Guðbergur Óskar Guðjónsson fæddist á Stokkseyri 1. des. 1917. Hann lést á Sólvangi í Hafnarfirði 19. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðjón Pálsson, f. 24. júní 1865, d. 8. febrúar 1955, og Vilborg Margrét Magnúsdóttir, f. 20. mars 1874, d. 28. des. 1944. Guðbergur átti átta systkini sem öll eru látin: 1) Steinunn Sigríður, f. 8. okt. 1896, d. 23. ágúst 1926, maki Jón Steingrímsson. 2) Guðrún Pálína, f. 2. sept. 1897, d. 2. mars 1982, maki Magnús Siggeir Magnússon. 3) Magnús, f. 27. ágúst 1899, d. 19. apríl 1991, maki Bjargey Guðjónsdóttir. 4) Magnea Vilborg, f. 6. okt. 1903, d. 2. nóv. 1960, maki Júlíus Jónsson. 5) Þuríður Kristín, f. 26. okt. 1906, d. 13. ágúst 1962, maki Jón Steingrímsson. 6) Bergsteinn, f. 4. júlí 1909, d. 4. des. 1987, maki Fjóla Blómkvist Gísladóttir. 7) Einar Guðjón, f. 15. júní 1912, d. 22. nóv. 1918. 8) Ágúst Vilberg, f. 26. ágúst 1914, d. 27. júlí 2000, maki Ásta Margrét Sigurðardóttir.

Hinn 24. okt. 1956 kvæntist Guðbergur Rósu Vilhjálmsdóttur (Rose Eagles), f. 6. mars 1925 í Hanley á Englandi. Þeirra börn eru: 1) Örn Andrew, f. 8. sept. 1957. Börn hans eru: Shawn Michael, f. 24. okt 1978. Andrea Rose, f. 11. sept. 1989. Hann giftist Patriciu Lawson, þau skildu. Sambýliskona hans er Gail Jedry. 2) Margrét Annie, fædd 28. apríl 1960. Börn hennar eru: A) Melanie Rose, f. 2. sept. 1979. Hennar barn Viktoría Siv, f. 20. mars 2000. B) Stefán Óskar, f. 13. jan. 1984. C) Jón Edilon, f. 7. júní 1990. D). Guðbergur Örn, f. 14. apríl 1995. Margrét giftist Michael Everett. Þau skildu. Eiginmaður Margrétar er Jón Benediktsson, f. 15. des 1951. 3) Grétar William, f. 6.mars 1963.

Guðbergur var einkabílstjóri í nokkur ár hjá breska sendiherranum. Hann starfaði í 20 ár hjá Ólafi Þorsteinssyni h/f. Þegar hann lét af störfum starfaði hann hjá Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar.

Hann gerði við veiðistengur, veiðihjól, hnýtti flugur og bjó til sökkur í frítíma sínum.

Útför Guðbergs fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Ó, Drottinn minn, hve ljúft er mér að líða, þó ljósin gleði daprist hér í heim, og boðum þínum helgum jafnan hlýða, þó hiti, og þungi sé í för með þeim. Eins og steinsnar lífið manna líður, þó löng oss finnist sérhver þrautastund; en mjúkur himnaföður faðmur blíður oss felur, þegar hinsta dregst að blund. Ó, þegar lífsins þraut á burt er liðin, mig þreyta eigi framar nokkur bönd, þá öðlast sál mín þjökuð frelsið, friðinn, þá fagnar hún við Drottins ástarhönd. (Guðjón Pálsson.)

Ó, Drottinn minn, hve ljúft er mér að líða,

þó ljósin gleði daprist hér í heim,

og boðum þínum helgum jafnan hlýða,

þó hiti, og þungi sé í för með þeim.

Eins og steinsnar lífið manna líður,

þó löng oss finnist sérhver þrautastund;

en mjúkur himnaföður faðmur blíður

oss felur, þegar hinsta dregst að blund.

Ó, þegar lífsins þraut á burt er liðin,

mig þreyta eigi framar nokkur bönd,

þá öðlast sál mín þjökuð frelsið, friðinn,

þá fagnar hún við Drottins ástarhönd.

(Guðjón Pálsson.)

Elskulegur faðir minn er látinn.

Hann var síðastur af systkinunum að hverfa yfir móðuna miklu, ég er viss um að þar urðu fagnaðarfundir.

Þegar ég var lítil stúlka bað ég Guð um að láta mig deyja á undan foreldrum mínum, því að tilhugsunin um að missa þau voru mér óbærileg. Sem betur fer hlustar Guð ekki alltaf á bænir okkar, því nú þegar ég er móðir veit ég að það að missa barn er ennþá þungbærara. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að hafa hann svona lengi. Hann dó aldraður maður, en samt er ég með sársauka í hjartanu. Okkur finnst að foreldrar manns eigi alls ekki að deyja, að þau séu ódauðleg.

