23. mars 2002 | Fastir þættir | 772 orð

Í fyrsta þætti þessa umsjónarmanns um...

Í fyrsta þætti þessa umsjónarmanns um íslenskt mál, laugardaginn 23. febrúar síðast liðinn, notaði hann orðtakið "að vefjast tunga um höfuð" í merkingunni að verða svarafátt.
Í fyrsta þætti þessa umsjónarmanns um íslenskt mál, laugardaginn 23. febrúar síðast liðinn, notaði hann orðtakið "að vefjast tunga um höfuð" í merkingunni að verða svarafátt. Orðtakið hefur komið einhverjum ókunnuglega fyrir sjónir eins og línur úr annars vinsamlegu bréfi, sem umsjónarmanni hefur borist, bera með sér:

"Eins glaður og ánægður og ég varð er ég sá að Mbl. ákvað að taka upp þráðinn um íslenzkt mál, jafn hissa varð ég, er ég sá upphafið á fyrstu greininni þinni. Mér þykir menn gerast tungulangir ef þeir vefja henni um höfuð sér!!! [...] Hingað til hefur þetta heitið að vefjast tunga um TÖNN!! Enda öllu skiljanlegra með venjulega tungulengd! Ég vil svo gjarnan vona að þetta séu mistök - þetta er komið úr "íslenzku"-þáttunum hennar Bibbu á Brávallagötunni þegar hún gerði hvað mest grín að tungutaki fólks."

Umsjónarmaður þakkar bréfið og þá umhyggju fyrir móðurmálinu sem þar kemur fram. Téð orðtak flokkast þó ekki undir "mistök" heldur þekktist það í málinu löngu fyrir daga Bibbu á Brávallagötunni. Upphaflega merkti það að tungan (lausmælgi) kæmi einhverjum í koll, yrði honum jafnvel að bana. ""Og ætla eg ekki," sagði Úlfur, "að vera ginningarfífl hans. En gæti hann að honum vefjisk eigi tungan um höfuð,"" er haft eftir Úlfi Uggasyni í Brennu-Njáls sögu þegar Þorvaldur hinn veili sendi honum orð um að fara að Þangbrandi kristniboða og drepa hann. Dæmi er einnig að finna í Fljótsdæla sögu og Þorsteins sögu Síðu-Hallssonar.

Ekki er umsjónarmaður svo fróður að hann viti hvenær orðtakið fékk merkinguna að hafa ekki svar á hraðbergi en hana er að finna í Orðabók Sigfúsar Blöndals, útg. 1920.

Annars eru ýmsar bækur um orðtök og orðatiltæki til á íslensku, til dæmis má nefna Merg málsins eftir Jón Friðjónsson, og er hentugt fyrir þá, sem vilja flúra mál sitt, að grípa til slíkra bóka séu þeir ekki vissir um hvernig komast skuli að orði. Eða eins og Bibba hefði getað sagt: Það er betra að hafa vaðið fyrir neðan nefið.

Orðtök og föst orðasambönd eru snar þáttur í íslensku máli. Myndhverf orðtök eiga mörg hver rætur að rekja til gamalla og gleymdra atvinnuhátta og athafna. Það orðtak, sem snúið var út úr hér að ofan, hafa vaðið fyrir neðan sig, er frá þeim tíma þegar brýr voru sjaldgæfar og mjög tíðkaðist að vaða ár og læki.

Þar sem uppruni orðtakanna er nútímamönnum ekki ætíð ljós, hættir þeim stundum til að misskilja þau og þá spretta málblóm eins og þau sem Bibba lagði svo mikla rækt við. Til dæmis lá merking áðurnefnds orðtaks þeim, sem þetta ritar, ekki í augum uppi þegar hann var yngri. Hvernig fóru menn að því að vaða fyrir neðan sig? Og af hverju var það talið öruggara?

Uppljómunin varð svo þegar ungi maðurinn áttaði sig á því að hér var á ferðinni nafnorðið vað en ekki sögnin vaða. Bókstaflega vísar orðtakið "til manns sem leggur út í á fyrir ofan vað ef vera kynni að hann hrekti af leið", svo vitnað sé til Mergs málsins, en almenn merking þess er að vera varkár.

Á þeirri öld hraðans, sem við lifum, geta orðtök og föst orðasambönd gengið úr skorðum í máli manna, til dæmis í samtölum í ljósvakamiðlum að ekki sé talað um beinar íþróttalýsingar þar sem tími til umhugsunar er oft naumur.

Umsjónarmaður var á dögunum að horfa á beina útsendingu frá fótboltaleik í spænsku fyrstu deildinni. Þar áttust við stórveldin og erkifjendurnir Real Madrid og Barcelona. Mikið gekk á og hafði þulurinn vart undan að lýsa. Börsungar fóru mjög halloka í fyrri hálfleik og varð þulnum þá að orði: "Barcelona-liðið er hvorki svipur né sjón." Ljóst er að þarna varð honum á í messunni og getur umsjónarmaður sér þess til að hann hafi slegið saman tveimur orðatiltækjum: vera ekki svipur hjá sjón, sem merkir að hafa hrakað eða farið aftur, og vera hvorki fugl né fiskur, þ.e. að vera svo sem ekki neitt.

Hvort orðatiltækið um sig hefði dugað prýðilega til að lýsa því sem fyrir augu bar á skjánum en hin "samþjappaða" mynd var meira en góðu hófi gegndi.

Svo haldið sé áfram að berja á íþróttafréttamönnum þá heyrði umsjónarmaður eftirfarandi í annarri fótboltalýsingu: "Það er stutt á milli hláturs og gráturs í boltanum." Þarna er komið skólabókardæmi um áhrifsbreytingu. Eignarfallið, sem allajafna er gráts, verður gráturs fyrir áhrif frá hláturs. Mikill er máttur rímsins. Breytingin er þó ekki orðin almenn enn sem komið er og verður vonandi bundin við fáa enn um sinn.

Skýrleiki - Mikils er það og vert, að hafa málsgreinirnar stuttar, ljósar og óflóknar; þetta er einkenni á hinum bestu sögum vorum, og kostur á hverju máli; en langar og flóknar málsgreinir eru þar í mót hinn mesti ókostur málanna.

[Jón Þorkelsson rektor, 1870.]

Karl Emil Gunnarsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.