Hillary Clinton
Hillary Clinton
HILLARY Clinton falaðist eftir gjöfum að andvirði tæpra 3,9 milljóna króna með því að setja "óskalista" á Netið eftir að hún var kjörin í öldungadeild Bandaríkjaþings og áður en hún sór þingmannseiðinn fyrir rúmu ári.

HILLARY Clinton falaðist eftir gjöfum að andvirði tæpra 3,9 milljóna króna með því að setja "óskalista" á Netið eftir að hún var kjörin í öldungadeild Bandaríkjaþings og áður en hún sór þingmannseiðinn fyrir rúmu ári. Rannsókn þingsins leiddi í ljós að forsetafrúin fyrrverandi setti óskalista á heimasíðu Borsheim's, verslunar í Omaha í Nebraska sem selur dýra postulínsmuni og silfurborðbúnað. Hún þáði gjafirnar áður en hún varð þingmaður, en siðareglur Bandaríkjaþings kveða á um að þingmenn megi ekki þiggja slíkar gjafir. Engar slíkar reglur gilda um forsetafrú Bandaríkjanna eða verðandi þingmenn.

Umræddar gjafir voru á meðal 17 gjafa að andvirði 7,5 milljóna króna sem Clinton-hjónin fengu í desember 2000. Þau sættu mikilli gagnrýni fyrir að þiggja gjafirnar áður en Bill Clinton lét af embætti forseta og þau ákváðu að lokum að greiða andvirði 8,6 milljóna króna fyrir gjafir sem þau fengu árið 2000.

Vinir Hillary þurftu að vita um netfang hennar og lykilorð til að kaupa gjafirnar á óskalistanum. Á meðal þeirra sem gáfu henni dýran borðbúnað voru Steven Spielberg og leikararnir Ted Danson og Mary Steenburgen.

Washington. Newsday.