Túngata 6, eins og húsið lítur út í dag.
Túngata 6, eins og húsið lítur út í dag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Af gömlum myndum má sjá að garðurinn við Túngötu 6 hefur verið mjög fallegur, segir Freyja Jónsdóttir. Aðeins eitt tré stendur eftir, álmur, sem Reykjavíkurborg kaus tré ársins fyrir nokkrum árum.

TALIÐ er að Einar Jónsson stúdent, hafi manna fyrstur byggt á lóðinni árið 1835. Einnig átti Einar lóð sunnan götunnar og var þar brunnhús.

Árið 1850 eignaðist Þórður Sveinbjörnsson háyfirdómari húsið. Hann var faðir Sveinbjörns Sveinbjörnssonar tónskálds. Þórður reisti nýtt hús á lóðinni, mun stærra. Árið 1875 lét kjörsonur Þórðar, Lárus Edv. Sveinbjörnsson dómstjóri, rífa húsið og byggði á lóðinni húsið sem enn stendur.

Brunavirðingum og B-skjali ber ekki saman um ártal húsbyggingarinnar. Samkvæmt fyrstu brunavirðingu var húsið bygt 1874. Þar segir m.a. að íbúðarhúsið sé 25 1/4 x 9 1/4 álnir að grunnfleti, veggjahæð að þakskeggi er 3 1/2 álnir. Það er byggt úr múruðum bindingi, klætt með borðum að utan og með borðaþaki. Í húsinu eru átta herbergi og eldhús. Geymsluskúr er áfastur við vesturhlið íbúðarhússins, 3 x 3 3/4 álnir að grunnfleti, hann er byggður úr múruðum bindingi, klæddur að utan með borðum og með helluþaki. Einnig var byggt geymsluhús á lóðinni, 20 x 7 1/4 að grunnfleti, 3 1/4 á hæð, byggt af ómúruðum bindingi, klæddur utan með borðum bæði á veggjum og þaki. Þegar þessi virðing var gerð var húsið ekki fullgert.

Lárus Edvard Sveinbjörnsson var fæddur 31. ágúst 1834 í Reykjavík. Hann var kjörsonur Þórðar Sveinbjörnssonar, háyfirdómara og alþingismanns í Nesi við Seltjörn, en seinni kona hans var Kristine Cathrine Lauritzdóttir, móðir Lárusar Edv. Faðir hans var Hans Edvard Thomsen, verslunarstjóri í Reykjavík og víðar. Lárus Edv. varð stúdent 1855 og cand. juris frá Hafnarháskóla 15. júní 1863. Fyrstu árin eftir að hann lauk námi var hann sýslumaður í Árnessýslu, síðan í Þingeyjarsýslu. Skipaður bæjarfógeti í Reykjavík og jafnframt sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og gegndi því embætti til ársins 1878. Síðan yfirdómari og dómsmálaritari í landsyfirrétti og háyfirdómari frá 1. maí 1889 til ársins 1908. Lárus Edv. sat á Alþingi í meira en áratug og var bankastjóri Landsbanka Íslands frá stofnun hans, 24. okt. 1885 til 1. maí 1893. Hann vann mörg önnur trúnaðarstörf og skrifaði bækur um lögfræði. Árið 1868 kvæntist hann Jörgine Margrethe Sigríði Guðmundsdóttur Sveinbjörnsson, fæddri 25. apríl 1849. Faðir hennar var faktor hjá Lefoliiverslun á Eyrarbakka. Sonur þeirra var Jón Sveinbjörnsson konungsritari. Lárus Edv. lést 7. jan 1910 í Reykjavík. Jörgine Margrethe lést 6. desember 1915.

26. apríl 1915 eru brunavirðingamenn kvaddir á staðinn að virða hús Lárusar Edv. Sveinbjörnssonar háyfirdómara, sem þá er skráð dánarbú hans. Þá var búið að gera endurbætur á húsinu. Í þeirri virðingu segir: Húsið er einlyft með porti, kvisti og sex álna háu risi, byggt af bindingi, klætt utan með 5/4 plægðum borðum, pappa, listum og járni yfir og með skífum á þaki á 5/4" borðasúð. Í binding er múrað að mestu leyti með múrsteini og eitthvað með holtahellu. Niðri í húsinu eru fimm íbúðarherbergi, eldhús, búr og gangur. Öll loftin eru reyrlögð og múrsléttuð, einnig veggir í eldhúsi og gangi. Herbergin eru með striga og pappír á blindlistum á veggjum. Herbergin eru ýmist betrekkt eða máluð og í flestum þeirra eru brjóstþil. Á hæðinni eru fjórir ofnar og ein eldavél.

Uppi eru þrjú íbúðarherbergi, fjórar geymslukompur og framloft. Sami frágangur er á íbúðarherbergjunum uppi og er niðri, eitt herbergið er með spjaldaloftum og geymslukompurnar eru þiljaðar. Þar eru þrír ofnar og í einu af herbergjunum er álímdur linolíumdúkur á gólfi. Ári eftir að þessi virðing var gerð lét Magnús byggja breiðar tröppur við útidyr hússins sem þá voru á suðurgafli þess. Þessar tröppur eru ekki lengur á húsinu og inngangur á vesturhlið.

Vatns -, gas- og skólpleiðslur eru í húsinu. Undir því er kjallari að stærð 5 x 8 álnir, í honum er timburgólf.

Við vesturhlið er inn- og uppgönguskúr, byggður líkt og húsið, járnklæddur og með risi.

