HÆSTIRÉTTUR dæmdi í gær Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. til að greiða konu 100.000 krónur í miskabætur vegna ummæla sem hann lét falla um hana í fjölmiðlum árið 1999. Jón Steinar hafði varið föður hennar sem hún sakaði um kynferðisbrot.

HÆSTIRÉTTUR dæmdi í gær Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. til að greiða konu 100.000 krónur í miskabætur vegna ummæla sem hann lét falla um hana í fjölmiðlum árið 1999. Jón Steinar hafði varið föður hennar sem hún sakaði um kynferðisbrot.

Hæstiréttur vísaði á hinn bóginn frá dómi kröfu um að viðurkennt yrði að Jón Steinar hefði brotið góða lögmannshætti þar sem krafan þótti í senn of óljós og óákveðin til að lagt yrði mat á hana.

Faðir konunnar var sakfelldur í héraði en sýknaður í Hæstarétti af meirihluta réttarins. Í kjölfar sýknudómsins var mikið fjallað um málið í fjölmiðlum og tók Jón Steinar virkan þátt í þeirri umræðu.

Í dómnum segir að meðal þess sem þurfi að taka tillit til við mat á ummælum Jóns Steinars sé að í umræðunni hafi verið vegið harkalega að föður konunnar sem skömmu áður hafi verið sýknaður af alvarlegri ákæru.

Hæstiréttur komst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að Jón Steinar hafi bakað sér bótaábyrgð vegna ummæla sem hefðu falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart konunni. Ummælin sem hann var dæmdur fyrir lét hann falla í útvarpserindi á Bylgjunni og í viðtali við dagblaðið Dag. Að mati dómsins hafi hann viðhaft orð í útvarpinu sem yrðu ekki skilin öðruvísi en svo að konan hefði borið föður sinn röngum sakargiftum. Bent er á að þrátt fyrir sýknudóm Hæstaréttar hafi því ekki verið slegið föstu að framburður hennar væri rangur. Í dagblaðsviðtalinu var m.a. haft eftir Jóni Steinari að konan hefði orðið uppvís að því að bera kennara sinn röngum sökum um kynferðislega áreitni en haft var eftir móður stúlkunnar að henni hafi verið vísað úr skólanum í eina viku af þeim sökum. Ummæli Jóns Steinars varðandi þetta atriði hefðu falið í sér fullyrðingar umfram það sem gögn málsins gáfu tilefni til.

Auk bótanna þarf Jón Steinar að greiða 300.000 krónur í málskostnað.

Áfall fyrir tjáningarfrelsið

Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. sagði í samtali við Morgunblaðið að dómur Hæstaréttar væri að sínu mati heilmikið áfall fyrir tjáningarfrelsið í landinu og ylli sér vonbrigðum. Hæstiréttur hafi snúið út úr orðum sínum um að hann hafi fullyrt að stúlkan hefði haft uppi rangar sakargiftir á hendur föður sínum, það hafi hann aldrei sagt. "Þarna voru tveir aðilar sem báru mismunandi um sömu hlutina og auðvitað sjá það allir að annar segir satt og hinn ekki," segir Jón Steinar. "Hins vegar fjallaði ég um það hvaða ástæður gætu legið til þess að stúlka gæti borið fram rangar sakir og fyrir það er ég dæmdur." Varðandi ásakanir stúlkunnar á hendur kennara sínum , hafi hann hlíft henni við því að greina efnislega frá ásökunum því hann hafi talið að það gæti gengið of nærri stúlkunni en nú hafi Hæstiréttur ákveðið að ganga miklu lengra og segja efnislega frá málinu.

Fordæmisgildi

Sif Konráðsdóttir hrl., lögmaður konunnar, segir að forsendur dómsins sýni fram á að þrátt fyrir að kröfu um að viðurkennt yrði að Jón Steinar hefði brotið gegn góðum lögmannsháttum hafi verið vísað frá dómi, sýni forsendur dómsins fram á að Jón Steinar hafi brotið af sér sem lögmaður með ummælum sínum um að konan hafi borið rangar sakargiftir á föður sinn. Dómur Hæstaréttar hljóti að hafa fordæmisgildi. Hann sé jafnframt áfellisdómur yfir úrskurðarnefnd lögmanna sem komst að þeirri niðurstöðu að Jón Steinar hefði ekki brotið gegn konunni.