Faðir minn var rólegur maður, aldrei hef ég séð hann reiðast, rífast eða tala illa um fólk. Hann vildi öllum vel. Hann var mikill húmoristi, alltaf að grínast og kom öllum í gott skap í kringum sig. Það eru ófáar andlitsgretturnar sem hann sýndi okkur systkinunum gegnum tíðina, og öll bernskuprakkarastrikin sem hann gerði, var vinsælt söguefni sem við systkinin þreyttumst aldrei á að heyra. Þegar ég var að bjóða krökkum í 16 ára afmælið mitt spurði einn vinur minn hvort pabbi minn yrði heima. Mér fannst þetta furðuleg spurning en ég svaraði henni neitandi, sagði að foreldrar mínir ætluðu í bíó. "Þá kem ég ekki," sagði hann, "pabbi þinn er svo skemmtilegur að ég vil að hann sé heima." Ég man hvað ég var hreykinn af honum pabba mínum þá.

Hann var mikill veiðiáhugamaður. Þær eru margar ferðirnar sem fjölskyldan fór á sumrin í veiðitúra um allt landið, um hálendið og víðar, bæði stutta túra og langa. Hann fór oft með vinum sínum Gvendi briskó og Guðjóni Ó, sem komu á fornbílnum. Krakkarnir í hverfinu þyrptust að til að skoða þennan forngrip og var ég mjög hreykin af því að hann skyldi koma heim til mín.

Hann gerði við veiðistengur, veiðihjól, hnýtti flugur og steypti sökkur. Ég sat oft uppi í hossí hjá honum á meðan hann var að vinna að þessu í frítíma sínum. Stundum þögðum við saman, ég fylgdist bara með honum á meðan hann vann, dáðist að því hvað honum fór þetta vel úr hendi.

Hann vann hjá Ólafi Þorsteinssyni pappírsheildsala. Þar kynntist hann mörgum bókaútgefendum, sem buðu honum til sín fyrir jólin og gáfu honum bækur. Við krakkarnir nutum góðs af því, vegna þess að alltaf kom hann með fullt af barnabókum heim með sér. Beið ég alltaf spennt eftir honum þegar ég vissi að hann væri að fara að heimsækja kunningja sína í prentsmiðjunum. Hann las alltaf fyrir okkur systkinin áður en við fórum að sofa. Það skipti ekki máli hvað hann var að gera, hann gaf sér alltaf tíma til að lesa fyrir okkur.

Alltaf þegar við sáumst eða töluðum saman í síma, kvaddi ég hann alltaf á orðunum: Ég elska þig. Hann svaraði ávallt til baka: Ég elska þig líka.

Síðust æviárin hans var hann orðinn veikur, fékk heilablóðfall sem skerti heilann. Hann mundi ekki hvernig hann átti að gera hluti, en hann gat alltaf gert grín að öllu saman, hann lét ekki deigan síga. Áfallið sem hann fékk í fyrra var það alvarlegt að hann mundi ekki eftir fjölskyldu sinni né fortíðinni. Ég kvaddi hann alltaf með orðunum: Ég elska þig, þegar ég heimsótti hann á sjúkrabeðinum. Jafnvel þótt hann hafi ekki þekkt mig og myndi ekki eftir mér svaraði hann samt til baka: Ég elska þig. Mér fannst það bera vitni um að einhvers staðar í huganum myndi hann eftir mér, því hann svaraði mér til baka og var það mér mjög dýrmætt.

Í spámanninum segir meðal annars um dauðann: "Því að hvað er það að deyja annað en standa nakinn í blænum og hverfa inn í sólskinið? Og hvað er að hætta að draga andann annað en að frelsa hann frá friðlausum öldum lífsins, svo að hann geti risið upp í mætti sínum og ófjötraður leitað á fund Guðs síns?"

Elsku pabbi minn, ég kveð þig að sinni með fullvissu um að við munum hittast aftur á ný. Ég kveð þig með orðunum: Ég elska þig. Ég heyri ekki svarið en ég veit hvert það er.

Þín dóttir

Margrét Annie.

Ó líttu nú, Guð, í líkn og náð

til líðandi barna þinna.

Láttu þitt guðdóms gæskuráð

þau gleði og huggun finna.

(Guðjón Pálsson.)

Elsku afi. Við munum sakna þín. Við erum þakklát fyrir allar góðu stundirnar sem við höfðum með þér. Þú varst alltaf svo fyndinn og glaður. Takk fyrir veiðistengurnar sem þú bjóst til handa okkur. Guð geymi þig.

