ÞAÐ hefur verið kunngjört á opinberum vettvangi að "einn mesti viðburður á Listahátíð í vor" verði "án efa flutningur hljómsveitarinnar Sigur Rósar, Hilmars Arnar Hilmarssonar og Steindórs Andersens kvæðamanns á Hrafnagaldri Óðins. Strax við undirbúning uppfærslu verksins hefur það vakið gríðarmikla eftirtekt og forvitni um allan heim, og víst er að augu heimsins munu beinast að Íslandi þegar það verður flutt hér". (Morgunbl. 19. mars sl.) Í framhaldinu segir meðal annars:
"Árið 1867 fullyrti norski fræðimaðurinn Sophus Bugge að kvæðið væri tilbúningur frá 17. öld, en kvæðið er til í pappírshandriti frá þeim tíma. Íslenskir fræðimenn með doktor Jónas Kristjánsson í fararbroddi hafa hins vegar hrakið aldursgreiningu Bugges með textafræðilegum og málfræðilegum rannsóknum á kvæðinu, og hefur Jónas jafnvel talað um að hér sé á ferðinni nýtt Eddukvæði."
Satt að segja hef ég undirritaður ekki kafað giska djúpt í rannsóknir á þessu gamla kvæði og farið mjög varlega í allar fullyrðingar um það. Ástæðan til varfærni minnar er einkum sú að kvæðið er ákaflega torskilið, líklega vegna þess að það mun vera mjög svo afbakað í öllum uppskriftum. En með því að ég hef nú verið kallaður til ábyrgðar fyrir endurreisn kvæðisins og væntanlegri heimsfrægð, þá má ég ekki við bindast að reyna að varpa nokkurri ljóstýru yfir það.
Í umræddri Morgunblaðsgrein segir tónskáldið góða sem hefur tekist á hendur það hlutverk að skapa tónlist við kvæðið, að sennilega viti enginn "hvað það nákvæmlega þýðir" en bætir síðan við: "Það er kannski ekkert verra fyrir okkur, því við getum þá farið þá leið að því sem okkur sýnist." Ef Hilmar Örn skyldi lesa þessar línur þá bið ég hann að skelfast hvergi; ég heiti honum því að mér mun ekki takast að finna í kvæðinu neina svo vitræna merkingu að ógnað geti tónsmíðum hans.
Safn Eddukvæða verður til
Áður en ég legg til atlögu við kvæðið sjálft verð ég að gera stutta grein fyrir því hversu það er til okkar komið.Hrafnagaldur var áður talinn eiga heima í þeim flokki fornra kvæða sem kölluð eru Eddukvæði, og eftir að hafa verið útskúfaður um skeið virðist hann nú vera aftur á leið í sinn forna félagsskap.
Eddukvæði eru fyrst og fremst þau kvæði sem varðveitt eru í svokallaðri Konungsbók, því fræga íslenska ljóðasafni sem nafn dregur af langri vist í bókasafni Danakonungs, en var skilað heim til Íslands ásamt sagnahandritinu Flateyjarbók vorið 1971. Konungsbók var rituð seint á þrettándu öld, segjum kringum 1270; það er að segja skömmu eftir að Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd, eða um þær mundir sem Gissur Þorvaldsson, jarl konungsins, var að gefa upp öndina saddur lífdaga.
Fátt er kunnugt með vissu um feril Konungsbókar fyrstu aldirnar, en árið 1643 komst hún í eigu Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti, og hefur hann skrifað ártalið og fangamark sitt á fyrstu blaðsíðu bókarinnar.
Brynjólfur biskup og samtíðarmenn hans héldu að kvæði þessi væru eftir Sæmund fróða Sigfússon, þann fræga galdramann sem prestur var í Odda á Rangárvöllum um og eftir 1100 (dáinn 1133). Þess vegna var kvæðasafnið kallað Sæmundar-Edda, og loðir sú nafngift við enn í dag, þótt mönnum sé nú löngu ljóst orðið að Sæmundur prestur á engan þátt í kvæðum þessum; flest eru þau eldri en frá hans dögum og hafa lifað í munnmælum uns þau voru færð í letur af ókunnum skrifurum á 12. og 13. öld. Sjálf er Konungsbók eftirrit eldri kvæðauppskrifta sem síðan hafa glatast.
Þótt Brynjólfi biskupi skjátlaðist um höfund kvæðanna þá skildi hann réttilega að hér hafði hann öðlast dýrmætan fjársjóð fornra fræða.
