Einn helzti fjölmiðlajöfur Þýzkalands, Leo Kirch, á í vök að verjast um þessar mundir. Fjölmiðlaveldi hans ræður yfir víðtæku neti sjónvarpsstöðva og hefur fram á síðustu sólarhringa átt 40% hlut í blaðaveldi Axel Springer.

Einn helzti fjölmiðlajöfur Þýzkalands, Leo Kirch, á í vök að verjast um þessar mundir. Fjölmiðlaveldi hans ræður yfir víðtæku neti sjónvarpsstöðva og hefur fram á síðustu sólarhringa átt 40% hlut í blaðaveldi Axel Springer. Grundvöllurinn að fjölmiðlasamsteypu Kirch er þó svo víðtækur sýningarréttur á kvikmyndum og sjónvarpsefni að við liggur að um einokun sé að ræða í Þýzkalandi á t.d. bandarísku efni.

Vandamál Leo Kirch, sem er orðinn 75 ára gamall er hins vegar mikil skuldsetning fyrirtækja hans en talið er að þau skuldi um 6,5 milljarða evra og hafi til viðbótar tekið á sig aðrar skuldbindingar, sem nema um 2,3 milljörðum evra.

Undanfarna daga hafa birzt fréttir í fjölmiðlum í Evrópu um að þessi mikla fyrirtækjasamsteypa gæti orðið gjaldþrota en síðustu fréttir herma, að þýzkur banki í Bæjaralandi hafi lýst sig reiðubúinn til að kaupa hlut Kirch í Axel Springer fyrir 1,1 milljarð evra. Kirch hefur ekki samþykkt það tilboð en það þýðir hins vegar að sá mikli fjárhagslegi þrýstingur, sem á honum hefur verið verður bærilegri.

Það sem hins vegar er athyglisvert í þessu máli og til umhugsunar fyrir okkur Íslendinga er sú staðreynd, að ráðandi öfl í Þýzkalandi, bæði stjórnmálaleiðtogar og fjármálakerfið hafa bersýnilega tekið höndum saman um að koma í veg fyrir að öflugt þýzkt fjölmiðlafyrirtæki lendi í höndunum á erlendum fjölmiðlakóngum.

Rupert Murdoch hefur verið á sveimi í kringum fjölmiðlaveldi Kirch og raunar fleiri erlendir aðilar en Þjóðverjar óttast Murdoch mest.

Kirch hefur í áratugi verið náinn vinur og bandamaður Helmut Kohl. Hann hefur jafnframt verið innanbúðarmaður hjá forystumönnum systurflokks Kristilegra demókrata í Bæjaralandi. Þess vegna kemur engum á óvart þótt þeir aðilar standi við bakið á honum. En Schröder, kanslari Þýzkalands, hefur líka haft afskipti af málinu að því er virðist Kirch til varnar. Hvers vegna? Vegna þess, að hann telur að Murdoch mundi beita fjölmiðlaveldi Kirch gegn jafnaðarmönnum í Þýzkalandi.

Kjarni málsins er þó sá, að ráðandi öfl í Þýzkalandi vilja koma í veg fyrir að þýzkt fjölmiðlafyrirtæki lendi í höndunum á útlendingum. Slík sjónarmið hafa ekki komið upp hér varðandi hugsanlega eignaraðild erlendra fyrirtækja að íslenzkum fjölmiðlafyrirtækjum.

Í umræðum hér á Íslandi um viðskiptalífið er því gjarnan haldið fram með tilvísun til viðskiptahátta í öðrum löndum, að það sé úreltur hugsunarháttur, að máli skipti hverrar þjóðar menn eigi fyrirtæki.

Þjóðverjar eru bersýnilega annarrar skoðunar, þegar um fjölmiðlafyrirtæki er að ræða.

Og þeir eru ekki einir um þá skoðun. Þegar Murdoch var að ryðjast til áhrifa í bandarískum fjölmiðlum var forsendan fyrir því, að honum leyfðist það sú, að hann gerðist bandarískur ríkisborgari, sem hann og varð.

innherji@mbl.is