9. apríl 2002 | Íþróttir | 497 orð | 1 mynd

Stúdentar meistarar þriðja árið í röð

Carl Thomas, annar tveggja Svía í liði ÍS, hampar bikarnum.
Carl Thomas, annar tveggja Svía í liði ÍS, hampar bikarnum.
ÍÞRÓTTAFÉLAG stúdenta varð á laugardaginn Íslandsmeistari í blaki karla eftir að hafa lagt Stjörnuna 3-0 í úrslitaleik. Sigur ÍS var nokkuð öruggur enda náðu leikmenn Stjörnunnar sér engan veginn á strik gegn sterku liði ÍS.
Garðbæingar byrjuðu þó ágætlega og Emil Gunnarsson fékk þrjú stig með góðum uppgjöfum en Stúdentar komust 10:9 yfir í fyrstu hrinu og það dugði Garðbæingum ekki að komast í 14:11 því Galinantonov Raditchkov, annar Búlgaranna í liði ÍS, lék mjög vel og skellti án afláts, bæði við net og ekki síður úr varnarlínunni. Vörn Stjörnunnar réð ekkert við hann í fyrstu hrinunni og hvað eftir annað skellti hann glæsilega í gólfið hjá mótherjunum, framhjá hávörninni og lágvörnin átti heldur engin svör. ÍS hafði betur 25:19.

Í annarri hrinu voru yfirburðir ÍS ef til vill enn meiri, Ástæðan var fyrst og fremst slök móttaka Stjörnumanna og Jóhann Már Arnarsson uppspilari Garðbæinga var alls ekki öfundsverður af því að spila upp fyrir liðið í þessum leik. Móttakan var ekki góð í fyrstu hrinu og hún snarversnaði í þessari og Stúdentar komust í 5:0 og 7:1 áður en Stjarnan náði að laga stöðuna aðeins, en Stúdentar létu forystuna aldrei af hendi þótt tvívegis munaði litlu, 13:12 og 15:14 en Stúdentar létu það ekki á sig fá og unnu 25:19 líkt og í fyrstu hrinu.

Martin A. Raditschkov, bróðir áðurnefnds Galins, átti fínan leik en hann er uppspilari ÍS. Gríðarlega snöggur og útsjónarsamur uppspilari sem mataði félaga sína vel. Hjá Stjörnunni var Matthías Haraldsson góður í stöðu fríherja í varnarlínunni og Vignir Hlöðversson átti ágæta skelli í þessari hrinu. Sóknir liðanna voru einfaldar og einsleitar, lítið var sótt á miðjunni, heldur var boltanum mest "mokað" út á kantana eða þá á varnarskellana, venjulega í stöðu tvö. Stúdentar unnu þriðju hrinuna 25:21, virtust slaka ósjálfrátt á framan af en settu síðan í botn og þurftu í raun ekki mikið til að leggja Stjörnuna sem reyndar að pressa aðeins á uppgjafirnar en það kom ekki vel út því 4-5 uppgjafir lentu utan vallar og þegar lið leikur ekki betur en Stjarnan gerði á laugardaginn dugar slíkt alls ekki.

Þrátt fyrir að sóknir liðanna hafi verið einhæfar, heldur meiri fjölbreytni var þó hjá Stjörnunni, eru kantskellar liðanna það sterkir að menn komast upp með einfaldleikann. Það var ef til vill til að fullkomna sóknina að ein fárra sókna ÍS á miðjunni var þegar liðið fékk síðasta stigið, stigið sem tryggði Íslandsmeistaratitilinn, það kom með frábærri sókn á miðjunni.

Stúdentar notuðu sömu fimm leikmennina allan leikinn og Stjarnan notaði sömu fimm auk þess sem Matthías kom inn sem fríherji í aftari línu.

Eins og undanfarin ár eru nokkir erlendir leikmenn í liði ÍS, tveir Búlgarar auk Zdravko Demirev, þjálfara og leikmanns liðsins, sem hefur búið hér á landi í mörg ár. Tveir Svíar eru einnig í liðinu og einn leikmaður frá Bosníu.

Bestir í liði meistaranna voru bræðurnir frá Búlgaríu, Galin, sem er örvhentur skellir, og Martin uppspilari.

Hjá Stjörnunni var Matthías ágætur í vörninni en móttakan hjá honum mætti vera betri eins og hjá fleiri leikmönnum liðsins að þessu sinni. Róbert K. Hlöðversson átti einnig fínan leik og var mjög traustur í sókninni, gerði varla mistök þar og var sérlega lunkinn að koma boltanum í gólfið hjá mótherjunum.

Skúli Unnar Sveinsson skrifar

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.