Sævar Helgason: Íslensk verðbréf hafa unnið markvisst að því að minnka efnahagsreikning félagsins.
Sævar Helgason: Íslensk verðbréf hafa unnið markvisst að því að minnka efnahagsreikning félagsins.
Íslensk verðbréf eru eina löggilta verðbréfafyrirtækið á landsbyggðinni. Félagið er að víkka út starfsemi sína m.a. með opnun starfsstöðvar á Ísafirði. Guðrún Hálfdánardóttir ræddi við Sævar Helgason framkvæmdastjóra þess.

ÍSLENSK verðbréf hf. urðu til í ársbyrjun 1999 þegar nokkrir sparisjóðir á landsbyggðinni keyptu Kaupþing Norðurlands og breyttu nafni þess í Íslensk verðbréf.

Sævar Helgason hafði starfað sem framkvæmdastjóri Hlutabréfasjóðs Íslands og Sjávarútvegssjóðs Íslands hjá Kaupþingi Norðurlands frá 1998 en tók við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins við þessa breytingu. Öllum tengslum við Kaupþing var slitið á sama tíma þrátt fyrir eignaraðild sparisjóðanna að Kaupþingi.

Sparisjóður Norðlendinga er stærsti hluthafinn í Íslenskum verðbréfum í dag með 46% hlut, Sparisjóður Siglfirðinga, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Ólafsfjarðar, Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Húnaþings og Stranda og Sparisjóður Mýrasýslu eiga einnig hlut ásamt Lífeyrissjóði Norðurlands sem á 15% og Lífeyrissjóði Vestfirðinga sem á heldur minni hlut. Að sögn Sævars vildu sparisjóðirnir eignast eigið verðbréfafyrirtæki á landsbyggðinni auk þess sem tengslin við Kaupþing hamlaði vexti félagsins þar sem það mátti ekki starfa á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir fagfjárfestarnir eru. Í dag eru Íslensk verðbréf með mikil samskipti við lífeyrissjóði, aðra fagfjárfesta og fasteignasölur á höfuðborgarsvæðinu.

Virk stýring á skuldabréfum

Að sögn Sævars hefur áherslum félagsins verið breytt umtalsvert. "Þegar félagið var í eigu Kaupþings var megináherslan á verðbréfamiðlun fyrir einstaklinga og fagfjárfesta úti á landi. Eins stöðutökur í eigin reikning. Þegar Kaupþing seldi Sparisjóðunum fyrirtækið þá vorueignir þess í verðbréfum 1.800 milljónir króna og eigið fé félagsins 125 milljónir króna. Þannig að það var djarft teflt. Aftur á móti var stýring á eignum mest í Reykjavík hér áður fyrr. Við breytingar á eignaraðild og í kjölfar nýrrar stefnumótunar félagsins þá lögðum við mikla áherslu á að minnka efnahagsreikninginn verulega og ætlum okkur að halda áfram á þeirri braut. Það hefur verið okkur mjög dýrt á þessum tíma og skilað sér í miklu tapi af rekstri félagsins og er tap félagsins algerlega til komið vegna þess. Í dag hefur efnahagsreikningurinn minnkað um meira en helming frá þeim tíma og fer enn minnkandi."

Sævar segir að Íslensk verðbréf einbeiti sér aðallega að eignastýringu í stað miðlunar enda sé öflug eignastýring forsenda þess að reka öfluga verðbréfamiðlun. "Við erum í samstarfi við Lífeyrissjóð Norðurlands og sjáum um stýringu á þeirra eignum. Þetta styrkir okkur enn frekar í því að halda áfram að efla eignastýringu félagsins. Áður voru flestir starfsmenn félagsins í verðbréfamiðlun og ráðgjöf en nú hefur þeim starfsmönnum verið fækkað um fimm en á sama tíma hefur starfsmönnum í eignastýringu fjölgað um þrjá en alls starfa 15 manns hjá Íslenskum verðbréfum. Við höfum einnig gert samning við nokkra aðra lífeyrissjóði um stýringu á sérgreindum eignasöfnum og þ.á m. Lífeyrissjóð Vestfirðinga."