Kvæði Konungsbókar voru skrifuð upp hvað eftir annað - á pappír sem þá var kominn til sögunnar, og menn reyndu eftir megni að skilja þau og kryfja til mergjar. Í uppskriftirnar var jafnframt aukið nokkrum kvæðum sem menn töldu að væru skyldrar ættar. Sum þessara viðbótarkvæða voru tekin úr fornum handritum sem enn eru kunn, en önnur eru af óvissum uppruna vegna þess að heimildirnar eða forritin sem eftir var skrifað hafa glatast. Þannig varð til í stórum dráttum það heildarsafn sem á vorum dögum er birt í prentuðum útgáfum undir nafninu Eddukvæði. Samkvæmt uppruna skiptist kvæðasafnið sem hér segir:
Úr Konungsbók eru 29 kvæði: Völuspá, Hávamál, Vafþrúðnismál, Grímnismál o.s.frv.
Úr öðrum fornum handritum eru 4 eða 5 kvæði: Baldursdraumar (öðru nafni Vegtamskviða), Rígsþula, Hyndluljóð (með Völuspá hinni skömmu) og Gróttasöngur.
Úr glötuðum handritum eru einnig 4 eða 5 kvæði: Gróugaldur, Fjölsvinnsmál, Sólarljóð, Hrafnagaldur Óðins og loks Getspeki Heiðreks konungs.
Gróugaldur og Fjölsvinnsmál eru samstæð kvæði og kallast í útgáfum stundum Svipdagsmál.
Hrafnagaldur Óðins kallast öðru nafni Forspjallsljóð, og eru venjulega hafðar báðar fyrirsagnirnar í handritunum.
Getspeki Heiðreks konungs eru Gátur Gestumblinda sem svo kallast í útgáfu Jóns Árnasonar (Íslenzkar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur I).
Gáturnar eru að stofni til úr hinni fornu Heiðrekssögu, en hér er svörum Heiðreks konungs snúið í bundið mál.
Eins og vænta mátti reyndi Árni Magnússon að draga að sér þessar uppskriftir Eddukvæðanna þegar hann tók að safna handritum seint á 17. öld.
Í minnisgreinum um Eddu talar hann um "Sæmundar Eddur geysi margar" sem verið hafa í hans eigu. Þær fórust allar í brunanum mikla 1728 - nema ein, en í henni er ekki Hrafnagaldur Óðins. En nokkrar af Edduuppskriftunum höfðu borist til Stokkhólms áður en Árni fór að safna handritum, og svo eru yngri uppskriftir í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn og Landsbókasafninu í Reykjavík.
Nokkuð er misjafnt hver af viðbótarkvæðum handritanna eru tekin gild í nútíma útgáfum. Til að mynda er Sólarljóðum stundum sleppt, en stundum eru þau prentuð sem "viðauki" eða "bókarauki". Þau þykja eiga illa heima í flokki með hinum heiðnu Eddukvæðum af því að þau eru kristið helgikvæði; en hátturinn, sem er ljóðaháttur, tengir þau við Eddukvæðin, og heilræðin minna á Hávamál. - Hrafnagaldur hefur mátt búa við mjög misjafnt atlæti. Stundum hefur hann verið tekinn fullgildur sem Eddukvæði, en stundum lokaður úti.
Hefðargripur eða hornreka
Í fyrsta sinn var Hrafnagaldur gefinn út á prent í 1. bindi hinnar miklu Edduútgáfu Árnanefndar í Kaupmannahöfn 1787, og annaðist þá útgáfu Guðmundur Magnússon fornritafræðingur (1741-98). Guðmundur studdist við skýringar eftir séra Gunnar Pálsson í Hjarðarholti (1714-91). Hann kveðst hafa glímt við kvæðið í fulla fjóra mánuði, en með litlum árangri. En honum er kunnugt um að fleiri hafi átt í slíku basli; hann segir að Eiríkur Hallsson í Höfða, íslenskt góðskáld á 17. öld, hafi rannsakað kvæði þetta í áratug og fleygt því frá sér með þeim ummælum að hann skildi lítið eða ekkert í því.Engu að síður neyðist Guðmundur til að fjalla nokkuð um kvæðið í útgáfu sinni og birtir þýðingu þess (að sjálfsögðu á latínu) ásamt lærðum skýringum. Og margt í skilningi og skýringum Guðmundar lifir síðan áfram í skrifum yngri fræðimanna og þýðingum kvæðisins á ýmsar nútímatungur.
