Davíð O. Arnar
Davíð O. Arnar
LANDLÆKNIR hefur skipað sex lækna og tvo hjúkrunarfræðinga í nýtt ráð er nefnist Endurlífgunarráð. Því er ætlað að stuðla að betri vitund um viðbrögð við hjartastoppi og framkvæmd endurlífgunar hjá almenningi.

LANDLÆKNIR hefur skipað sex lækna og tvo hjúkrunarfræðinga í nýtt ráð er nefnist Endurlífgunarráð. Því er ætlað að stuðla að betri vitund um viðbrögð við hjartastoppi og framkvæmd endurlífgunar hjá almenningi. Ráðið á jafnframt að vera ráðgefandi varðandi framkvæmd og kennslu í endurlífgun, hvetja til notkunar á viðurkenndum alþjóðlegum leiðbeiningum og kynna nýjungar á því sviði.

Á vefsíðu landlæknis kemur fram að skyndidauði vegna hjartastopps er algengt vandamál hérlendis. Oftast verði hjartastopp hjá fullorðnum vegna alvarlegra hjartsláttartruflana. Fyrstu viðbrögð við hjartastoppi geti skipt sköpum fyrir afdrif sjúklingsins og ef vitni séu að atburðinum sé mikilvægi grunnendurlífgunar, meðan beðið sé sjúkrabifreiðar, ótvírætt. Formaður ráðsins, Davíð O. Arnar, hjartalæknir, sagði við Morgunblaðið að nákvæmar tölur væru ekki til staðar um fjölda þeirra sem deyja skyndidauða vegna hjartastopps hér á landi. Miðað við hlutfall slíkra dauðsfalla í nágrannalöndunum mætti reikna með að fjöldinn hérlendis væri 250-300 manns á ári.

Rafstuðstæki á almannafæri

Að sögn Davíðs hafa rannsóknir sýnt að öndunaraðstoð við hjartastoppi, munn við munn, skipti ekki jafnmiklu máli á fyrstu mínútunum og áður var talið. Hjartahnoðið sé hins vegar lykilatriði og mikilvægt að auka þekkingu og þjálfun almennings til að beita þeirri aðferð.

Davíð sagði að möguleikar væru á að auka enn frekar árangur endurlífgunar utan sjúkrahúsa hér á landi. Hlutfall þeirra sem lifa eftir slíka meðhöndlun hér er 17% en 5-10% víða annars staðar.

"Við þurfum að fá fleiri til að taka þátt í endurlífgun þegar fólk dettur niður, ekki síst að beita hjartahnoði, og bæta einnig aðgengi að rafstuðstækjum á almannafæri," sagði Davíð og benti á að víða erlendis væru slík tæki til taks, m.a. á flugvöllum. Hann sagði mikinn áhuga vera fyrir því að skoða hvar rafstuðstæki gætu komið að notum á Íslandi.

Davíð sagði kannanir sýna að endurlífgun af hálfu vitna að hjartastoppi væri reynd í minna en 50% tilfella. Vel þess virði væri að auka þetta hlutfall upp í 70-90% og það ætti að vera hægt hjá jafn vel upplýstri þjóð.

Aðrir í Endurlífgunarráði auk Davíðs, eru Svanhildur Þengilsdóttir hjúkrunarfræðingur, ritari, Bjarni Torfason brjóstholsskurðlæknir, Felix Valsson svæfingalæknir, Gestur Þorgeirsson hjartalæknir, Hildigunnur Svavarsdóttir hjúkrunarfræðingur, Jón Baldursson bráðalæknir og Jón Þór Sverrisson hjartalæknir.