Að sögn Sævars er samstarfssamningurinn við Lífeyrissjóð Vestfirðinga mun viðameiri en við hina lífeyrissjóðina þar sem að Íslensk verðbréf munu reka starfsstöð á Ísafirði og eru þegar komnir með einn starfsmann þar.

Á Akureyri er að rísa fjármálamiðstöð að Strandgötu 3. Íslensk verðbréf eru að flytja þangað fljótlega ásamt Lífeyrissjóði Norðurlands. Fyrir eru Sjóvá-Almennar og Tryggingamiðstöðin með starfsstöðvar í húsinu. Sævar segir að það sé mjög gott að komast í návígi við Lífeyrissjóð Norðurlands þar sem hann sé stærsti viðskiptavinur Íslenskra verðbréfa og stjórnarformaður ÍV, Kári Arnór Kárson, sé framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Norðurlands.

Íslensk verðbréf reka eigin verðbréfasjóði og er stefnt að stofnun sjö deilda. "Við ætlum okkur að vera mjög virk í stýringu á skuldabréfum og þeir samningar sem við höfum gert, bæði við Lífeyrissjóð Norðurlands, Lífeyrissjóð Vestfirðinga og aðra lífeyrissjóði, fela í sér víðtæka stýringu á skuldabréfum. Með því að vera með mjög virka stýringu á skuldabréfum þá teljum við okkur ná að hagnast fyrir hönd viðskiptamanna okkar á sveiflum á markaði og reynslan undanfarið sýnir að það hefur tekist mjög vel. Sú aðferðafræði sem við höfum þróað til þess er ekki í boði á öðrum aðilum á markaðinum í dag.

Þegar allir samningar sem nú eru í vinnslu hjá Íslenskum verðbréfum eru í höfn þá verður félagið með 22-25 milljarða í eignastýringu."

Íslensk verðbréf bjóða ekki upp á erlenda sjóði í eigin nafni heldur semur félagið við umsýsluaðila erlendis um stýringu á þeim fyrir sína viðskiptavini. Sævar segir ástæðuna einfaldlega vera þá að þeir telji sig ekki eiga möguleika á að gera betur en greiningardeildir erlendra stórfyrirtækja á því sviði. "Það er sú stefna sem við höfum haft frá því að félagið fór í stefnumótun árið 1999 og það er sú stefna sem við trúum á. Það hafi líka sýnt sig og sannað hjá þeim aðilum hér sem reka eigin erlenda sjóði að þetta sé rétt ályktun. Ávöxtunin hafi ekki verið góð hjá þeim."

Samstarf við Byggðastofnun

Sævar nefnir eina nýjung í starfsemi Íslenskra verðbréfa sem sé fjárfestingarsjóðurinn Tækifæri sem var stofnaður í kjölfar samþykktar hjá Byggðastofnun á árinu 1999. Í henni felst að Byggðastofnun fékk 300 milljónir króna heimild til þess að nota í nýsköpun og áhættufjárfestingar á landsbyggðinni gegn mótframlagi úr kjördæmunum. "Við hjá Íslenskum verðbréfum stofnuðum sjóðinn Tækifæri fyrir Norðurland vestra og eystra og fengum marga fjárfesta til að koma að sjóðnum. Reglurnar eru þær að fyrir hverjar 6 krónur sem heimamenn koma með í formi hlutafjár þá leggur Byggðastofnun fram fjórar krónur í hlutafé. Á okkar heimasvæði söfnuðust saman 120 milljónir króna á fyrsta starfsári sjóðsins frá lífeyrissjóðum, sparisjóðum og fleiri aðilum. Þá kom Byggðastofnun inn með 80 milljónir króna þannig að í sjóðnum voru um 200 milljónir króna í árslok 1999, og í árslok 2001 tæpar 550 milljónir, sem verður eingöngu varið í fjárfestingar á Norðurlandi. Fyrst og fremst í nýjum fyrirtækjum en einnig gömlum fyrirtækjum sem eru talin eiga mikla vaxtarmöguleika. Að sögn Sævars er stefnt að því að stofna slíkan sjóð á Vestfjörðum í samvinnu við heimamenn þar sem Íslensk verðbréf eru komin með starfsstöð þar.