Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða.
GUÐJÓN Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, segir Flugleiðir varla eiga heima innan flugbandalags, eins og Lars Lindgren lagði áherslu á að væri afar hagkvæmt fyrir flugfélög. "Við höfum skoðað þetta og velt fyrir okkur.

GUÐJÓN Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, segir Flugleiðir varla eiga heima innan flugbandalags, eins og Lars Lindgren lagði áherslu á að væri afar hagkvæmt fyrir flugfélög.

"Við höfum skoðað þetta og velt fyrir okkur. Flugleiðir hafa skilgreint sig fyrst og fremst sem ferðaþjónustufyrirtæki fremur en flugfélag. Meginmarkaðsstefna fyrirtækisins er að fá ferðamenn til Íslands, auk þess að flytja Íslendinga út, og stuðst er við Norður-Atlantshafsflugið í þessum tilgangi. Flugleiðir eru í ferðaþjónusturekstri hér á landi í þeim tilgangi að breikka tekjugrunn félagsins og draga úr áhættu í rekstrinum. Við leggjum mikið í að markaðssetja Ísland og viljum reka arðbæra þjónustu við ferðamenn eftir að þeir eru komnir til landsins, ekki aðeins selja flugsæti. Þetta gerir það að verkum að staða Flugleiða er sérstök hvað þetta varðar og við teljum að hagkvæmast sé að halda áfram því samstarfi sem við eigum við SAS núna og er báðum félögum til hagsbóta." Guðjón segir engin áform um breytingu á þessu samstarfi.

Hann segir hárrétt hjá Lars Lindgren að flugfélög verði að mæta væntingum viðskiptavina um lág flugfargjöld, þ.e. þær væntingar sem lágfargjaldaflugfélögin hafa skapað meðal almennings.

Guðjón segir að lágfargjaldaflugfélög muni aldrei taka yfir alla þjónustu hefðbundinna flugfélaga en þau hafi haft mikil áhrif og flýtt fyrir þeirri þróun undanfarinna ára, að flugfargjöld lækki. "Flugfargjöldin verða sífellt minni hluti af ferðakostnaði fólks og útgjöld vegna annarrar ferðaþjónustu stærri hluti."