En Hrafnagaldur var ekki eina Eddukvæðið sem reyndist fyrri mönnum seigt undir tönn - enda raunar margt sem vefst fyrir skýrendum kvæða þessara enn í dag. Því var að vonum að menn legðu hinn torráðna Hrafnagaldur að jöfnu við önnur Eddukvæði til útgáfu og rannsókna; allt var þetta ærið strembið hvort sem var. Hrafnagaldur var tekinn sem fullgilt fornaldarkvæði allt fram til 1867 þegar norski fræðimaðurinn Sophus Bugge gerði úr garði hina fyrstu nútímalegu textaútgáfu Eddukvæða sem fyrr getur.
Þetta er enn í dag helsta handritaútgáfa kvæðanna; en þótt hún væri vönduð og fróðleg á sínum tíma þá stendur hún nú til bóta á ýmsan hátt.
Eitt af því sem sýnist þurfa endurskoðunar við er dómur Sophusar Bugge um aldur Hrafnagaldurs. Eins og fram kemur í margnefndri Morgunblaðsgrein og fleiri viðtölum við aðstandendur Listahátíðar, var úrskurður Bugges sá að Hrafnagaldur væri "tilbúningur frá 17. öld". Ég vitna orðrétt í ummæli hans (bls. xlvi-xlvii):
"Dette digt bör for Fremtiden udelukkes fra Samlingen af norröne mythiske og heroiske Kvæder. Det tilhörer utvivlsomt et ganske andet Standpunkt end alle de forhen omtalte Digte [þ.e. öll hin Eddukvæðin]; disse ere alle folkelige, alle gjengive de umiddelbart den Tids Forestillinger og poetiske Opfatning, i hvilken de ere blevne til, alle har de gaat fra Mund til Mund længe för de bleve optegnede; Forpjallsljóð derimod er et lærd Digt, forfattet i senere Tid af en Mand, som var vel bevandret, ja belæst i de gamle Kvæder og som med Tendents sögte at efterligne en længst forgangen Tids Digtning; det blev rimelig fra först af fæstet med Pen i Bog ... Skjönt det ikke mangler Tankedybde og skjönne Skildringer, giver det Indtrykket af en prangende Udstilling af mythologisk Lærdom ...
Forspjallsljóð er efter dette yngre end 13de Aarh.; ja ... [det] kan efter mit Skjön ikke være fra Middelalderen overhoved, men maa være fra nyere Tid. Jeg tror, at det ikke er ældre end 17de Aarhundred." En Bugge er raunar ekki sjálfum sér samkvæmur varðandi aldur kvæðisins. Hann segir á öðrum stað (bls. 140 í útg. sinni): "Tillige er det höjst sandsynligt, at Forspjallsljóð er digtet sent i Middelalderen som Indledningsdigt til den ældgamle Vegtamskviða." (Vegtamskviða er sem fyrr segir annað nafn á Baldursdraumum.) Það er að segja, hér gerir Bugge ráð fyrir að kvæðið sé frá miðöldum, en á áður tilvitnuðum stað telur hann það frá 17. öld.
Flestir síðari útgefendur Eddukvæða hafa orðið við fyrirmælum Bugges og útilokað Hrafnagaldur frá útgáfum sínum. Þó hefur kvæðið fengið að fljóta með í ýmsum endurprentunum af eldri útgáfum, svo og í sumum þýðingum á erlend mál. Til að mynda hefur það verið margprentað í hinni frægu þýsku Edduþýðingu eftir Karl Simrock - þeirri sem var ein meginstoð Wagners þegar hann samdi Ring des Nibelungen.
Þótt Hrafnagaldur hafi verið að mestu sniðgenginn í útgáfum Eddukvæða á móðurmáli í meir en heila öld, hafa ýmsir lesendur og fræðimenn rennt til þess forvitnum augum. Tónskáldið Hilmar Örn kveðst lengi hafa hrifist af því, og nú fáum við senn að njóta ávaxtanna af viðleitni hans.
