?

Bjarnheiður Hallsdóttir
Bjarnheiður Hallsdóttir
Því kemur það verulega á óvart, segir Bjarnheiður Hallsdóttir, að sjá hve fastir þessir menn eru í fortíðinni og heyra hvað þeir sýna litla framsýni og metnað fyrir hönd ferðaþjónustu á Íslandi.
Í Morgunblaðið þann 29. nóvember sl. rita fimm athafnamenn í ferðaþjónustu á Húsavík og í Mývatnssveit, þeir Hörður Sigurbjarnarson, Sigurjón Benediktsson, Pétur Snæbjörnsson, Björn Sigurðsson og Leifur Hallgrímsson, óð mikinn til virkjana í byggð og óbyggð á Íslandi.

Þetta eru, a.m.k. að hluta til, menn með mikla reynslu af rekstri ferðaþjónustufyrirtækja sem standa framarlega hvert á sínu sviði og er afkoma þeirra algjörlega háð hinum ýmsu náttúruperlum og auðlindum Norðurlands. Fyrirtæki eins þeirra hlaut m.a. umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs Íslands fyrir fáum árum síðan.

Því kemur það verulega á óvart að sjá hve fastir þessir menn eru í fortíðinni og heyra hvað þeir sýna litla framsýni og metnað fyrir hönd ferðaþjónustu á Íslandi.

Ferðaþjónusta á Íslandi hefur þróast ákaflega hratt undanfarin ár. Ekki eru nema örfá ár síðan almenningur og stjórnvöld á Íslandi fóru að líta á ferðaþjónustu sem alvöruatvinnugrein. Af þessum sökum hefur hingað til ekki verið hugað að nema allra nauðsynlegustu þáttum í grunngerð ferðaþjónustu og ekki verið til umræðu nema að mjög takmörkuðu leyti að leggja sérstaka vegi, eða bæta þá sem fyrir eru, til að auðvelda aðgengi að náttúruperlum.

Ekki sér fyrir endann á aukningu í ferðaþjónustu á Íslandi. Er þá sama hvaða mælikvarði er notaður: Fjöldi ferðamanna, gistinætur, störf eða gjaldeyristekjur. Vert er að geta þess hér að ferðaþjónusta skilar töluvert meiri gjaldeyristekjum til þjóðarbúsins en stóriðja. Menn hafa verið í talnaleikjum og reiknað með að á öðrum áratug þessarar aldar verði erlendir ferðamenn á Íslandi orðnir milljón talsins. Þegar ferðamenn eru orðnir svona margir má reikna með að við óbreyttar aðstæður verði mikil örtröð t.d. á Mývatnssvæðinu; örtröð sem gæti orðið til þess að menn hættu að vilja koma þangað. Þá yrði lítið að gera hjá Pétri í Reynihlíð. Þess vegna er það mikil og ómetanleg auðlind fyrir ferðaþjónustu á Íslandi að eiga til í pokahorninu svæði sem enn eru tiltölulega ósnortin (s.s. miðhálendið og Vestfirði) en munu að sjálfsögðu verða nýtt í ferðaþjónustu í framtíðinni, þegar barnabörn þingeysku fimmmenninganna eru tekin við rekstrinum. Það er að segja ef ekki verður búið að eyðileggja þessi svæði á einhvern hátt.

Fimmmenningarnir setja samasemmerki á milli virkjana og uppbyggingar ferðaþjónustu. Þeir gefa sér það að ef hinar og þessar virkjanir hefðu ekki komið til, þá væru ekki til vegir að ýmsum merkustu náttúruperlum landsins. Vel má vera að þetta sé rétt. En ekki er þar með sagt að við þurfum að búa við það árið 2001 og hvað þá lengur að ekki sé hægt að leggja eða lagfæra vegi nema ef byggja á virkjun.

Niðurstaða þeirra er sú að forsenda uppbyggingar frekari ferðaþjónustu á hálendi Íslands, s.s. á Kárahnjúkasvæðinu, sé bygging Kárahnjúkavirkjunar eða annarra sambærilegra virkjana. Samkvæmt þessari röksemdafærslu fimmmenninganna verður vegurinn að Dettifossi ekki byggður upp fyrr en fossinn verður virkjaður.

Það er eðlileg krafa atvinnugreinarinnar ferðaþjónustu að að henni sé hlúð og hún hljóti sömu athygli og umhyggju stjórnvalda og aðrar atvinnugreinar. Það er ljóst að ekkert vex af engu. Því er það algjörlega úr takti við tímann og í raun fáránlegt að sætta sig við það að ekkert sé framkvæmt á forsendum ferðaþjónustunnar og að hún þurfi því að hengja sig á aðrar atvinnugreinar, s.s. stóriðju, til að fá málum sínum framgengt. Það er eins og ef ekki væru byggðar hafnir fyrir útgerð nema við álver og járnblendiverksmiðjur.

Allir sem að ferðaþjónustu starfa eru sammála um mikilvægi góðra samgangna s.s. í formi vega og göngustíga, en uppbyggingin verður að eiga sér stað á forsendum ferðaþjónustu, en ekki í tengslum við stóriðju!

Til að fyrirbyggja allan misskilning skal þess getið hér, að undirrituð rekur ferðaþjónustufyrirtæki sem byggir afkomu sína m.a. á góðum samgöngum og náttúruperlum Íslands.

Höfundur er ferðamálafræðingur og framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Katla Travel GmbH.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.