Við biðjum Guð að styrkja ömmu sem misst hefur mest.

Þín barnabörn

Melanie, Stefán, Edilon

og Guðbergur.

Í dag kveðjum við frændsystkinin Begga okkar. Hann var yngstur systkinanna frá Bakkagerði í Stokkseyrarhreppi. Hann er einnig síðastur þeirra að kveðja þessa jarðvist. Hann hét Guðbergur Óskar en alltaf kallaður Beggi. Nafn hans kom þannig til að ömmu dreymdi Guðberg áður en hann var skírður og hann falaðist eftir að drengurinn fengi nafn sitt. Amma og afi sættust á þetta og bættu við Óskars nafninu til að undirstrika þessa ósk Guðbergs. Beggi var mikill gæfumaður í lífi sínu. Hann fæddist inn í þá mestu kærleiksfjölskyldu sem ég hef kynnst. Peningaauður var af skornum skammti en því meira af mannkostum og mannkærleika. Ég hef fengið að njóta þessa móðurbróður míns frá fæðingu. Ég og Lóa frænka mín vorum yngstar af systkinabörnunum í mörg ár áður en bræðurnir Gústi og Beggi stofnuðu sín heimili. Það gleymist aldrei þegar þeir sem ungir menn gáfu okkur þær fallegustu og stærstu dúkkur sem við höfðum séð. Beggi fæddist gleðigjafi og hélt því til hinstu stundar. Hann og móðir mín Magnea voru hrókar alls fagnaðar á meðan hún lifði. Það var ekki óalgengt að fólk var ósjálfbjarga af hlátri þar sem þau lögðu saman að gera passlegt grín að tilverunni. Eftir lát mömmu hélt Beggi sínu striki að hlæja að tilverunni.

Beggi var mikil ævintýrapersóna í augum mínum. Hann vann á bílaverkstæði Egils Vilhjálmssonar en þar var talið að væri mikill draugagangur um tíma. Okkur rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar hann sagði okkur með tilþrifum þessar draugasögur sem hann og félagar hans upplifðu. Ungur maður gerðist hann svo bílstjóri og aðstoðarmaður enska sendiherrans. Þá var aðsetur sendiráðsins í Höfða. Þar komu líka margar sögur um draugagang, svo magnaðar að kalt vatn hríslaðist milli skinns og hörunds. Beggi fann gæfu sína í þessu starfi, því "enska rósin" hans réðst til sendiráðsins. Rose konan hans hefur verið síðan hans tryggi lífsförunautur. Það var mikill dýrðarljómi yfir veislunum sem þau héldu fyrir systkini hans og vini í sendiráðinu.

Beggi hefur alls staðar verið elskaður, hvar sem hann hefur verið. Hann hefur gengið í gegnum mjög erfið veikindi til margra ára. Hann hefur fengið heilablæðingar nokkrum sinnum. Það hefur verið ótrúlegt að horfa upp á hversu gleðin í skapgerð hans hefur alltaf ráðið ferðinni. Allir starfsmenn sem hafa hjúkrað honum hafa verið englar í mannslíki. Ég sé hann í anda þegar hann fárveikur brosti til stúlknanna sem hjúkruðu honum og sagði þeim hvað þær væru fallegar og frábærar í alla staði. Það skipti ekki máli hvort hann þekkti þær með nafni eða ekki. Rose, konan hans, hjúkraði honum síðustu árin. Við í fjölskyldunni tölum oft um hversu dásamlegt hefur verið að fylgjast með því ástríki og tryggð sem hún hefur sýnt manni sínum. Gústi var einnig mjög veikur síðustu ár sín. Hann var þá orðinn ekkjumaður. Rose hugsaði einnig um hann eftir bestu getu. Einu sinni í viku kom Gústi í mat til bróður síns og mágkonu. Það var reynt að slá á léttari strengina þegar Rose var að sinna þeim bæði heima og einnig þegar hún fór með þá eitthvað þeim til glaðningar. Síðustu árin voru þeir ekki alltaf með á nótunum en Rose lét það ekki á sig fá. Rose hefur kallað á okkur systkinabörnin og haldið okkur ótrúlegar veislur má segja fram á síðasta dag. Beggi var hættur að þekkja okkur með nafni, en það skipti engu. Hann hélt sínu góða veisluskapi. Brandarar voru á sínum stað og glaða brosið. Síðustu árin sem Gústi lifði var Rose svo dugleg að koma með þá til allra systkinabarnanna til skiptis. Ég veit að það ríkir mikið þakklæti í huga okkar allra fyrir þennan dugnað því minningarnar eru ljúfar að hafa fengið að njóta þeirra bræðra má segja fram á síðasta tíma þeirra.