Metnaðarfyllsta rannsókn frá síðari tímum er útgáfa með skýringum eftir Eystein Björnsson og William P. Reaves, sem birst hefur á lýðnetinu og er þar öllum aðgengileg sem ráða yfir þeirri nútímatækni sem netið býður, að fengnu leyfi útgefenda. Þarna er um að ræða útgáfu kvæðisins með ljósriti eins handrits, enska þýðingu, skýringar og túlkun kvæðisins. Þeir félagar byggja rannsóknir sínar fyrst og fremst á rúmlega aldargömlu verki eftir sænska fræðimanninn og skáldið Viktor Rydberg (1828-95): Undersökningar i Germanisk Mythologi I-II, sem út kom í Stokkhólmi 1886-89. "He is the "only begetter" of these pages, our veritable Mímir," segja þeir. - Við tilraun mína til að endursegja efni kvæðisins hér á eftir hef ég að sjálfsögðu litið á túlkun þeirra Eysteins og Williams, en treysti mér ekki, að svo stöddu, til að meta hana í heild sinni.
Hvenær er Hrafnagaldur til orðinn?
Lítum þá nánar á röksemdir Bugges fyrir ungum aldri kvæðisins. Þær eru vissulega ekki allar úr lausu lofti gripnar. Kvæðið stingur í stúf við önnur Eddukvæði. Að mati Bugges bregður þar fyrir mjög unglegu orðfæri, og þar má heyra endurhljóm frá kunnum fornum kvæðum.En sumt sem Bugge tínir fram til marks um unglegt málfar ("meget sent Sprogstadium") er raunar á misskilningi byggt, og annað getur verið sprottið af því hve kvæðið er hörmulega afbakað.
Hitt er rétt að í kvæðinu bregður fyrir orðalagi sem áreiðanlega er sótt í fornt kvæði, það er að segja í Völuspá. Meira að segja virðist mega greina áhrif frá ritvillum sem er að finna í uppskrift Völuspár í Konungsbók. Dæmi um eftirhermur eftir Völuspá í Hrafnagaldri:
1. vísa: elur íviðjur. Sbr. níu íviðjur, Vsp. 2.
5. vísa: Vitið enn, eða hvat? Sbr. stefið í Vsp.: Vituð ér enn, eða hvat?
7. vísa: harðbaðms (eða hárbaðms) undir / haldin meiði. Sbr. Vsp. 19: Ask veit ek standa, / heitir Yggdrasill, / hár baðmr, ausinn / hvíta auri.
12. vísa: Né mun mælti, / né mál knátti. Sbr. Vsp. 5: Sól þat né vissi ... / stjörnur þat né vissu ... / máni þat né vissi ...
13. vísa: Einn kemur austan. Sbr. Vsp. 50: Hrymr ekr austan.
13. vísa: mæran of Miðgarð. Sbr. Vsp. 4: þeir er Miðgarð / mæran skópu.
19. vísa: sjöt Sæhrímni / saddist rakna. Sbr. Vsp. 41: rýðr ragna sjöt / rauðum dreyra.
23. vísa: gengu frá gildi, / goðin kvöddu. Sbr. Vsp. 23: Þá gengu regin öll / á rökstóla, ... eða skyldu goðin öll / gildi eiga.
24. vísa: Jörmungrundar / í jódyr nyrðra. Sbr. Vsp. 5: Sól varp sunnan, / sinni mána, / hendi inni hægri / of himin jódyr (skr. iodyr í Konungsbók, talið af flestum villa f. jöður, og svo stendur í Hauksbók, ioður).
Nú skal telja nokkrar röksemdir fyrir því að Hrafnagaldur sé eldri en frá 17. öld:
1. Kvæðið er ákaflega torskilið eins og oft hefur komið fram. Má vera að ástæðan sé að einhverju leyti sú að skáldið hafi líkt eftir orðalagi fornra kvæða, svo sem Völuspár, sem hann hefur þó aðeins getað skilið að takmörkuðu leyti; þannig hafi hann vísvitandi hrönglað saman torráðnum orðum og setningum. En slíkt væri raunar eins dæmi um íslenskt skáld (fyrr en þá á allra síðustu tímum), og er hitt miklu sennilegra að kvæðið sé svo torskilið vegna þess að það hafi afbakast á vegferð sinni, fyrst líklega í munnmælum og síðan í uppskriftum. Þá hlýtur það að eiga nokkuð langa leið að baki og getur ekki verið "fæstet med Pen i Bog" á 17. öld.
2. Það er samdóma álit flestra þeirra sem um kvæðið hafa fjallað að það muni vera óheilt. Fyrsti útgefandinn, Guðmundur Magnússon, telur að á það muni vanta bæði upphaf og endi. Finnur Magnússon gerir ráð fyrir því í Edduþýðingu sinni (1822, II, bls. 209, 213) að eitthvað hafi glatast innan úr kvæðinu. En ef kvæðið er óheilt mælir það auðvitað gegn því að það geti verið ort á bók á 17. öld. Allar elstu uppskriftirnar eru mjög svo samhljóða.
