16. mars 2002 | Miðopna | 265 orð | 1 mynd

91% vill hefja aðildarviðræður við ESB

RÚMLEGA helmingur þjóðarinnar, eða 52%, er hlynntur aðild Íslands að ESB og 55% þjóðarinnar eru hlynnt því að taka evru upp sem gjaldmiðil á Íslandi í stað krónu, ef marka má niðurstöður úr viðhorfskönnun sem Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins í...
RÚMLEGA helmingur þjóðarinnar, eða 52%, er hlynntur aðild Íslands að ESB og 55% þjóðarinnar eru hlynnt því að taka evru upp sem gjaldmiðil á Íslandi í stað krónu, ef marka má niðurstöður úr viðhorfskönnun sem Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins í febrúar sl.

Þá vill 91% þjóðarinnar, samkvæmt könnuninni, hefja aðildarviðræður við ESB til að kanna hvað Íslandi stendur til boða við aðild.

Um 57% telja að fullveldi og sjálfstæði Íslands skerðist lítið við aðild að ESB og tveir þriðju hlutar þjóðarinnar telja það gott fyrir efnahag Íslands að ganga í ESB.

Koma þessar niðurstöður heim og saman við afstöðu félagsmanna Samtaka iðnaðarins í könnun sem Gallup gerði sl. haust.

9% fleiri hlynntir aðild en í fyrra

Við spurningunni: "Ertu hlynntur eða andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu?" sögðust 52% hlynnt aðild, 23% hvorki né og 25% andvíg. Á einu ári hefur þeim, sem eru hlynntir aðild, fjölgað um 9 prósentustig.

Þegar spurt var um afstöðu til evrunnar sögðust 55% hlynnt því að hún yrði tekin upp sem gjaldmiðill í stað krónunnar, 12% hvorki né en 33% andvíg. Frá í ágúst hefur þeim, sem eru hlynntir upptöku evrunnar, fjölgað um 11 prósentustig en þeim, sem eru á móti, fækkað að sama skapi.

Við spurningunni: "Telur þú að það sé gott eða slæmt fyrir efnahag Íslands í heild að ganga í ESB?" sögðu 67% það gott, 14% hvorki né en 20% töldu það slæmt.

Þá var spurt: "Ertu hlynntur eða andvígur því að taka upp aðildarviðræður við ESB til að ganga úr skugga um hvað Íslandi stendur til boða við aðild?" 91% sagðist hlynnt því, fjögur prósent hvorki né en 5% andvíg.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.