Ásta Sigríður, dóttir Lárusar og Jörgine, giftist Magnúsi Einarssyni dýralækni sem er skráður eigandi hússins í desember 1915. Magnús var fæddur 16. apríl 1870 á Höskuldsstöðum í Breiðdal. Foreldrar hans voru Einar Gíslason, alþm. og hreppstjóri, og Guðrún Helga Jónsdóttir, bónda á Gilsá í Breiðdal, Einarssonar. Magnús tók upp ættarnafnið Einarson. Í bókinni "Íslenskir Hafnarstúdentar" segir að hann hafi verið fyrsti dýralæknir á Íslandi sem hafði fullnaðarpróf í þeirri grein. Magnús kom talsvert við sögu stjórnmála og var einn af stofnendum Íhaldsflokksins árið 1924. Hann andaðist í Reykjavík 2. október 1927.

Stór og vel hirtur garður var við húsið þar sem nú er bílaplan. Kofoed Hansen garðyrkjufræðingur hannaði garðinn sem af gömlum myndum má sjá að hefur verið mjög fallegur. Aðeins eitt tré stendur eftir, álmur sem fyrir nokkrum árum var valinn tré ársins af Reykjavíkurborg. Af því tilefni afhenti Skógræktarfélagið heiðursskjal sem Magnús Finnsson blaðamaður tók við fyrir hönd móður sinnar, Guðrúnar Einarsson. Hinn einmana álmur sem í gegnum árin hefur glatt augu vegfarenda sem um Túngötu fara, er enn óvarinn fyrir bílum sem á planinu aka. Ekki hefur verið staðið við loforð um að smíða hlíf til að verja tréð hnjaski.

Eftir lát Magnúsar bjó ekkja hans, Ásta Einarson, áfram í húsinu. Hún stundaði píanókennslu og hafði lært hjá frú Melsted en síðan fór hún til Edinborgar og fullnumaði sig þar. Á meðan hún dvaldi þar bjó hún hjá föðurbróður sínum Sveinbirni Sveinbjörnssyni tónskáld. Ásta var listfeng og góðum gáfum gædd, hún var í nokkur ár skautadrottning Reykjavíkur. Hún seldi húsið seint á fjórða áratugnum.

Ásta Einarsson lést 27. mars 1959.

Seint í nóvember 1940 gerðist það að deild frá breska hjálpræðishernum hugðist byggja sér hús á lóðinni. Ekki höfðu Bretarnir sótt um byggingarleyfi en voru búnir að grafa skurð og byrjaðir að slá upp fyrir húsgrunni þegar að var komið. Ekkert varð af húsbyggingunni því að ríkisstjórnin stöðvaði framkvæmdir.

Árið 1941 er Elitric hf. með starfsemi í húsinu, innflutning og sölubúð rafmagnstækja. Þá var gerður útstillingagluggi á suðvesturhorn hússins.

Hannes Þórðarson og Ólafur Jónsson voru eigendur að Elitric. Hekla kaupir síðan umboðin sem Elitric var með. Um tíma var Ólafur Jónsson með íbúð í risi hússins en síðan var það tekið undir kaffistofu og skrifstofur.

Í mati frá árinu 1943 kemur fram að búið er að vírleggja veggi á herbergjum og múrhúða. Loft og veggir í eldhúsi voru reyrlögð og múrsléttuð þegar húsið var byggt.

Steindór Haarde og Gunnar Rósinkranz, sem báðir eru verkfræðingar, taka húsið á leigu árið 1978 fyrir verkfræðistofuna "Vægi". Í árslok 1984 kaupir Steindór Haarde húsið ásamt Ágúst Þór Jónssyni verkfræðingi. Nokkru eftir kaupin gerðu þeir miklar endurbætur á húsinu. Skipt var um alla glugga og útlit þeirra gert upphaflegir. Skipt var um járn bæði á þaki og hliðum. Að innan var allt tekið í gegn, gólf í risi parketlögð og settir dúkar og flísar á gólf niðri. Ekki var hróflað við upphaflegri herbergjaskipan að öðru leyti en því að sums staðar voru settir upp léttveggir með gleri sem hægt að fjarlægja án þess að raska neinu sem upphaflegt er.

Árið 1986 byggðu þeir húsið í Grjótagötu 7. Skúrbygging sem stóð á lóðinni var fjarlægð áður. Húsið er byggt af steinsteypu, klætt utan með járni og með járnþaki. Það er tvær hæðir og ris, hannað í gömlum stíl sem fellur vel við aðrar byggingar í Grjótaþorpi. Steindór og Ágúst Þór leigðu Yddu ehf. húsið og létu eigendur Yddu innrétta það undir starfsemi sína. Vel hefur tekist með þessa byggingu og þegar komið er inn í húsið minnir það óneitanlega á vel uppgert gamalt hús. Gengt er milli húsanna Grjótagötu 7 og Túngötu 6 um glerskála sem gerður var á milli þeirra.

Árið 1986 flutti Ydda ehf. í Túngötu 6 og var með starfsemi sína á neðri hæðinni. Uppi voru verkfræðistofur Steindórs Haarde og Ágústar Þórs Jónssonar.

Árið 2000 kaupir Ydda húsin á Grjótagötu 7 og Túngötu 6. Mikið af því sem Ydda hannar er á heimilum landsmanna og má þar nefna frímerki, almanök og ýmiss konar auglýsingar í dagblöðum, tímaritum, útvarpi og sjónvarpi.

Núna eru húsin á Túngötu 6 og Grjótagötu 7 til sölu eða leigu eftir að Ydda flutti starfsemi sína í nýtt húsnæði í Brautarholti.

Þeir sem áhuga hafa á að fræðast meira um fólkið sem bjó á Túngötu 6 er bent á grein í Morgunblaðinu frá 29. júlí 2001 eftir Pétur Pétursson þul "Trjágróður og tónlist".

Helstu heimildir: B-skjöl, brunavirðingar, fasteignamöt og íbúaskrá Reykjavíkur.