3. Í bréfi sem Árni Magnússon skrifaði vini sínum, séra Jóni Halldórssyni í Hítardal, 18. júní 1729 varðandi handritabrunann í Kaupmannahöfn 1728 er klausa um Hrafnagaldur Óðins. Bréf þetta var lengi aðeins kunnugt í danskri þýðingu eftir Skúla Thorlacius rektor, og í þá þýðingu vitnar Bugge í formála sínum, bls. xlviii. En nýlega fannst íslenska frumritið ásamt fleiri skjölum Árna, og hefur Jón Margeirsson birt þau í 5. bindi af Opuscula Arnamagnæana. Klausan um Hrafnagaldur er á þessa leið:
"Eg hafði (sem brann) bréf sal. síra Ólafs, skólameistara okkar [þ.e. Ólafs Jónssonar Skálholtsrektors, d. 1688], áhrærandi eina af þessum odis [þ.e. Eddukvæðum], mig minnir Hrafnag. Óðins, að mag. Brynjólfur hafi þá kviðu uppskrifa látið eftir gömlu saurugu einstaka blaði, og minnir mig þar stæði að þar aftan við hefði vantað, og eins kynni um fleira gengið vera. Þetta verður so sem allt í þoku, því documentin eru burtu." Bugge telur að á þessu sé "lidet at bygge". En það er öðru nær.
Árni Magnússon var sem kunnugt er ákaflega fróður og skýr í öllu sem hann lét frá sér fara, og þótt hann tali með varúð er einboðið, uns annað sannast, að trúa því að hér sé rétt frá sagt. Ástand Hrafnagaldurs fellur einmitt mjög vel að því að Brynjólfur biskup hafi látið skrifa hann eftir "gömlu saurugu einstaka blaði" og hafi niðurlag kvæðisins vantað.
En þótt líkur séu til að Hrafnagaldur sé eldri en frá 17. öld, þá er hann ekki eldri en allt sem gamalt er:
Hann er yngri en Völuspá sem flestir telja orta á mörkum heiðni og kristni, sem sé kringum 1000.
Hann er að líkindum yngri en Konungsbók Eddukvæða sem talin er rituð um 1270.
En gleggsta merki um fremur ungan aldur kvæðisins er að kveðandi heimtar að sett sé inn sníkjuhljóðið u á undan r-i (maðr verður maður o.s.frv.). Sníkjuhljóð þetta kemur inn í kveðskap á 14. öld. Það er t.d. ómissandi í sumum vísum sem ortar eru inn í Íslendingasögur á fyrra hluta þeirrar aldar, svo sem Grettissögu og Harðasögu. Dæmi til sönnunar, úr Grettissögu: afl fangvinur Hafla (38.v.); þarfur Vébrands arfi (67. v). Úr Harðarsögu: silfurkers Gná þessa (4. v.); minn varð mágur, hranna (13. v.).
Sníkjuhljóðið er ómissandi í Hrafnagaldri. Ef því er sleppt, eins og stundum er gert í útgáfum, verður allt of mikið af þríkvæðum vísuorðum sem ella eru mjög fágæt í kvæðinu. Dæmi til skýringar (sníkjuhljóðinu sleppt): hverfr því hugr, grand ef dvelr, þunga draumr þótti, opt Alsviðr, aptr safnar, o.s.frv. - Þetta stenst ekki af bragfræðilegum ástæðum, og sýnir það að Hrafnagaldur getur ekki verið eldri en frá 14. öld.
Tvö heiti kvæðisins.
Í öllum handritum hefur kvæði þetta tvær fyrirsagnir: Hrafnagaldur Óðins Forspjalls ljóð. Venjulega er síðara heitið ritað sem "undirfyrirsögn" með smærra letri. Að sjálfsögðu hafa menn velt fyrir sér merkingu eða tilefni þessara heita og reynt að skýra þau.Lítum fyrst á síðara heitið. Forspjallsljóð hlýtur að merkja sama sem "formáli í ljóðum". En fyrir hverju er þá þessi formáli? Sú skoðun kemur þegar fram hjá séra Gunnari Pálssyni að kvæðið sé gert sem inngangur að Baldursdraumum eða Vegtamskviðu sem varðveitt er í systurhandriti Konungsbókar, fornu og óheilu (AM 748 4to).