Mér varð að orði þegar ég stóð við banabeð Begga frænda míns og horfði á þann kærleika sem Rose veitti honum. "Það er ótrúlegt að nokkur maður sem hefur lifað í 84 ár hafi fengið þá náð að fæðast í ástríki, lifa alla sína ævi við mikinn kærleika og gleði og fá að deyja umvafinn ást." Ég er sannfærð um að Beggi hefur aldrei átt óvildarmann. Guðsgjöf hans var dásamleg skapgerð.

Ég veit að ég tala fyrir hönd allrar fjölskyldunnar þegar ég þakka innilega fyrir þá gæfu að hafa fengið að njóta þess að ganga við hlið hans þessi mörgu dásamlegu ár.

Ég bið Guð um að blessa Rose og fjölskyldu þeirra um ókomna tíð.

Selma Júlíusdóttir

frá Sólheimatungu.

Mig langar að minnast Begga frænda míns, eins og hann var alltaf kallaður, með nokkrum orðum. Hann var yngstur í sínum stóra systkinahópi og er síðastur til að kveðja þennan heim. Fyrstu minningarnar um hann eru frá því þegar hann var bílstjóri í breska sendiráðinu í Reykjavík. Þá bjó hann í litlu húsi bak við sendiherrabústaðinn. Þegar ég man fyrst eftir að ég kom þangað í heimsókn og öll skiptin eftir það, sem var nú ekki svo sjaldan með foreldrum mínum, þá var alltaf sest inn í stofu og þar var mjög flottur skápur sem ég man sérstaklega eftir og maður starði alltaf á og beið eftir að frændi opnaði því þar inni var alltaf til nóg af útlendu nammi, sem var nú ekki á hvers manns borði á þeim tíma, fyrir rúmun fimmtíu árum.

Þessi sami skápur er ennþá í stofunni heima hjá þeim hjónum og hann vekur skemmtilegar minningar í hvert sinn sem maður sér hann.

Beggi frændi var hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom, hvort sem það var á vinnustað eða innan fjölskyldunnar. Hann var grínisti alveg fram í fingurgóma. Hann tók meðal annars þátt í að setja upp nokkrar revíur í sjálfstæðishúsinu á sjötta áratugnum.

Þegar maður talar um fingurgóma má ekki gleyma því að hann var alveg einstaklega laginn í höndunum. Hann smíðaði einu sinni frambretti á gamlan bíl og til þess notaði hann bara einn hamar.

Einu sinni sem oftar var farið í útilegu. Þegar komið var á staðinn og farið að tjalda varð maður nú hissa. Minn maður tók tjaldið úr pokanum og breiddi úr því. Síðan var bara tekin lítil pumpa og tjaldið pumpað upp. Það voru engar súlur notaðar í þetta tjald. Þetta hafði ekki nokkur maður séð áður. Þetta tjald hafði hann fengið hjá vinum sínum í sendiráðinu.

Þegar maður talar um hversu laginn hann var má geta þess að hann gerði við brotnar veiðistangir. Þegar hann var að sýna manni brotna stöng og sagðist ætla gera við þetta hélt maður að hann væri að grínast. Svo kom maður seinna og fékk að sjá stöngina aftur. Þá var hún eins og ný út úr búð.

Ég gæti endalaust talið upp skemmtileg atvik og fyllt nokkra Mogga en læt þetta duga í bili. Beggi frændi fékk stærsta vinning sem nokkur maður getur fengið þegar hann var að vinna í sendiráðinu, því einn góðan veðurdag byrjaði að vinna þar ung stúlka sem varð síðar eiginkona hans. Þar fer ekki nein venjuleg kona, það er sama hvar hann hefði leitað, hann hefði aldrei fengið betri eiginkonu en hana Rós. Það er oft sagt að eiginkonurnar standi eins og klettur við hlið eiginmanna sinna en ég segi og stend við það að hún var eins og fjall við hlið hans.

Það kom ekki síst fram þegar fór að halla undan fæti hjá honum. Þá vék hún ekki frá honum. Þó að hann væri kominn á spítala og ætti ekki afturkvæmt gaf hún sig ekki og reyndi að taka hann heim aftur en hún varð að gefa eftir og í staðinn fór hún upp á spítala alla daga og var hjá honum lungann úr deginum.

Síðustu mánuðina var hann á Sólvangi og þar lést hann 19. janúar.

Beggi minn, "gamli skútukall", vertu sæll að sinni. Við hittumst síðar.

Elsku Rós mín, Andrew, Margrét, Grétar og aðrir aðstandendur. Við Didda sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Vilberg Ágústsson.

Margrét Annie.