Palestínsk ungmenni brenna ísraelskan fána eftir að ísraelskir hermenn höfðu ráðist inn í þrjú þorp á Gaza.
Palestínsk ungmenni brenna ísraelskan fána eftir að ísraelskir hermenn höfðu ráðist inn í þrjú þorp á Gaza.
ÍSRAELSKIR hermenn og skriðdrekar héldu inn í þrjá bæi Palestínumanna á Gazasvæðinu í fyrrinótt í þeim tilgangi að leita uppi vígamenn og féllu sex Palestínumenn í atlögunni.

ÍSRAELSKIR hermenn og skriðdrekar héldu inn í þrjá bæi Palestínumanna á Gazasvæðinu í fyrrinótt í þeim tilgangi að leita uppi vígamenn og féllu sex Palestínumenn í atlögunni. Svo virtist sem ísraelska herliðið hefði verið kallað heim í gærkvöld þegar það réðst aftur inn í einn bæjanna.

Hernaðaraðgerðirnar á Gaza í fyrrinótt komu í kjölfar þess að herskáir Hamas-liðar skutu tveimur heimatilbúnum eldflaugum inn í Ísrael á sunnudag þar sem þær lentu á ræktarlandi. Höfðu Ísraelar heitið harkalegum viðbrögðum. Þrír palestínskir lögreglumenn féllu þegar ísraelskir skriðdrekar skutu á bækistöðvar þeirra í fyrrinótt en fjórði lögreglumaðurinn og óbreyttur borgari voru skotnir annars staðar. Sjötti maðurinn var skotinn nálægt gyðingabyggð á Gaza. Segja Ísraelar, að hann hafi verið vopnaður.

Yasser Arafat, leiðtogi Palestínumanna, sagði í gær í viðtali við ítalska dagblaðið La Repubblica, að heimatilbúnu eldflaugarnar væru allt að því "brandari", ófullkomin vopn, sem aldrei hefðu náð að valda neinu tjóni.

Arafat verði leystur úr herkvínni

Mary Robinson, yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ), hvatti Ísraela í gær til að létta herkví þeirra um Arafat en hann hefur setið í bækistöðvum heimastjórnarinnar í Ramallah á Vesturbakkanum síðan í desember og hafa Ísraelar ekki leyft honum að fara. Segja þeir, að hann verði ekki frjáls ferða sinna fyrr en hann nái tökum á herskáum Palestínumönnum sem geri árásir á ísraelska herinn og almenna borgara í Ísrael.

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær, að Arafat hefði gengist við ábyrgð á tilraun til að smygla vopnum til Palestínu með skipinu Karine A. Stöðvuðu Ísraelar það í Rauðahafi í síðasta mánuði með um 50 tonn af skotfærum og vopnum. Sagði Powell, að þetta hefði komið fram í bréfi frá Arafat fyrir nokkrum dögum.

Gazaborg, Jerúsalem, Genf. AFP, AP.