Í Vegtamskviðu segir frá því að Baldur dreymir þunga drauma og ískyggilega. Óðinn fer til heljar að leiði "vitugrar" völu að leita vitneskju, og segir hún honum fyrir um dauða Baldurs. Gunnar Pálsson og mjög margir fræðimenn á eftir honum, meðal annarra Sophus Buge, telja að Vegtamskviða taki til þar sem Forspjallsljóðum lýkur, og myndi kvæðin í raun eina heild. Meður því að hrafnar koma ekki fyrir í kvæðum þessum setti séra Gunnar fram þá kenningu að heildarheiti hins samskeytta kvæðis ætti að vera Hræfagaldur Óðins; nafnið hefði verið ritað Hræfvagaldr, og v mislesið sem n. Þetta á að vera sama sem valgaldr, en það orð kemur fyrir í Vegtamskviðu (4. v.). Bugge og fleiri hafa mælt með þessari nafnbreytingu.
En hún er ærið langsótt og byggist á því að Hrafnagaldur og Vegtamskviða séu eitt kvæði sem er mjög ólíklegt. Samkvæmt hinum varðveitta texta Hrafnagaldurs er engu nær að kenna kvæðið við hræ heldur en hrafna.
Vegtamskviða er sem fyrr segir varðveitt í fornu handriti, en í sautjándu aldar uppskriftunum eru innskot í kvæðið af óvissum aldri og uppruna, prentuð hjá Bugge, bls. 138-39. Bugge hyggur að sama skáld hafi ort hvort tveggja, Hrafnagaldur og innskotsvísurnar í Vegtamskviðu. En þær vísur eru einfaldar og auðskildar og líkjast ekki Hrafnagaldri minnstu vitund. (Eitt orð sem á að vera sameiginlegt, jólnar, er aðeins misritun fyrir jötnar í einu ungu handriti Vegtamskviðu.)
Danski fræðimaðurinn Martin Hammerich setti hinsvegar fram þá tilgátu að Hrafnagaldur kallist Forspjallsljóð af því að kvæðið sé einskonar inngangur að Völuspá (sem raunar sé eldra kvæði), sjá ritling hans Ragnaroksmythen (1836). Þessi kenning virðist vera miklu nær sanni en hin síðast nefnda um Vegtamskviðu: (1) Við höfum séð að höfundur Hrafnagaldurs hefur vissulega þekkt Völuspá, en vitum í raun og veru ekkert um kynni hans af Vegtamskviðu. (2) Í Hrafnagaldri er ekki verið að leita spáfrétta um dauða Baldurs eins og í Vegtamskviðu, heldur um framtíð heimsins almennt eins og í Völuspá. Því til sönnunar má benda á 11. vísu, sem virðist að miklu leyti skiljanleg - að vísu með einni smá-lagfæringu: "Frá hinn vitri / veiga selju (konuna) / banda vörður (vörður goðanna, Heimdallur) / ... heims ef vissi / ártíð, ævi, / aldurtila." Það er að segja, Heimdallur spyr hina vísu gyðju Iðuni um uppruna, feril og endalok heimsins - eins og Óðinn spyr völuna í Völuspá.
Víkjum þá að hinu heitinu, Hrafnagaldur Óðins. Það er enn torskýrðara vegna þess að í kvæðinu virðist alls ekki minnst á hrafna þessa. Raunar kemur í 2. vísu fyrir orðið hugur ("hverfur því hugur"), og hafa margir skýrendur talið að þar sé skáldið að tala um Hugin, annan hrafna Óðins. Hafa sumir jafnvel breytt orðinu í þá veru. - En ég tel fjarstæðu að hugur geti verið sama sem Huginn. Og jafnvel þótt orðinu sé breytt í Huginn, þá nægir það ekki eitt sér til þess að gefa kvæðinu heitið Hrafnagaldur Óðins.
Árni Magnússon segir (að vísu með varúð eins og fyrr getur) að niðurlag kvæðisins vanti. Ef það er rétt hefur það getað verið mun lengra en nú er. Líklegast verður að telja, eins og Finnur Magnússon giskar á í Edduþýðingu sinni, að skýringin á nafninu Hrafnagaldur Óðins hafi komið fram í þeim hluta kvæðisins sem nú sé glataður. Og sama máli getur auðvitað gegnt um hitt heiti kvæðisins, Forspjallsljóð; skýringin á því kann einnig að hafa farið forgörðum ásamt síðara hluta Hrafnagaldurs.
Höfundur er fyrrverandi forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar.