Sigurður Arnórsson rekstrarfræðingur og læknarnir Sverrir Jónsson og Guðbjörn Björnsson kynntu starfsemi einkareknu læknastofunnar Læknalindar sem tekur til starfa 1. mars.
Sigurður Arnórsson rekstrarfræðingur og læknarnir Sverrir Jónsson og Guðbjörn Björnsson kynntu starfsemi einkareknu læknastofunnar Læknalindar sem tekur til starfa 1. mars.
LÆKNALIND er nafn nýrrar einkarekinnar heilsugæslustöðvar sem opnuð verður í Kópavogi 1. mars. Rekstur hennar verður með nýju sniði á þann veg að fólk skráir sig á stöðina gegn ákveðnu mánaðargjaldi og fær fyrir það ákveðna þjónustu.

LÆKNALIND er nafn nýrrar einkarekinnar heilsugæslustöðvar sem opnuð verður í Kópavogi 1. mars. Rekstur hennar verður með nýju sniði á þann veg að fólk skráir sig á stöðina gegn ákveðnu mánaðargjaldi og fær fyrir það ákveðna þjónustu. Engin framlög koma frá ríkissjóði í rekstur stöðvarinnar.

Læknar stöðvarinnar verða tveir til að byrja með, þeir Guðbjörn Björnsson, sem er sérfræðingur í almennum lyflækningum og öldrunarlækningum, og Sverrir Jónsson, sérfræðingur í heimilislækningum. Þá starfa við stöðina Danfríður Kristjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, Linda Hrönn Magnúsdóttir móttökuritari og Sigurður Arnórsson rekstrarfræðingur sem framkvæmdastjóri í hlutastarfi. Stöðin verður til húsa við Bæjarlind 12 og hefur þegar verið sett upp heimasíðan laeknalind.is þar sem finna má helstu upplýsingar um starfið.

Grunnþjónusta í heimilislækningum

"Grunnheilbrigðisþjónustan eða heilsugæslan er rekin af ríkinu og við hyggjumst bjóða sömu þjónustu og heilsugæslustöðvar, þ.e. alla almenna læknisþjónustu," sagði Sverrir Jónsson m.a. er hann kynnti starfsemina fyrir fjölmiðlum. Hann segir það lengi hafa verið rætt að bjóða þyrfti fleiri rekstrarform í heilsugæslu en ekkert hafi gerst í þeim málum. Þeir Guðbjörn Björnsson hafi á síðasta sumri tekið að velta alvarlega fyrir sér að koma á raunverulegum einkarekstri. Úr hafi orðið að stofna heilsugæslustöð sem fólk skráir sig hjá gegn ákveðnu mánaðargjaldi. Með því tryggir það sér grunnþjónustu á sviði heimilis- og fjölskyldulækninga, heilsuverndar og annarrar læknisþjónustu sem það þarfnast.

Þeir Guðbjörn og Sverrir segja erfitt fyrir fólk að fá tíma hjá heilsugæslustöðvum og borið hafi á því að erfitt sé að fá heimilislækna til starfa á höfuðborgarsvæðinu.

Kerfi Læknalindar er þannig byggt upp að mánaðargjald einstaklings er 2.850 kr. en 3.950 kr. fyrir fjölskyldu og skiptir fjöldi barna þá ekki máli. Lágmark er að skrá sig fyrir þjónustu á stöðinni í þrjá mánuði. Þá verða tekin komugjöld, 500 kr. frá 18 ára aldri en 250 kr. upp að því. Fyrir fasta mánaðargjaldið fá viðskiptavinir þjónustu á læknastofu milli kl. 8 og 17 virka daga. Þar er innifalin mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit og þarf ekki að greiða sérstaklega fyrir það. Þeir sem skráðir eru hjá Læknalind fá tíma hjá lækni innan sólarhrings og samdægurs ef hringt er fyrri hluta dags. Þá sinna læknarnir vitjunum eins og þörf krefur og er vitjanagjald 2.500 kr. Sjúklingar geta sent fyrirspurnir til stöðvarinnar með tölvupósti sem svarað verður um hæl, hægt er að panta tíma á Netinu og boðið verður upp á bólusetningar.

Þá verða gerðar reglulegar heilsufarsathuganir hjá hópum sem þurfa, áhættuhópum sinnt sérstaklega, og reglulegt eftirlit verður haft með heilsufari skráðra viðskiptavina. Segja læknarnir að kallaðir verði inn hópar á ákveðnum aldri og mæld blóðfita, kólesteról og aðrir þættir sem skipta máli varðandi t.d. hjarta- og æðasjúkdóma.

"Við leggjum mikla áherslu á að starfsemi okkar sé eftir lögum og reglum í landinu og við þurfum að uppfylla allar lagaskyldur varðandi sjúkraskrárkerfi og gæði þjónustunnar," segir Sverrir og þeir segja líka að með tilkomu stöðvarinnar fjölgi úrræðum í heilbrigðisþjónustu og grundvöllur skapist til faglegrar samkeppni. Markmiðið sé einnig að bæta læknisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Telja unnt að fækka veikindadögum

"Með hraðri og öruggri þjónustu er unnt að fækka veikindadögum barna og fullorðinna og þar með töpuðum vinnustundum. Starfsemi Læknalindar á því í raun að geta leitt til fjárhagslegs sparnaðar viðskiptavina fyrirtækisins og einnig til þjóðhagslegs ávinnings, að ekki sé talað um meginávinninginn, sem er bætt heilsufar," segir m.a. í kynningu læknanna.

Guðbjörn og Sverrir eru bjartsýnir á að nægilega margir viðskiptavinir fáist til að skrá sig á stöðina til að rekstur hennar beri sig. Þeir munu að hámarki skrá á hvorn um sig 1.150 sjúklinga og verði ásókn meiri segjast þeir geta kallað til fleiri lækna sem séu tilbúnir að starfa við stöðina. Á liðnu hausti fengu læknarnir Gallup til að kanna afstöðu fólks til læknastöðvar með þessu sniði. Töldu 24% svarenda sem voru giftir eða í sambúð að þeir myndu notfæra sér að greiða fast mánaðargjald gegn öruggu sambandi við lækni samdægurs og meðal þeirra sem búa einir töldu 19% það líklegt.

Þeir sem ekki vilja skrá sig á stöðina geta einnig leitað þangað eftir þjónustu en þá er komugjald 4.500 kr. óháð aldri og vitjunargjald 8.000 kr. svo dæmi sé tekið.