Þessi ungu hreindýr liggja og jórtra hin rólegustu og láta sig engu skipta reglur um úthlutun hreindýraarðs á Norður-Héraði.
Þessi ungu hreindýr liggja og jórtra hin rólegustu og láta sig engu skipta reglur um úthlutun hreindýraarðs á Norður-Héraði.
UMHVERFISRÁÐUNEYTIÐ hefur fellt úr gildi úthlutun Hreindýraráðs á hreindýraarði fyrir árið 2000 og úrskurðað að Hreindýraráð skuli úthluta arði fyrir árið 2000 að nýju í samræmi við reglugerð um skiptingu arðs af hreindýraveiðum.

UMHVERFISRÁÐUNEYTIÐ hefur fellt úr gildi úthlutun Hreindýraráðs á hreindýraarði fyrir árið 2000 og úrskurðað að Hreindýraráð skuli úthluta arði fyrir árið 2000 að nýju í samræmi við reglugerð um skiptingu arðs af hreindýraveiðum.

Tveir íbúar á Norður-Héraði kærðu úthlutun Hreindýraráðs á hreindýraarði fyrir árið 2000 í júlí síðastliðnum.

Kærendur kröfðust þess að úthlutun hreindýraarðs yrði leiðrétt og arðurinn greiddur út í samræmi við ákvæði reglugerðar um skiptingu arðs af hreindýraveiðum.

Í kærunni segir að hreindýraráð skipti sveitarfélaginu Norður-Héraði við úthlutunina í stórum dráttum upp í gömlu hreppana sem mynduðu það, það er Jökuldals-, Hlíðar- og Tunguhreppa, og taki svo hlutfall af fasteignamati og landstærð innan hvers hluta hreppsins.

Samkvæmt beinum ákvæðum reglugerðarinnar beri Hreindýraráði að taka fyrst allar jarðir í sveitarfélaginu og stærðarflokka þær og úthluta á þær 40% arðsins í skiptingunni 20% samkvæmt fasteignamati og 20% samkvæmt landstærð.

Hreindýraráð mismuni jörðum með því að hluta sveitarfélagið í sundur og nota síðan fasteignamat og landstærð hvers hluta fyrir sig til útreikninga. Þetta leiði til þess að jarðir fái misjafnlega háa greiðslu eftir því hvar í sveit þær eru settar.

Á þessi rök féllst umhverfisráðuneytið í úrskurði sínum.

Í umsögn Hreindýraráðs, sem óskað var eftir vegna úrskurðarins, segir meðal annars:

"Sveitarfélagið Norður-Hérað varð til við sameiningu Jökuldals-, Hlíðar- og Tunguhreppa. Fyrir sameininguna fengu þessi sveitarfélög hvert sinn hreindýrakvóta sem spegla skyldi ágang hreindýra í viðkomandi sveitarfélagi." Svo segir að á þessum árum hafi að meðaltali 80% af kvóta núverandi sameinaðs sveitarfélags runnið til Jökuldalshrepps. Ekki sé vitað annað en sátt hafi verið að mestu um þessa skiptingu milli gömlu hreppanna.

"Með nýjum úthlutunarreglum var ákveðið að byggja á grundvelli eldri viðmiðunar og var talið réttlátast að skipta Norður-Héraði í þrennt og miða við gömlu hreppaskiptinguna." Í niðurstöðu ráuneytisins segir meðal annars að samkvæmt reglugerðinni beri að útiloka þær jarðir sem ekki verða fyrir neinum ágangi af hreindýrum frá úthlutun arðs.

Að framansögðu er ljóst eftir þeim reglum sem Hreindýraráð setti sér vegna úthlutunarinnar fyrir árið 2000 og fólust í áðurgildandi hreppaskiptingu að um það bil 80% hreindýraarðs á Norður-Héraði runnu til bæja sem teljast til fyrrverandi Jökuldalshrepps. Af þessu leiðir að veruleg skekkja varð á útreikningi Hreindýraráðs á hreindýraarði í sveitarfélaginu miðað við þá skiptingu sem reglugerðin gerir ráð fyrir.

Ráðuneytið telur að úthlutun hreindýraarðs sé ein ákvörðun í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Ráðuneytið telur að byggt hafi verið á röngum forsendum við úthlutun á hreindýraarði á Norður-Héraði fyrir árið 2000 með þeirri skiptingu sveitarfélagsins sem að framan er lýst. Af þeirri ástæðu telur ráðuneytið að ógilda beri ákvörðun Hreindýraráðs um úthlutun hreindýraarðs fyrir árið 2000 í sveitarfélaginu og Hreindýraráði gert að úthluta arði fyrir áðurgreint ár að nýju í samræmi við reglugerð.