BJARNI BJARNASON: Stemmningin var svona frekar óhugnanleg.
BJARNI BJARNASON: Stemmningin var svona frekar óhugnanleg.
1. GAMLA læknishúsið á Eyrarbakka á sinn þátt í því að að dauðinn og skuggaleg stemmning eru sterkt afl í Mannætukonunni og manninum hennar eftir Bjarna Bjarnason.

1.

GAMLA læknishúsið á Eyrarbakka á sinn þátt í því að að dauðinn og skuggaleg stemmning eru sterkt afl í Mannætukonunni og manninum hennar eftir Bjarna Bjarnason. Þar var frumgerð sögunnar skrifuð í inspírasjón, af innsæi og tilfinningu en hinni röklegru hugsun að vissu leyti ýtt til hliðar enda frekar til trafala við samningu sögunnar. Fyrst kemur tilfinningin, sagði Nietzsche, en rökhugsunin kemur á eftir til þess eins að staðfesta tilfinninguna sem maður hafði fyrir.

2.

"Ég dvaldi í læknishúsinu á Eyrarbakka sumarið 2000 og þar komst ég í gömul bréf og dundaði mér við að skoða myndirnar á veggjunum og sá að sumt af þessu fólki hafði látist úr taugaveiki. Fólkið lifnaði hins vegar við í bréfunum sem ég gluggaði í og mér tókst meira að segja að komast að því í hvaða herbergi ein stúlkan dó. Ég var stundum að reika þarna um á næturnar og tala við þetta fólk og stemmningin var svona frekar óhugnanleg og ég held að það endurspeglist að nokkru leyti í sögunni. En þó renna saman í henni léttleiki og óhugnaður. Það má eiginlega segja að sagan hafi gosið þarna á Eyrarbakka og húsið sjálft var mér mikil inspírasjón og þar skrifaði ég handritið einu sinni í gegn."

3.

Óreiða, mikil hreyfing, sterkt myndmál og sérkennilegur húmor einkenna Mannætukonuna. Hugi Hugason, rannsóknarlögreglumaður, er á stöðugum flækingi í leit að Helenu Náttsól, öðru nafni mannætukonunni, sem hann giftist í Beirút auk þess að leysa önnur sakamál hér heima á Íslandi ásamt hinum skringilega aðstoðarmanni sínum Skugga. Sá heimur sem Hugi ferðast um hefur misst skýrar útlínur, er allur á hreyfingu og furðulegar rannsóknarferðir hans, hvort heldur í Rauða hverfinu í Amsterdam eða í Vesturbæjarlauginni, leiða hann í stöðugt meiri ógöngur þar sem viðfangið er annaðhvort eins og á flótta eða leysist upp. Og þegar Hugi spyr hvernig hann geti unnið ástir Helenu Náttsólar fær hann það svar eitt að hann geti reynt að handtaka guð og taka hann til yfirheyrslu, það sé eina vonin.

4.

Bjarni segir að sig hafi langað að skrifa öðruvísi sögu en síðast: "þar var allt svo útpælt og hugsað, bæði uppbyggingin, heimsmynd og trúarbrögð persónunnar. Þegar ég skrifaði þessa sögu langaði mig einfaldlega að fylgja innsæinu í þeirri trú að með því móti myndi ýmislegt komast að sem rökhugsunin hefði annars lokað úti. Það var í senn erfitt og létt að skrifa söguna. Hún var erfið að því leyti að hún krafðist þess að ég væri rétt stilltur þegar ég var að semja. En um leið og ég byrjaði að hugsa hlutina of mikið eða velta þeim of mikið fyrir mér gekk verr. Um leið og ég nálgaðist textann með of mikilli rökhugsun má segja að hann hafi dáið. Og oft var það þannig að þegar ég reyndi að þvinga söguna áfram fór allur sá texti í ruslið."

5.

Hér verður hlé á langlínusamtalinu: sextán mánaða sonur Bjarna ber enga virðingu fyrir andans jöfrum og hellir jógúrt yfir Begrebet Angst eftir Søren Kirkegaard.

"Já, ég er búinn að búa í Björgvin í Noregi undanfarin tvö ár. Sambýliskona mín er norsk en við kynntumst á Ítalíu þar sem hún var að læra. Ég kann ágætlega við mig í Noregi en ég ætla samt ekki að fara að skrifa á norsku eða ílengjast hér. Þegar kærastan mín verður búin í námi flytjumst við heim eða að minnsta kosti frá Noregi."

6

Það er heilmikill húmor í Mannætukonunni, ekki þó þannig að lesandinn sé sífellt að skella upp úr. Það er svona frekar eins og brosið læðist hægt yfir varirnar.

"Mig langaði til þess að hafa ákveðinn léttleika í bókinnni en gætti mín á því að hafa það ekki beina fyndni þannig að fólk væri að hlæja að bröndurum. Ég var frekar að leitast við að fá lesandann til þess að vera með brosið í startholunum, svona líkt og hann væri ekki viss um það hvort væri við hæfi að brosa eða ekki.

Afþreyingarmenningin er orðin dálítið yfirþyrmandi og hún hefur gert það að verkum að margir höfundar eru orðnir mjög alvarlegir. Það er eins og þeim þyki að ef þeir beiti húmor séu þeir að selja sig afþreyingunni. En þetta er misskilningur að mínu mati enda hafa margir bestu höfundar sögunnar verið miklir húmoristar.

Mér finnst það vera lykilatriði að að taka afstöðu til húmorsins áður en ég byrja að beita honum og ég vil ekki beita því sem kallast mætti gjaldgengur húmor því honum er beitt í afþreyingarbókmenntum. Þetta var eitt af þeim vandamálum sem ég glímdi við þegar ég skrifaði söguna. Húmorinn í henni er svona meira til þess að koma lesandanum í ákveðið ástand."

7.

Hugi Hugason er leynilögreglumaður. Af hverju það?

"Það var ekki tilviljun að ég valdi sakamálaformið, svona á ytra byrði. Það má kannski segja að leynilögreglumenn geti staðið sem tákn fyrir leitina að einhverju í sálarlífinu.

En ég hef líka haft gaman af tóninum í sumum sakamálasögum, sérstaklega eftir Raymond Chandler. Ég er svolítið að smjatta á þessum hálfsvala og stundum hálfhallærislega tóni.

Mér finnst hreyfingin bæði mikilvæg og spennandi. En hún getur líka verið varasöm því hún getur orðið að flótta frá því að segja eitthvað. Maður verður því að gæta að því að það sé alltaf eitthvað að gerast8 á hverjum tíma og stað. En Hugi er alltaf að leita mannætukonunnar og það knýr söguna auðvitað áfram."

8.

Hraði, frjótt ímyndunarafl, draugaleg stemmning, húmor: þarf lesandinn nokkuð að leita dýpri merkingar?

"Sagan er hugsuð þannig að lesandinn geti lesið hana og haft ánægju og skemmtun af henni eins og hún kemur fyrir; hann þarf ekki endilega að vera að velta fyrir sér dýpri merkingu. En hún er líka skrifuð þannig að ef lesandann langar til þess að velta merkingunni fyrir sér þá á hann að geta lagst í það að túlka tákn og greina samtímann út frá þeim."

9.

Hvað myndi þá rísa úr djúpinu?

"Það er leyndarmál á hverju ég byggi söguna og allan táknheim hennar. Ég er alltaf að reyna að komast hjá því að segja á hverju hún byggist. Það er lesandans að átta sig á því."

Vaka-Helgafell hefur gefið út skáldsöguna Mannætukonan og maður hennar eftir Bjarna Bjarnason.